Sveinn Hallgrímsson fæddist 23. júní 1961. Hann lést 8. desember 2023. Útför fór fram 22. desember 2023.

Sveinn Hallgrímsson var næstyngstur barna Elísabetar Sveinsdóttur og Hallgríms Guðmundssonar.

Svenni var litli bróðir okkar flestra systkinanna og yngstur af þeim sem áttu lögheimili í Hæðargarði 30, Reykjavík, en það var mikil gæfa þegar þessi stóra fjölskylda, hjón með átta börn, keypti sér hús í Garðahreppi, og þar bættist níunda systkinið við, litla systir Svenna. Svenni var uppátektarsamur og fyrirferðarmikill krakki, en hann kom okkur eins oft til að hlæja að uppátækjum sínum og hrista hausinn.

Fimmtán ára fór Svenni að vinna hjá Bræðrunum Ormsson en þar var pabbi verkstjóri yfir lyftum. Svenni var mjög handlaginn, algjör þúsundþjalasmiður svo hann nýttist til margra hluta. Hann tók að sjálfsögðu bílpróf 17 ára en eins og ég las í góðri bók verða drengir á Íslandi ekki kynþroska fyrr en þeir hafa tekið bílpróf og hann rúntaði út í eitt, enda var pabbi kominn á flotta bíla sem var hægt að láta sjá sig á á þeim tíma. Á einum góðum rúnti hitti hann ástina sína til rúmlega 20 ára, Láru, fyrri sonur þeirra fæddist 4. júlí 1980, þá var Svenni rétt orðinn 19 ára og Lára rúmlega 16 ára. Ert þú bara með fullorðnum karlmanni? sagði Fanney mamma Láru, en hún og ekki síður Óli pabbi Láru reyndust Svenna alltaf sem bestu tengdaforeldrar. Drengurinn fékk nafnið Sigurður Axel og Svenni og Lára fóru að búa í Hafnarfirði og síðan í Reykjavík, en þó að árin yrðu 10+ í Reykjavík hjá Svenna bróður var hann alltaf Garðhreppingur eða kannski Hafnfirðingur í hjarta sér. Seinni sonur Svenna og Láru er Fannar Freyr, hann fæddist 8.7. 1987, það eru sjö ár á milli bræðranna en þeir hafa samt átt vináttu hvor annars. Svenni og Lára gerðu upp hús í Hafnarfirði með dyggri aðstoð pabba og Óla pabba Láru, þau gerðu kofa að húsi, en árin þeirra urðu ekki mörg þar því að um áramótin 2000 flutti Lára með drengina frá Svenna. Já, það fer ekki alltaf saman gæfa og gjörvuleiki, fallegt par, með myndarlega drengi í snotru húsi. Hvar er draumurinn, hvar ert þú lífið sem ég þráði? Úr texta eftir Stefán Hilmarsson.

Líf okkar mannanna er í tíma-
bilum mislöngum og mishamingjuríkum. Svenni bróðir missti fótanna þegar Lára fór frá honum og var rétt að reisa sig við þegar pabbi dó, en það verða 20 ár frá því áfalli í vor.

Til eru fræ sem fengu þennan dóm:

Að falla í jörð og verða aldrei blóm.

Eins eru skip, sem aldrei landi ná,

og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,

og von sem hefur vængi sína misst.

(Davíð Stefánsson)

Svenni var alltaf lítill drengur og þó að hann hafi orðið stór og myndarlegur maður, þá vantaði alltaf eitthvað upp á að hann yrði fullorðinn.

Þau eru mörg árin sem Svenni einangraði sig með Dísu sinni, en hún er seinni ástin í lífi Svenna. En Svenni og Dísa sköpuðu ákveðna fjarlægð frá okkur systrum, drengjum Svenna og fimm afabörnum hans, þau hafa mætt stopult í veislur. En Dísa hefur reynst Svenna vel og það var gott kaffið á könnunni hjá þeim þegar maður leit við.

Hvíldu í friði, elsku Svenni bróðir minn.

Þín systir,

Anna Lydía.

hinsta kveðja

Afi Svenni var rosalega klár að gera svona flugvélamódel, setja þau saman sjálfur og mála þau, svo hengdi hann þau öll upp í loftið inni í herbergi, geggjað flott. Elska þig afi, kveðja

Óttar Már Fannarsson, 7 ára.