[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað kemur þér í jólaskap? Í raun get ég komist í „jólaskap“ á ólíklegustu stöðum, allt árið um kring. Það þarf bara réttu blönduna af afslöppun, samveru, góðri tónlist, kvikmyndum í fullri lengd, mat og drykk – og öruggri vissu um …

Hvað kemur þér í jólaskap?

Í raun get ég komist í „jólaskap“ á ólíklegustu stöðum, allt árið um kring. Það þarf bara réttu blönduna af afslöppun, samveru, góðri tónlist, kvikmyndum í fullri lengd, mat og drykk – og öruggri vissu um að þurfa ekki að gera nokkurn skapaðan hlut, allavega næsta sólarhringinn. Þessar aðstæður skapast því miður eiginlega bara á jólunum sjálfum.

Hver eru þín eftirminnilegustu jól?

Ég safna öllum jólaminningum á einn stað og blanda öllu saman í góðan minningagraut, reyni svo að endurskapa einhvers konar kjöraðstæður, byggðar á bestu minningunum, á hverju ári. Skilst að það kallist „hefð“. Að því sögðu verða öll frávik frá þessum erki-jólum mjög eftirminnileg. Til dæmis þegar ég mátti dúsa ofan í kjallara í sóttkví. Reyndar vopnaður Playstation-tölvu og óþarflega miklum vistum. Sú hefð hefur því miður ekki hlotið almennan hljómgrunn á heimilinu.

Hvað er sniðugasta eða besta jólagjöf sem þú hefur fengið?

Ég gæti talið ýmislegt upp sem nálgast vissulega fullkomnun, allt frá Pretty Paper, jólaplötu Willie Nelson – að Sjávarborginni með Sval & Val. En svo fattar maður auðvitað með árunum að það er tíminn sem er besta gjöfin. En ég auðvitað þarf að hafa vit á því að gefa hann sjálfur.

Hvernig verða jólin þín í ár?

Jólin í ár verða auðvitað þau bestu frá upphafi – þangað til annað kemur í ljós!

Bragi Valdimar Skúlason jólaunnandi