Eyþór Eyjólfsson fer í saumana á innstu leyndardómum styrjueldisins, sem fer fram á Bakka í Ólafsfirði.
Eyþór Eyjólfsson fer í saumana á innstu leyndardómum styrjueldisins, sem fer fram á Bakka í Ólafsfirði. — Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á leið okkar um landið er næsti áfangastaður Ólafsfjörður. Við ökum gegnum Héðinsfjarðargöngin eftir stutt stopp á Siglufirði og beint niður á kajann. Þar tekur á móti okkur Eyþór Eyjólfsson sem fyrir margt löngu festi kaup á innstu jörðinni í Ólafsfirði – Bakka

Á leið okkar um landið er næsti áfangastaður Ólafsfjörður. Við ökum gegnum Héðinsfjarðargöngin eftir stutt stopp á Siglufirði og beint niður á kajann. Þar tekur á móti okkur Eyþór Eyjólfsson sem fyrir margt löngu festi kaup á innstu jörðinni í Ólafsfirði – Bakka. Hann býður okkur inn fyrir dyrnar á húsi sem lengst af hýsti saltfiskverkun á staðnum en hefur nú skipt um hlutverk og búning, að minnsta kosti þegar kemur að innra byrðinu.

Í bláum kerjum svamlar fiskafjöld og á komandi árum hyggst Eyþór framleiða, með aðstoð þessara sérstæðu dýra, einhverja verðmætustu afurð sem sköpuð hefur verið í íslensku samfélagi. Kílóverðið er svimandi hátt. Ekki er það gull eða ál, heldur kavíar sem sífellt fleira fólk er sólgið í og virðist reiðubúið að reiða fram ótrúlegar fjárhæðir til að höndum yfir.

Aðdragandinn að eldinu á Ólafsfirði er langur og hófst endur fyrir löngu þegar Eyþór lauk doktorsprófi í japönskum málvísindum frá þýskum háskóla.

„Í Þýskalandi fór ég inn í lítið fyrirtæki sem var að flytja inn fisk og var í eigu ungs Norðmanns. Það dafnaði og óx mjög hratt. Þetta var á þeim tíma þegar norskur lax var að koma inn á Japansmarkað og það skipti sköpum þegar hægt var að selja hann sem sushi- og sashimi-vöru. Og 1995 seldum við fyrirtækið til Stolt Sea Farm sem var á þeim tíma stærsti laxaframleiðandi í heimi en þeir voru líka með styrjueldi. Og þar komst ég í fyrsta sinn í kynni við styrjur,“ útskýrir Eyþór. Hann bætir þó við, eins og í framhjáhlaupi, að hann hafi kynnst styrjukavíar miklu fyrr. Það gerðist þegar hann sótti Bolshoi-leikhúsið í Moskvu þegar hann stundaði nám þar í borg í upphafi níunda áratugarins – meira um það síðar.

240 milljón ára gamall

„Mér hefur alltaf þótt þessi fiskur mjög merkilegur, þetta eru náttúrulega syndandi steingervingar, þeir eru 240 milljón ára gamlir og mig dreymdi um að koma með svona eldi hingað til lands því fjarlægðin skiptir engu máli. Þetta er mjög dýrmæt afurð og mér finnst hún falla mjög vel að því hvernig við viljum selja Ísland. Til að gera langa sögu stutta þá kom ég að máli við Stolt Sea Farm-fjölskylduna eftir hrun og spurði hvort þau vildu ekki koma með styrjueldi til Íslands.“

En stórar hugmyndir þurfa oft langan meðgöngutíma. Á þessum tíma stóðu eigendur Stolt Sea Farm í stórræðum við að leita heppilegrar staðsetningar undir landeldi með senegalflúru. Sá staður fannst á Reykjanesi og Eyþór fékk verkefnið í hendur. Vann það í samráði við forsvarsmenn HS Orku, Júlíus Jónsson og Albert L. Albertsson, sem Eyþór segir að hafi sýnt mikla framsýni með þátttöku í því.

„Þegar því var lokið spurði ég hvort ekki væri möguleiki á að koma með seiði úr eldisstöðinni í Kaliforníu. Og úr varð að við komum með seiði og þær styrjur sem komu inn 2014 eru þær sem hér eru fyrir norðan,“ segir Eyþór.

Þessir fiskar synda nú um í stórum kerjum á Ólafsfirði og hafa nú þegar gefið af sér kavíar sem senn mun rata á markað. Þetta eru hvítstyrjur og ekki eru þær dvergvaxnar, allt upp í 120 kíló. Eyþór er nú þegar kominn af stað með eldi á rússneskri og síberískri styrju. Og hann ætlar ekki að hætta þar. Verðmætust allra styrjuhrogna eru þau sem koma frá beluga-styrjunni sem er útdauð í náttúrunni.

„Við vonumst til þess að geta hafið eldi á henni á næsta ári. Þá munum við flytja inn fullvaxnar styrjur. Beluga þarf að bíða í 23 ár þar til hún verður kynþroska,“ bendir Eyþór á og segist ekki hafa þolinmæði til að bíða þann tíma. „Ég veit ekki hvort ég verði ofanjarðar þá,“ og ljóst er að metnaðurinn er mikill fyrir eldisuppbyggingunni.

Fóðrað allan sólarhringinn

Þar sem við röltum um eldisstöðina virðum við ekki aðeins fyrir okkur hinar fullvöxnu styrjur heldur einnig nýklakinn fisk og eins gerðarlegt ungviði sem á fáum mánuðum hefur náð ótrúlegri stærð. Fiskunum er sinnt allan sólarhringinn. Nýjasta fiskinn þarf að fóðra stanslaust á tveggja tíma fresti og því er stöðin aldrei mannlaus. Það er ævintýri líkast hvernig fiskinum er komið á legg.

„Ég kom með þetta heim í farangri. Það stóð á pappírunum að þetta væri lifandi fiskur. En í röntgen sást enginn fiskur. Þannig að tollverðir í Þýskalandi spurðu hvað þetta væri. Ekki væru þetta fiskar. Þetta voru hins vegar frjóvguð egg og ég þurfti að útskýra fyrir þýskum tollvörðum hvernig fiskar fjölga sér,“ rifjar Eyþór upp. Hann segir að miklar leyfisveitingar fylgi flutningum af þessu tagi. Það hafi þó gengið snurðulaust fyrir sig. Mikilvægt sé að standa rétt að þessum málum enda er verið að höndla með dýr í útrýmingarhættu.

Og sú staðreynd er reyndar útgangspunktur í eldinu hjá Eyþóri. Ólíkt því sem víða tíðkast fá styrjurnar að lifa áratugum saman. Þeim er ekki slátrað fyrir hin verðmætu hrogn.

„Þegar Stolt bauð mér fiskinn til kaups þá gat ég ekki hugsað mér að slátra honum. Það að ala fisk upp í þessa stærð er ekki bara dýrt heldur að slátra honum bara fyrir hrognin einu sinni fannst mér vera sóun. Eldið byggir á því að engri hrygnu er slátrað. Þær eru stroknar á tveggja ára fresti. Úr þeim eru tekin hrogn sem kavíar er framleiddur úr. Þetta er gert með aðferð sem prófessor Angela Köhler hefur þróað og er undir einkaleyfi Alfred Wegener Institute.“

Eyþór segir mikla eftirspurn eftir þessum hrognum. Honum hafi nú þegar borist tilboð frá ónefndum aðila sem vilji kaupa alla framleiðslu eldisins en enn eigi eftir að móta hvernig vörurnar verði markaðssettar og þeim komið á markað. Kílóverðið á kavíar sem þessum getur hlaupið á 600-1.200 þúsund krónum og því um einhverja allra verðmætustu sjávarafurð sem hægt er að komast í tæri við að ræða.

Opnar nýja menningarheima

Í viðtalinu við Eyþór, sem er hluti af Hringferð Morgunblaðsins, spyrjum við hann hvernig nýdoktor í japönskum málvísindum leiðist út í sjávarútveg, þ.e. sölu fiskafurða. Bendir hann á að það hafi komið sér afar vel að tala japönsku á fiskmarkaðnum í Tókýó þar sem enginn talaði stakt orð í ensku. En tungumálanámið virðist einnig ýta undir víðsýni.

„Það að læra tungumál er ekki bara að læra tungumál, það er líka að læra og kynnast menningu, og sérstaklega tungumál sem eru okkur mjög framandi eins og japanska. Þá er nær óhugsandi að búa í því landi án þess að tala japönsku. Fyrir mér hefur tungumálakunnátta, rússneska, þýska eða japanska, sem eru þau tungumál sem ég tala helst, verið lykillinn að þessum menningarheimum,“ segir Eyþór.

Og einmitt í þessu kviknaði kannski áhuginn á styrjunum fyrst. Í Moskvu á menningarviðburðum þar sem hægt var að gæða sér á kavíar. Eyþór fluttist til Sovétríkjanna sem ungur maður. En hvað rak hann þangað?

„Það var brennandi áhugi á marxisma og lenínisma. Það læknaði mig af öllum vinstri hugsunum [...] Þetta var mjög merkilegur tími. Þetta var þegar Breszhnev var að draga síðustu andardrættina.“

Eyþór segir að þótt hann hafi kynnst mörgu dásamlegu í Rússlandi þá hafi ömurleikinn einnig verið mikill. Hann kom sér úr landi eftir um árs dvöl.

„Þegar það var ár liðið af tímanum þá áttaði ég mig á því af hverju ég hafði fengið styrkinn. Það átti að þjálfa mig í að verða njósnari.“

Ævintýralegt viðtalið við Eyþór má heyra á mbl.is og öllum helstu hlaðvarpsveitum.