Úkraínumaðurinn Artem Dovbyk hefur verið iðinn við kolann fyrir Girona.
Úkraínumaðurinn Artem Dovbyk hefur verið iðinn við kolann fyrir Girona. — AFP/Pau Barrena
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pere var sá skírður og er litli bróðir Peps, knattspyrnustjóra Manchester City. Hann er nú stjórnarformaður Girona.

Þegar staðan er tekin á toppbaráttunni í þremur af öflugustu sparkdeildum Evrópu, efstu deild í Englandi, Þýskalandi og á Spáni, núna rétt fyrir jólin þá koma nöfn sumra liðanna manni spánskt fyrir sjónir, alltént í þessu samhengi. Þau eru ekki vön að vera á þessum slóðum eða hafa í öllu falli ekki verið það lengi.

Byrjum á Spáni. Það er svo sem ekkert undarlegt að nöfn liðanna þar komi manni spánskt fyrir sjónir – en þið skiljið hvað ég er að fara. Hér erum við auðvitað að tala um Girona, lið með afskaplega fábrotna sögu sem leitt hefur La Liga á þessu hausti. Tapaði að vísu toppsætinu til Real Madrid á fimmtudaginn, á markamun. Liðið var stofnað árið 1930 en lék fyrst í efstu deild veturinn 2017-18. Þetta er raunar aðeins fjórða tímabil Girona í La Liga og hæst hefur liðið hafnað í 10. sæti, 2018, og í fyrra.

Sannkallað öskubuskuævintýr, myndi maður ætla – þangað til litið er á eignarhaldið. Þá kemur nefnilega í ljós að Girona er systurfélag Englands- og Evrópumeistara Manchester City. City Football Group sem er með varnarþing í Abu Dhabi og á Manchester City með húð og hári eignaðist 44,3% hlut í Girona sumarið 2017. Sá hlutur nemur nú 47%. Ergó!

Af öðrum eigendum Girona má nefna bólivíska athafnamanninn og auðkýfinginn Marcelo Claure og Girona Football Group, hóp sem frontaður er af manni með kunnuglegt ættarnafn, Guardiola. Pere var sá skírður og er litli bróðir Peps, knattspyrnustjóra Manchester City. Hann er nú stjórnarformaður Girona.

Eðlilegt er að skoða þá staðreynd að Girona fari nú með himinskautum í þessu samhengi en það breytir ekki því að hefðin þarna er engin og heimavöllur liðsins, Estadio Municipal de Montilivi, tekur ekki nema 14.600 manns í sæti. Knattspyrnustjóri er Spánverjinn Míchel, fæddur 1975, sem áður gerði góða hluti hjá bæði Rayo Vallecano og Huesca; hann hefur komið öllum þessum þremur liðum upp í La Liga.

Hvort Girona hefur úthald og styrk til að kljást við Real Madrid og mögulega Barcelona er líður á veturinn verður fróðlegt að sjá.

Bayer Neverkusen

Enda þótt Bayern München virki ógnarsterkt, enn og aftur, og Harry Kane skori nánast með hverri snertingu sinni og jafnvel í mörk sem ekki eru til, þá hefur Bayer Leverkusen leitt Búndeslíguna á þessu hausti. Rétt eins og Girona hefur Bayer aldrei orðið landsmeistari; komst grátlega nálægt því í nokkur skipti í kringum aldamótin en aldrei gekk rófan. Frægt er vorið 2002, þegar Bayer hafnaði í öðru sæti í Búndeslígunni, bikarnum og Meistaradeild Evrópu. Þá gátu blessaðir æringjarnir ekki lengur á sér setið og uppfærðu nafnið – Bayer Neverkusen.

Hvort Bayer er þess umkomið að brjóta af sér þá aumu hlekki í vetur er of snemmt að segja til um. Liðið hefur hins vegar leikið frábærlega undir stjórn Spánverjans Xabis Alonsos og er taplaust á toppnum; hefur unnið 13 af 16 deildarleikjum sínum og er eina þýska liðið í sögunni sem farið hefur án taps gegnum fyrstu 25 leiki vetrarins í öllum keppnum. En lítið svigrúm er til að misstíga sig þegar maður er með Bayern München á hælunum. Það lærði Dortmund með illu síðasta vor.

Alonso tók við Bayer fyrir síðustu leiktíð og skilaði strax góðu verki, sjötta sætinu í Bundeslígunni. Hann hefur greinilega ekki legið í sólbaði í sumar, því lið hans rauk upp úr rásblokkunum í haust og ætlar greinilega að láta á erindi sitt reyna.

Fornfrægt félag

Aston Villa hefur væntanlega tyllt sér á topp ensku úrvalsdeildarinnar í gærkvöldi (leiknum gegn botnliði Sheffield United var ekki lokið þegar blaðið fór í prentun). Engum bregður við það en ekkert lið hefur verið í betra formi undanfarnar vikur, Villa sýndi og sannaði að liðið er hreint ekkert að grínast þegar það lagði bæði Arsenal og Manchester City í sömu vikunni nú í desember.

Öfugt við Girona og Bayer Leverkusen er Aston Villa sigursælt félag, býr að heilum sjö Englandsmeistaratitlum, sex þeirra komu þó fyrir árið 1910. Sá síðasti 1981. Ári síðar varð Villa Evrópumeistari meistaraliða. Síðan hefur lítið verið að frétta og Villa hvergi komið nálægt toppbaráttunni í þrjátíu ár. Metnaðurinn hefur þó verið til staðar en treglega gekk að finna rétta manninn til að leiða verkefnið.

Steig þá ekki inn á sviðið enn einn Spánverjinn, Unai Emery. Þjálfari með ljómandi góða ferilskrá, þrjá Evrópudeildartitla með Sevilla og einn með Villarreal og franskan deildarsigur með Paris St. Germain. Hann passaði á hinn bóginn illa í skóna hans Arsènes Wengers hjá Arsenal fyrir nokkrum árum og einhverjir héldu jafnvel að England væri ekki hans tebolli. Emery hefur á hinn bóginn nýtt þau vonbrigði sem eldsneyti og gjörbylt liði Villa sem satt best að segja virðist til alls líklegt í vetur.

Menn hafa að vísu aðeins áhyggjur af breiddinni en janúarglugginn er á næsta leiti og þar hlýtur Emery að fá allt sem hann biður um.