Bóksala Þýddum skáldsögum hefur fækkað mikið hér á síðustu árum og sú þróun er áhyggjuefni, að mati formanns Rithöfundasambandsins.
Bóksala Þýddum skáldsögum hefur fækkað mikið hér á síðustu árum og sú þróun er áhyggjuefni, að mati formanns Rithöfundasambandsins. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Við höfum auðvitað heyrt af þessari þróun en það var svakalegt að sjá þessar tölur svona svart á hvítu,“ segir Margrét Tryggvadóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands, um hrun sem orðið hefur í útgáfu á þýddum skáldsögum hér á landi síðustu tvö árin. Morgunblaðið greindi frá því í vikunni að þeim hefði fækkað úr 201 niður í 110 frá 2021 og fram á þetta ár, eða um 45%.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við höfum auðvitað heyrt af þessari þróun en það var svakalegt að sjá þessar tölur svona svart á hvítu,“ segir Margrét Tryggvadóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands, um hrun sem orðið hefur í útgáfu á þýddum skáldsögum hér á landi síðustu tvö árin. Morgunblaðið greindi frá því í vikunni að þeim hefði fækkað úr 201 niður í 110 frá 2021 og fram á þetta ár, eða um 45%.

„Ég held að þetta sé afar hættuleg þróun fyrir okkur sem samfélag. Það skiptir máli að við höfum aðgengi að þýðingum. Þær eru líka íslenskar bókmenntir og í raun nokkurs konar gluggi út í heim, allt öðruvísi en við fáum úr öðru afþreyingarefni.“

Streymismódel gengur ekki upp

Margrét segir að þessi þróun taki fyrst og fremst til kiljuútgáfu sem hafi hrunið með auknum vinsældum streymisveitunnar Storytel. Fólk sem hafi keypt afþreyingarbókmenntir til yndislesturs í kilju hafi í auknum mæli snúið sér að hljóðbókum eða lestri á lesbretti. Dæmi séu um að þýðingar á verkum höfunda sem hefðu áður selst í um fjögur þúsund eintökum í kilju beri sig ekki lengur. Ný könnun Miðstöðvar íslenskra bókmennta staðfestir þessa þróun, lestur á bókum sé að minnka en hlustun að aukast.

Vandamálið að mati Margrétar er að streymismódelið hjá Storytel og fleiri veitum gengur ekki upp. Sú hugmynd að fólk borgi lága upphæð mánaðarlega og fái endalaust af efni sé ekki sjálfbær. „Það er ekki vitlaus hugmynd að endurnýta gamalt efni með þessum hætti en krafan er alltaf að fá nýjar bækur inn. Það er það sem allir vilja.“

Lítill og viðkvæmur markaður

Hún telur að tekjur af streymi standi ekki undir kostnaði við þýðingar og útgáfu eins og sakir standa.

„Við verðum að átta okkur á því að þetta efni er ekki ókeypis og á ekki að vera það. Núna er það undirverðlagt og þá hefur enginn í keðjunni nóg til að lifa af, hvorki útgefendur né höfundar og í raun og veru ekki streymisveitan heldur. Markaðurinn hér á landi er lítill og viðkvæmur og Storytel er eins og stórt skrímsli sem er að éta hann upp.“