Sterk tilfinning „Í bókinni er engu að síður sterk tilfinning og stundum er hún bæði fyndin og svolítið tragísk,“ segir rýnir um nýjustu skáldsögu Auðar Jónsdóttur sem nefnist Högni.
Sterk tilfinning „Í bókinni er engu að síður sterk tilfinning og stundum er hún bæði fyndin og svolítið tragísk,“ segir rýnir um nýjustu skáldsögu Auðar Jónsdóttur sem nefnist Högni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Högni ★★★·· Eftir Auði Jónsdóttur. Bjartur, 2023. Innb., 202 bls.

Bækur

Kristján Jóhann

Jónsson

Aðalpersóna þessarar sögu er embættismaðurinn Högni sem er millistjórnandi hjá Framtíðarstofnun borgarinnar og jafnframt tilfinningakaldur kvennabósi. Bergrós, fyrrverandi leikkona, er líka á sviðinu á frásagnartímanum, ekki þó í endurlitum Högna nema að litlu leyti. Í þeirri fortíð sem fjarlægari er en samband þeirra Bergrósar leggur sögumaður mikið upp úr því að gera okkur ljóst hver Högni sé í raun og veru. Það gerist þó á eilítið mismunandi hátt eftir köflum. Fyrsti kaflinn heitir „Hann“ og sá titill vísar væntanlega til þess manns sem Högni var, og er enn drjúgan hluta frásagnartímans. Annar hluti heitir „Hvarf“, þar er sagt frá illvígu mótlæti Högna sem hagar sér ekki rétt og ástundar kvensemi og dónaskap og skæting sem hann kallar fyndni. Þriðji hlutinn heitir „Ég“ og þar leggur Högni sögumannshlutverkið undir sig og tjáir okkur „þann lífskjarna“ sem hann gat ekki sagt okkur áður.

Leikkonan Bergrós er ástkona Högna þegar sagan hefst. Hún hefur verið á námskeiði hjá gúrú í Prag og heldur úti námskeiðum í „lífskjörnun gegnum tjáningu“. Fleiri persónur koma vissulega við sögu en þær eru í meiri fjarska. Margsinnis er að því vikið að Högni sé víkjandi og reyni að vera ekki fyrir öðrum í þeirra lífi, en það kemur líka oft fram að hann geri það sem honum sýnist, sé illyrtur og meinhorn. Þetta virðist ekki eiga vel saman þó að auðvitað geti persónuleiki verið mótsagnakenndur, bæði hjá skáldsagnapersónum og okkur sem teljumst raunveruleg.

Sagan hefst þar sem Högni situr í hálfgerðu volæði við skrifborð sitt og kemur sér ekki að verki, þó að hann sé annars sagður bæði duglegur og vel menntaður. Á hann leitar samtal þeirra Bergrósar kvöldið áður og það gæti ýmsum fundist bæði tilfinningasamt og kjánalegt, eiginlega eins og tvær gelgjur væru að tala saman. Þegar lengra er lesið kemur hins vegar fram að Högni er um fimmtugt og Bergrós eilítið yngri.

Högni er lífsreyndur maður, á að baki sjö ára hjónaband og son á grunnskólaaldri með fyrrverandi eiginkonu, Gunni Erlu. Hún kemur meira við sögu þegar á líður og er nokkuð sannfærandi persóna. Högni er vel menntaður sérfræðingur sem fær ágæta stöðu hjá Framtíðarstofnun en kemur ár sinni ekki vel fyrir borð á vinnustaðnum. Hann er í unglingslegri uppreisn gegn forstjóranum, sem er reyndar óheiðarlegur klíkukarl, og hann er í stöðugum klámbréfaskiptum á tölvunni – við kornunga og fagra stúlku sem er samskiptafulltrúi fyrirtækisins. Þau leika sér að því að ögra hvort öðru með kynlífstali, eru að daðra eða í einhvers konar andlegu framhjáhaldi. Hún segir að hann líti út eins og George Clooney ef hann muni eftir að greiða yfir skallablettinn, það finnst honum skemmtilegt en við fáum ekki að vita hvers vegna þessi unga stúlka stendur í klámdaðri við þennan karl. Hann telur að um einlægan vinskap sé að ræða.

Í sögunni er nokkuð um kynjaátök og karlmenn eru snarlega reknir til baka ef þeir ætla upp á dekk með hrútskýringar, en það er skemmtilegt hjá Auði að hún lætur Högna svara fyrir sig í slíkum átökum og frábiðja sér „ærskýringar“ sem væntanlega eru þá einhliða og uppblásnar viskuyfirlýsingar frá konum, oft um karla. Smám saman harðnar á dalnum hjá Högna. Hann fær storminn í fangið og er umkringdur reiðum konum og kvenlegum skilgreiningum (ærskýringum?) á sér og því hvað ami að honum og hvað hann geti gert til þess að ráða bót á því. Hann kemur leiðinlega fram gagnvart bæði móður sinni og kærustu, hann er krafinn svara um það hvort hann geti elskað og snýr sig út úr því með kjafthætti og rekur kærustuna út, þó að það verði reyndar ekki varanlegt. Á börum bæjarins reynist vera löng röð kvenna sem hann hefur tælt, svikið og sært, þær ná stundum að bera saman bækur sínar honum til lítillar gleði. Svo lendir hann í átökum við yfirmann sinn á vinnustað og á höggstokki samfélagsmiðla. Eftir því sem sögunni vindur fram gengur Högna allt í mót. Hann reynist vera tilfinningakaldur, ástlaus, í illvígum tilfinningahnút gagnvart foreldrum og líka fyrri eiginkonu og syni. Svo er hann smávaxinn og geðstirður með skallablett. Nærtæk ærskýring væri að það sé vegna þess að karlmenn séu jafn illa heppnaðir og raun ber vitni!

Það er ekki auðvelt að átta sig á því hvers lags maður Högni er eiginlega. Það er svo margt sem er misvísandi í fari hans. Vissulega er hann eins og segir í gömlu kvæði: „þrjóskur, þrár, þykkjukaldur og hyggjuflár“. Konur standa hins vegar bak við hann eins og tilfellið var með fræga persónu úr leikbókmenntunum, án þess að honum sé þar með líkt við Pétur Gaut.

Textinn á þessu verki er ekki alltaf jafngóður. Ýmislegt af því sem líklega á að vera fyndið missir marks. Það truflar mig að minnsta kosti þegar sagt er að menn séu „að grafa undan sér og reyna að losna við sig“. Persónulýsingar eru á köflum svolítið tætingslegar. Lýsingin á Högna er um sumt eins og dágott safn neikvæðra hugmynda um karlmenn og karlmennsku og skoðana á orsökum karlmannlegra bresta og mögulegum úrbótum á þeim. Það er ekkert rangt við það. En Högni verður að mínu mati ansi eintóna persóna vegna þess hve einsleitur hann er.

Í bókinni er engu að síður sterk tilfinning og stundum er hún bæði fyndin og svolítið tragísk. Sagan af Högna er eiginlega ranghverf kolbítssaga. Þeir sem vilja skilja hvað ég á við með því verða að lesa bókina.