Jólin sem hringd verða inn á morgun verða haldin í skugga styrjaldar í Úkraínu, rétt eins og jólin í fyrra. Rússar herja enn á landið með miklu mannfalli á báða bóga og miklu tjóni af öðrum toga í Úkraínu einnig.

Jólin sem hringd verða inn á morgun verða haldin í skugga styrjaldar í Úkraínu, rétt eins og jólin í fyrra. Rússar herja enn á landið með miklu mannfalli á báða bóga og miklu tjóni af öðrum toga í Úkraínu einnig. Enn er óvíst hvenær eða hvernig þessum skelfilegu átökum lyktar og á meðan Rússar halda innrásinni áfram er hætt við að þau geti staðið lengi enn.

Innrásin í Úkraínu fékk alla athygli fjölmiðla á Vesturlöndum um langt skeið, en svo gerðist skelfilegur atburður fyrir botni Miðjarðarhafs þegar hryðjuverkamenn Hamas frömdu ólýsanleg ódæði í Ísrael og sjónir Vesturlanda og fleiri snerust þangað. Samúðin var fyrst með Ísraelum og er enn víða, en margir áttu þó erfitt með að fá sig til að fordæma illvirkin og hafa þær raddir sem leggjast í raun á sveif með hryðjuverkamönnunum orðið æ háværari á Vesturlöndum. Þar eru haldnar samkomur af ýmsu tagi eða göngur og annað þar sem spjótum er beint að Ísraelsmönnum, sem neyðst hafa til að grípa til harðrar baráttu til að freista þess að uppræta hryðjuverkasamtökin. Þó er hætt við að það verði torvelt, ekki síst í ljósi þess að þau njóta mikils fjárhagslegs stuðnings víða að, einkum þó frá klerkastjórninni í Íran. Furðu sætir að fjárhagslegi stuðningurinn við Hamas hefur meðal annars komið frá Vesturlöndum, þar með talið frá Íslandi, og virðist skýringin sú að ýmsir hafa kosið að láta blekkjast af þeim sem halda því fram að munur sé á Hamas og hryðjuverkasamtökunum Hamas, sem þó er í raun einn og sami hluturinn.

Sú athygli sem átökin fyrir botni Miðjarðarhafs og í Úkraínu hafa fengið er skiljanleg þó að stundum vanti nokkuð upp á réttan skilning á rótum átakanna, hverjir það eru sem ábyrgðina bera og hverjir það eru sem leggja sig fram um að takmarka mannfall og hörmungar.

Því miður fer því fjarri að þessi tvenn átök séu þau einu sem eiga sér stað í veröldinni um þessar mundir og hafa kostað fjölda mannslífa. Víða um heim er barist og hefur verið lengi. Á beltinu sunnan Sahara, sem oft er nefnt Sahel, eru iðulega mikil átök og þar eiga íslamskir öfgamenn stóra sök þó að skýringarnar séu fleiri. Mannfallið hefur verið mikið um árabil en athygli Vesturlanda beinist sjaldan þangað og aldrei er gengið um götur með fána eða mótmælaspjöld í borgum Evrópu eða Bandaríkjanna vegna þeirra voðaverka sem þarna eru framin.

Í Súdan hefur til að mynda staðið yfir borgarastyrjöld megnið af árinu og er hart barist með hrikalegum afleiðingum fyrir almenning. Þúsundir, jafnvel tugþúsundir, hafa fallið og milljónir eru á flótta, innanlands sem utan. Ástandið fer sífellt versnandi og vara þeir sem til þekkja við því að yfirvofandi sé hungursneyð, en fjölmörg börn og konur með börn á brjósti eru talin vannærð nú þegar. Fullyrt er að þjóðernishreinsanir eigi sér stað og er ástandið til að mynda skelfilegt í Darfur og þykir minna á hörmungarnar sem þar gengu yfir fyrir um tveimur áratugum.

Sameinuðu þjóðirnar eða öryggisráð þeirra eru ekki upptekin af þessum hörmungum en vissulega eru börnin í Súdan ekki minna virði en annars staðar. Hörmungarnar eru meiri en orð fá lýst þó að athyglin sé annars staðar.

Ísland hefur blessunarlega verið laust við stríðsátök og um leið og landsmenn hljóta að hugsa til þeirra og biðja þeim hjálpar sem búa við slíkar hörmungar hljóta þeir einnig að þakka fyrir friðinn sem hér er að finna og leggja sig fram um að halda í hann.

Hér hefur að vísu ekki alltaf ríkt alger friður. Ef horft er aftur til Sturlungaaldar má finna orrustur eða bardaga, sem að vísu telja lítt í samanburði við þau átök sem nú ríkja víða um heim, eða gengu yfir erlendis um sama leyti. Einn slíkur bardagi hefur verið nefndur Víðinesbardagi og fór fram haustið 1208. Þá sóttu Kolbeinn Tumason og menn hans að Guðmundi góða Arasyni, biskupi á Hólum, og liði hans. Kolbeinn, sem hafði raunar áður stutt biskup en svo hlotið bannfæringu hans, féll í bardaganum, en skömmu áður orti hann elsta sálm íslenskrar tungu og með eldri sálmum á þjóðtungu yfirleitt, því að kirkjumálið á þessum tíma var latína, eins og fram kemur í ágætri nýrri bók, Dróttkvæði – sýnisbók, þar sem fjallað er um þann merkilega en oft torskilda kveðskap.

Sálmurinn, sem einnig telst vera dróttkvæði, er kallaður Heyr, himna smiður og er óhætt að segja að hann sé ekki aðeins elsti heldur um leið einn fallegasti sálmur íslenskrar tungu. Eftir að Þorkell Sigurbjörnsson orti við hann það lag sem hann er sunginn við í kirkjum landsins, yfirleitt í útförum, hefur hann orðið Íslendingum enn hjartfólgnari en ella, enda fátt sem jafnast á við þann flutning. En þó að þessi ágæti sálmur eigi vel við á slíkum stundum á efni hans erindi oftar. Á það ekki síst við um þriðja og síðasta erindið þar sem skáldið lýsir því hversu mjög það þurfi á Guði að halda, biður Krist að vekja með sér fagrar hugsanir og klykkir út með orðunum „öll er hjálp af þér, í hjarta mér.“

Gleðileg jól.