Ekki fer á milli mála að kvikusöfnun er hafin undir Svartsengi og því stefnir í annað gos á Reykjanesskaga. Þetta segir Páll Einarsson, prófessor emeritus við jarðvísindadeild Háskóla Íslands. „Það er nokkuð augljóst miðað við það sem er í…

Agnar Már Másson

agnarmar@mbl.is

Ekki fer á milli mála að kvikusöfnun er hafin undir Svartsengi og því stefnir í annað gos á Reykjanesskaga. Þetta segir Páll Einarsson, prófessor emeritus við jarðvísindadeild Háskóla Íslands.

„Það er nokkuð augljóst miðað við það sem er í gangi,“ segir Páll í samtali við Morgunblaðið, spurður hvort hann telji að eldstöðvakerfið hlaði í annað gos. „Það er ekkert endilega víst að það verði gos, en það er alveg greinilegt að kvikusöfnunarsvæðið er að safna kviku. Það fer ekkert á milli mála.“

Þó að eldgosinu við Sundhnúkagíga sé lokið eru miklar líkur á öðru gosi á svæðinu og þykja þær aukast með hverjum degi sem líður. Land fór strax aftur að rísa við Svartsengi eftir að eldgos braust þar út á mánudagskvöld. Hraðinn á landrisinu er meiri en hann var fyrir gosið og að sögn Páls er það vegna þess að landris hægir almennt á sér með tímanum.

Prófessorinn segir aftur á móti að ekki sé hægt að segja til um hvort jarðhræringarnar leiði frekar af sér gos en kvikuhlaup. Hann bendir þó á að það sé „ekkert sérlega langt“ þar til kvikan fari að leita í kvikuhlaup. Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu hafa eldsumbrotin líkst hegðun Kröfluelda, sem urðu á árunum 1975 til 1984. Á þeim árum urðu um 20 kvikuhlaup í Kröflu, níu af þeim enduðu með gosum.

„Enn þá vitum við ekki hversu nákvæmlega þetta svæði á Reykjanesskaganum fylgir þessu sama mynstri.“