Saga Páls kennir okkur að ósýnilegur ytri máttur, heilagur andi, breytir vilja og hegðun manna. Við vonum og biðjum að það gerist nú enn á ný í eyðimörkinni.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn,is

Í sögulegu skáldsögunni Veldi hinna illu sem Ugla gaf út í fyrra í þýðingu Helga Ingólfssonar segir breski rithöfundurinn Anthony Burgess söguna um Sál frá Tarsus sem ofsótti fylgismenn Jesú Krists eftir krossfestinguna. Sál var á leið til Damaskus í ofsóknarleiðangur gegn kristnum þegar Jesús talaði til hans og valdi hann „að verkfæri til þess að bera nafn [s]‌itt fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels“. Við þekkjum Sál síðan sem Pál postula, hugrakkan boðanda kristinnar trúar og stofnanda safnaða á ferðum sínum um Rómaveldi.

Gyðingar og Rómverjar tóku trúboði Páls illa. Hann var sakaður um svik við gyðingdóm og talinn vega að Rómaveldi. Hann var handtekinn og grýttur en hvikaði aldrei frá trú sinni.

Bréf Páls mótuðu inntak kristinnar trúar og úr þeim er lesið enn þann dag í dag við kirkjulegar athafnir. Saga Páls og bréf eru lykiltextar í Nýja testamentinu.

Átakanleg reynsla sannfærði hann um kærleika og miskunnsemi Guðs.

Hann sagði dauða Jesú Krists endurlausn allra manna frá syndum.

Í sögu Páls birtast átök milli valds og trúar. Konstantín mikli, fyrsti kristni keisarinn, heimilaði trúfrelsi í Rómaveldi árið 313 og Þeódósíus keisari gerði kristni að ríkistrú árið 380.

Á slóðum Jesú Krists og Páls postula er enn barist af mikilli grimmd. Um það er fjallað daglega í fréttum. Undirrótin eru ólík trúarbrögð eins og á dögum Páls og barátta um ráð yfir Jerúsalem. Átökin skapa spennu um heim allan, eitra andrúmsloft í fjarlægum löndum og ýta undir gyðingahatur.

Saga Páls kennir okkur að ósýnilegur ytri máttur, heilagur andi, breytir vilja og hegðun manna. Við vonum og biðjum að það gerist nú enn á ný í eyðimörkinni fyrir botni Miðjarðarhafs. Til sögunnar komi friðar- og sáttaandi sem geri kleift að hrinda tveggja ríkja lausn í framkvæmd og leyfi gyðingum og aröbum að búa saman í friði.

Kvikmyndin sem Bretinn Ridley Scott gerði um Napóleon Bonaparte Frakklandskeisara fékk lélega dóma í Frakklandi. Napoleon var í nöp við Breta og óttaðist herflota þeirra. Í franskri gagnrýni á Scott er sagt að hann geri á hlut Napóleons með sagnfræðilegum rangfærslum.

Trú Napóleons er ekki viðfangsefni kvikmyndarinnar. Fjölskylda hans á Korsíku var kaþólsk og hann hlaut kristilegt uppeldi. Frá unga aldri var hann hins vegar uppreisnargjarn gagnvart kirkjunni eins og öðru.

Á valdastóli reyndi Napóleon að nýta sér kirkjuna til að koma á reglu í samfélaginu eftir frönsku byltingarárin. Árið 1801 gerði hann sáttmála við Píus páfa VII. og veitti kaþólsku kirkjunni nokkra sérstöðu gegn því að hún viðurkenndi franskt ríkisvald.

Þremur árum síðar, 2. desember 1804, krýndi Napóleon sig sem keisara í Notre Dame (Frúarkirkjunni) í París. Hann áréttaði sjálfstæði sitt gagnvart kaþólsku kirkjunni með því að fela ekki páfanum verkið – keisarinn yrði engin strengjabrúða páfa.

Napóleon þurfti stuðning andstöðuhópa kirkjunnar í frönsku stjórnarbyltingunni. Hann var tvöfaldur í roðinu í trúmálum. Eigið vald var honum allt.

Í Frakklandi eru skilin milli ríkis og kirkju skýr nú á dögum. Gott gagnkvæmt samband þessara meginstoða er þó enn grunnur stöðugleika í samfélaginu.

Mikill eldur varð í Notre Dame í París 15. apríl 2019. Eldsvoðinn var sýndur beint um heim allan. Að kvöldi sama dags ávarpaði Emmanuel Macron Frakklandsforseti þjóðina og hét því að kirkjan yrði endurreist innan fimm ára. Forsetinn veitti 500 milljónir evra til verksins. Gjafir og áheit streymdu strax til endurreisnarinnar. Í lok maí 2019 námu loforðin 1,7 milljörðum evra. Stefnt er að því að Notre Dame verði opnuð almenningi í desember 2024.

Á sovéttímanum í Rússlandi og Austur-Evrópu úthýstu kommúnistar trúnni og kirkjulegu valdi. Kirkjum var breytt í gripahús og skemmur, væru byggingarnar ekki sprengdar í loft upp eins og stríðsrústir Maríukirkjunnar í Leipzig.

Frúarkirkjan í Dresden varð einnig illa úti í loftárásum bandamanna undir stríðslok. Kirkjurústirnar stóðu enn þegar KGB-foringinn Vladimir Pútin starfaði í borginni á níunda áratugnum. Frúarkirkjan var endurreist eftir brottför Pútins frá Dresden og endurvígð árið 2005. Nú er hún augnayndi og tákn um þrautseigju borgarbúa.

Vladimir Pútin fékk trúarlaust uppeldi en eftir að hann komst í sviðsljósið sem valdsmaður talar hann oft um mikilvægi trúarinnar í lífi sínu, þangað sæki hann styrk. Hann sagði árið 2012 í samtali við The Financial Times: „Ég trúi á Guð. Ég trúi á rétttrúnaðarkirkjuna. Ég trúi á siðferðileg gildi hennar og kenningar. Það auðveldar mér skilning á heiminum og stöðu minni í honum.“

Ráðamenn rétttrúnaðarkirkjunnar eru eindregnir stuðningsmenn Pútins. Samband hans og kirkjunnar er gagnkvæmt hagsmunabandalag. Hann er sagður berjast við villutrúarmenn í Kyív. Pútin nýtur stuðnings patríarka við að kæfa allt andóf við sig innan Rússlands.

Meira að segja hér á landi heyrast raddir um að stríðið í Úkraínu snúist í raun um varðveislu kristinna gilda sem kastað hafi verið fyrir róða á Vesturlöndum. Pútin sé krossfari þessara gilda.

Þessar þrjár sönnu sögur eru örlítið brot áhrifa alls þess sem breyttist þegar Jesúbarnið var lagt í jötu. Það urðu straumhvörf. Veraldarsagan hefur þróast til betri áttar þrátt fyrir grimmd og átök fyrr og síðar. Við megum ekki missa sjónar á stjörnunni hvað sem líður veldi hinna illu.

Gleðilega hátíð!