Tæplega 3.100 eintök af Tesla Model Y höfðu í gær verið skráð á Íslandi í ár. Það er langmesti fjöldi af einni bílategund á einu ári frá upphafi (sjá graf). Nánar tiltekið höfðu þá verið skráðar 3.078 nýjar Model Y-rafbifreiðar á árinu en fyrra…

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Tæplega 3.100 eintök af Tesla Model Y höfðu í gær verið skráð á Íslandi í ár. Það er langmesti fjöldi af einni bílategund á einu ári frá upphafi (sjá graf). Nánar tiltekið höfðu þá verið skráðar 3.078 nýjar Model Y-rafbifreiðar á árinu en fyrra metið var sett 1988 þegar rúmlega 1.200 Toyota Corolla-bifreiðar voru skráðar. Toyota Yaris er skammt undan í þriðja sætinu en um 1.200 eintök voru skráð af þeirri tegund árið 2006.

Miðast við nýskráningar

Hinn 4. júlí síðastliðinn sagði Morgunblaðið frá því að sala á Tesla Model Y væri þá farin fram úr gamla sölumetinu. Fulltrúi Samgöngustofu ítrekaði þá í svari við fyrirspurn blaðsins að Samgöngustofa hefði í raun ekki neitt sem héti „sölutölur“ í sínum gagnagrunnum. Um væri að ræða tölur yfir nýskráningar bifreiða á hverju ári eftir tegund og undirtegund en ætla mætti að flestar þessara bifreiða væru svo seldar af innflytjanda. Einnig var bent á að dæmi væru um að einstaklingar flyttu inn bifreiðar til eigin nota. Þegar fréttin hafði birst gerði lesandi blaðsins athugasemd og benti á að Tesla-bifreiðar væru keyptar beint á netinu. Taldi hann þessa almennu lýsingu á innflutningnum því ekki eiga vel við Tesla.

Talan hækkaði í gær

Samkvæmt heimildum blaðsins voru um 20 nýjar Tesla Model Y-bifreiðar skráðar í gær og samkvæmt því hafa 3.094 slíkar bifreiðar verið skráðar á Íslandi í ár. Þessi sala hafi enn ekki birst hjá Samgöngustofu.

Ívilnanir hafa haft áhrif á sölulistann. Mitsubishi Outlander naut sem tengiltvinnbíll ívilnana en þær hafa verið felldar niður á slíka bíla. Gerðist það þegar sölukvóti slíkra bíla var uppfylltur.

Þá hafa Tesla-rafbílar notið ívilnana og munu gera það áfram þótt í breyttri mynd sé frá áramótum.

Loks hafa selst rúmlega 600 eintök af Toyota-rafbílnum BZ4X. Verður forvitnilegt að sjá hvort sala á þeim bíl fari á næstu árum fram úr sölunni á Corolla og Yaris forðum daga.