— Colorbox
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað kemur þér í jólaskap? Íslenskt alvöru jólatré – þó manninum mínum finnist það sjúkt að fagna jólunum með því að draga lífveru inn á stofugólf og fagna jólunum með því að horfa á hana deyja, dansa í kringum tréð í andarslitrunum, harðbanna …

Hvað kemur þér í jólaskap?

Íslenskt alvöru jólatré – þó manninum mínum finnist það sjúkt að fagna jólunum með því að draga lífveru inn á stofugólf og fagna jólunum með því að horfa á hana deyja, dansa í kringum tréð í andarslitrunum, harðbanna börnunum að snerta það og vona að örfáar nálar verði enn á því um áramótin. Það er alltaf töluvert álag á hjónabandið að koma fætinum á vesalings trénu ofan í fótinn þannig að það sé ekki skakkt og ekki sé búið að troða tveimur skrúfjárnum og 14 viskustykkjum ofan í fótinn í von um einhvern lágmarksstöðugleika.

Hver eru þín eftirminnilegustu jól?

Jólin sem ég eyddi sem skiptinemi í Brasilíu 16 ára gömul. Eftir kvöldmat og pakkaopnanir var siður að allt unga fólkið færi á diskótek og skemmti sér. Hress jólasveinn dansaði um gólfið og fólk fékk sér drykk. Mér fannst það mjög skrítið sérstaklega þar sem fjölskyldan sem ég bjó hjá er kaþólsk, fór í messu og baðst fyrir áður en brunað var með unga fólkið á diskótekið.

Jólin sem við Kalli og stúlkurnar eyddum í einangrun voru líka sérstök. Ég greindist á aðfangadag og rétt fyrir klukkan 18 komu sjúkraflutningamenn til að taka covid-próf á stelpunum okkar sem voru orðnar ansi hvekktar eftir illa meðferð hjá sadískri covid-prófunartýpu nokkrum vikum áður. Þessir herramenn komu í fullum einangrunarskrúða og tóku blíðlega á börnunum og í kjölfarið áttum við lítil en afskaplega afslöppuð jól. Ég hef aldrei séð svo lágan púls í desember svo dögum skipti, eins og Garmin-úrið mitt skráði þessar tvær vikur. Ég var varla með lífsmarki þó ég væri lítið veik.

Hver er sniðugasta eða besta jólagjöf
sem þú hefur fengið?

Litla systir mín, Rebekka Rut, sem fæddist á jóladag fyrir 30 árum. Hún er ein af mínum uppáhaldsmanneskjum. Hjálpsöm, góðhjörtuð, illt-í-magann-hláturskasts-fyndin, úrræðagóð og eldklár. Það er allt skemmtilegra með henni þó hún rati ekkert og hafi keypt miða fyrir allan vinahópinn á þungarokkshátíðina Glasgowbury í stað Glastonbury.

Hvernig verða
jólin þín í ár?

Vonandi afslöppuð. Við erum á aðfangadag hjá mömmu og pabba ásamt ömmu, Rikka frænda og systkinum mínum. Mamma föndrar innbakaða nautalund og ég læt sósuna malla allan daginn. Samvera og góður matur.

Þorbjörg Marínósdóttir verkefnastýra og fjölmiðlafræðingur