— AFP/Joseph Prezioso
Jæja, eins og maðurinn sagði, þá eru blessuð jólin að koma með allri sinni dýrð, friði og gleði. Eða það skulum við í öllu falli vona. Auðvitað eiga margir um sárt að binda yfir hátíðirnar, eins og gengur, en vonandi tekst þó að veita ofurlítilli birtu inn í líf þeirra, eigi að síður

Jæja, eins og maðurinn sagði, þá eru blessuð jólin að koma með allri sinni dýrð, friði og gleði. Eða það skulum við í öllu falli vona. Auðvitað eiga margir um sárt að binda yfir hátíðirnar, eins og gengur, en vonandi tekst þó að veita ofurlítilli birtu inn í líf þeirra, eigi að síður.

Ærslabelgurinn Trölli er kunnur fyrir tilburði sína til að reyna að stela jólunum frá okkur hinum og grannt hefur að vonum verið fylgst með kappanum á aðventunni svo hann geri sem minnst af sér. Ef marka má nýjustu fréttir þá ættum við að vera svo gott sem hólpin en síðast spurðist nefnilega til Trölla í fjöllunum, þar sem hann er víst best geymdur. Eins og fleiri.

Til að gæta enn meiri nákvæmni þá náðist þessi prýðilega mynd af Trölla á Sunday River-skíðasvæðinu í Newry í Maineríki í Bandaríkjunum fyrir örfáum dögum. Virtist kappinn una hag sínum vel í brekkunum og tók hverja salibununa af annarri. Fátt hefur þá líklega staðið honum fjær en jólastuldur enda þótt glannalegt væri að útiloka það með öllu. Mögulega hefur hann bara verið að afvegaleiða gæslumenn sína.

Nei, nei, látið okkur, æringjana hér á Sunnudagsblaðinu, ekki hræða ykkur. Trölli er vitaskuld ekki persóna af holdi og blóði, heldur hreinn og ómengaður skáldskapur. Við erum að segja ykkur það! Hann er hugarfóstur rithöfundarins og skopmyndateiknarans Dr. Seuss og birtist fyrst í barnabók hans, How the Grinch Stole Christmas, árið 1957. Hann fer sumsé bráðum að detta í sjötugt, karlinn.

Fjölmargir heimfrægir leikarar hafa spreytt sig á hlutverki Trölla gegnum tíðina. Má þar nefna Boris Karloff, Walter Matthau, Benedict Cumberbatch, Rik Mayall og svo auðvitað Jim Carrey.