Finnst þér þú ekki stundum sækja lítið gagn eða gleði í ferðir þínar út af heimili þínu?

Pistill

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Jólin, jólin alls staðar, kvað skáldið. Það á við um fortíð, ekkert síður en nútíð, og við skulum vona að það komi til með að gilda um framtíð líka. Við á Morgunblaðinu hentum okkur upp í gufulest í byrjun nóvember og munum á komandi mánuðum rifja upp eitt og annað úr 110 ára sögu blaðsins. Enda sitjum við hér á heiðgulum fjársjóði, möppu upp af möppu, með öllu því sem sagt hefur verið á síðum þessa blaðs í meira en heila öld. Þeir sem tekið hafa tæknina í sína þjónustu geta líka flett þessu upp á Tímarit.is.

Komið með til jólanna 1953. Þetta stóð í aðfangadagsleiðara Moggans:

„Í raun og veru þarfnast heimurinn einskis frekar í dag en kyrrðar og næðis til rólegrar yfirvegunar og hugsunar. Hraðinn í mannlífinu og eirðarleysi vélamenningarinnar hefur rænt milljónir manna sálarró sinni og andlegu jafnvægi. Þetta fólk hefur naumast tóm til þess að hugsa nokkra hugsun til enda. Það flýtur áfram með flaumnum án þess að gefa sér tóm til þess að staldra nokkurn tíma við eða litast um til þess að skilja rás viðburðanna og tilganginn með þeirra eigin starfi og tilveru. Þessi andlega galeiðuþrælkun ógnar í dag menningu margra þjóða, stórra og smárra.“

Einmitt það. Hefði þetta ekki rétt eins getað hrokkið úr penna árið 2023? Og svo er sagt að allt hafi verið betra í gamla daga. Fyrir sjötíu árum var engin einasta tölva til í landinu og samfélagsmiðlar fjarlæg framtíðarmúsík. Samt var fólkið svona örgeðja og slæmt á taugum.

Já, mikilvægt er líklega, nú sem þá, að andlegur þroski manna haldist í hendur við tæknilegar framfarir, að öðrum kosti ekur vélmenningin bara yfir okkur. Ekki satt? Gefum leiðarahöfundi aftur orðið: „Kjarni málsins er sá, að köld efnishyggja og oftrú á efnisleg verðmæti má aldrei sigra mannsandann. Sá ósigur hlyti að leiða til hrörnunar og niðurdreps.“

Við hlið leiðarans stóð Velvakandi keikur. Og heimakær:

„Gæti ekki þessi hátíð heimilanna vakið nútímafólk til umhugsunar um það, hvort það sæki í raun og veru eins mikið út fyrir vébönd heimila sinna og það virðist oft hyggja. – Hvað hyggur þú, lesandi góður? Finnst þér þú ekki stundum sækja lítið gagn eða gleði í ferðir þínar út af heimili þínu? – Jú, þessu er vissulega þannig varið. Það er alltof margt ungt fólk, sem venur sig á það, að loða helzt aldrei heima hjá sér, vera á stöðugum „rúnti“ um stræti og torg, knæpur og samkomustaði. Í raun og veru sækir enginn maður, ungur eða gamall neitt, sem gefur lífinu gildi í slíkar lífsvenjur.“

Þegar ég las þetta hélt ég strax að ég hefði skrifað þetta sjálfur, svo rifjaðist upp fyrir mér að ég var ekki fæddur árið 1953. Hvað þá læs og skrifandi.

Gleðileg jól!