[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Útvarpsmessunni var að ljúka. Kirkjuklukkur myndu þá hringja inn hátíðina en þegar þær þögnuðu yrði fátt sem minnti á jólin í litlu íbúðinni hans Einars. Einungis engill sem hafði tilheyrt móður hans gæfi til kynna að þau væru gengin í garð

Útvarpsmessunni var að ljúka. Kirkjuklukkur myndu þá hringja inn hátíðina en þegar þær þögnuðu yrði fátt sem minnti á jólin í litlu íbúðinni hans Einars. Einungis engill sem hafði tilheyrt móður hans gæfi til kynna að þau væru gengin í garð. Í eldhúskytrunni mallaði saltkjöt í litlum potti en Einar hafði ekki séð ástæðu til að spandera í fínan jólamat handa sér einum, þrátt fyrir að eiga einnig afmæli. Afstaða hans til matar var sú að hann borðaði til að hafa orku til athafna, alveg eins og vörubíllinn hans þurfti á bensíni að halda til að vera ökufær. Sá stóð nú fyrir utan húsið, pallurinn hlaðinn timbri og öðru afgangsefni sem hann hafði safnað eftir að vinnu lauk handa krökkum í nágrenninu. Þetta voru ágætustu grey sem áttu sér stóra drauma um áramótabrennu sem þau voru að undirbúa en í augnablikinu minnti brennan meira á þúfu en almennilegan bálköst. Einar hlakkaði til að sjá upplitið á þeim þegar hann afhenti þeim veglega stæðuna.

Í bland við klukknahljóminn í útvarpinu bárust hljóð úr fjölbýlishúsinu. Hljóðin voru ámóta jólaleg og saltkjötið sem flaut í pottinum. Þetta var ekki glasaglamur, hlátrasköll eða ómur af jólalögum. Einar gat ekki betur heyrt en að þetta væru lágvær óp. Fyrir vikið þurfti hann ekki að velta því lengi fyrir sér frá hvaða íbúð hljóðin bárust. Þau hlutu að eiga uppruna sinn á heimili Lovísu, ungrar konu sem bjó ein í næstu íbúð. Hún var alla jafna hljóðlátur nágranni en átti í sambandi við mann sem Einar grunaði að færi illa með hana. Nokkrum sinnum hafði honum ofboðið og bankað upp á. Aldrei kom neinn til dyra en afskiptin höfðu þau áhrif að það sljákkaði í óberminu. Þar til næst.

Það kæmi að því að Einar brytist inn og léti til sín taka. Hann var sterklega vaxinn og gæti auðveldlega ráðið við þennan aumingja. Hann fann til með Lovísu enda aðstæður hennar ekki ólíkar hans eigin móður sem hafði laðast að hverjum ofbeldismanninum á fætur öðrum eftir að pabbi Einars lét sig hverfa. Sá hafði ekki einu sinni fengist til að gangast við Einari, hvað þá greiða með honum eða aðstoða við uppeldið.

Það hafði ekki heldur farið framhjá Einari að Lovísa bar barn undir belti. Barnsins biði svo eflaust hlutskipti Einars – vinalaus lausaleikskrói sem yrði alinn upp í fátækt, með bætur á hnjám í of stuttum buxum. Það var þó huggun harmi gegn að Lovísa var að upplagi ekki ósvipuð mömmu hans. Ófædda barnið fengi ómælda ást og hlýju og slíkt gat auðvitað að einhverju leyti bætt fyrir skort á lífsins gæðum.

Einar lét hugann reika, fyrst hann var byrjaður að rifja upp minningar um mömmu sína. Gat hugsast að líkindin væru algjör? Að ópin nú væru ekki eftir högg frá grimma elskhuganum heldur barnið að koma í heiminn, eins og Einar sjálfur á aðfangadag fyrir tæpum fimmtíu árum? Hann slökkti á útvarpinu og lagði eyrað upp að veggnum sem skildi íbúðirnar að. Húsið var hrákasmíð, enda leigan lág. Hann gat því auðveldlega greint ámátlegan grát og taldi sig meira að segja heyra Lovísu taka djúp andköf. Ekkert benti til þess að maðurinn væri í íbúðinni. Einar hafði aldrei verið viðstaddur fæðingu barns en hafði séð ófá húsdýr koma í heiminn. Mamma hans hafði verið vinnukona í sveit í nokkur ár, hann hafði fylgt í kaupbæti og verið látinn vinna fyrir eigin uppihaldi. Hann taldi ekki ólíklegt að fæðingar allra spendýra væru áþekkar og að Lovísa gæti þurft hjálp við þessar aðstæður.

Án þess að hugsa sig um gekk Einar fram á gang. Hann barði á hurðina hjá Lovísu, fyrst laust en síðan fastar. Hún kom ekki til dyra en þögn sló á um leið bankið hófst. Það var skiljanlegt. Lovísa hafði reynt að leyna ástandi sínu undanfarna mánuði og varla vildi hún tilkynna öllum íbúum hússins um fæðingu barnsins með ópum og veinum.

Einar tók í húninn. Dyrnar voru ólæstar en hann þorði ekki að stíga inn fyrir og kallaði þess í stað: Lovísa?

Hún svaraði ekki. Hann lagði við hlustir og taldi sig greina andardrátt, einhver andaði ótt og títt. Enginn barnsgrátur, þó.

Var barnið að koma í heiminn? Eða stóð ofbeldismaðurinn kannski yfir henni, ógnandi ... Þorði hún ekki að svara?

Það var bara eitt í stöðunni. Einar herti upp hugann, dró djúpt andann, og rauk inn í íbúðina.

Síðari hlutinn birtist á gamlársdag.