Tenerife Fólk og sæla undir pálmatrjánum í gær. Fínt veður og staðarspáin fyrir allra næstu daga er ljómandi góð, samkvæmt veðurvefnum yr.no.
Tenerife Fólk og sæla undir pálmatrjánum í gær. Fínt veður og staðarspáin fyrir allra næstu daga er ljómandi góð, samkvæmt veðurvefnum yr.no. — Ljósmynd/Pálmi Guðmundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikill fjöldi Íslendinga verður á suðrænum sólarströndum um hátíðina. Áætlað er af kunnugum að rúmlega 2.000 manns að heiman séu nú á Gran Canaria og ætli þar að eiga sín gleðilegu jól. „Hér heyrist íslenska hvar sem farið er um götur,“ segir Karl Rafnsson fararstjóri hjá Icelandair Vita

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Mikill fjöldi Íslendinga verður á suðrænum sólarströndum um hátíðina. Áætlað er af kunnugum að rúmlega 2.000 manns að heiman séu nú á Gran Canaria og ætli þar að eiga sín gleðilegu jól. „Hér heyrist íslenska hvar sem farið er um götur,“ segir Karl Rafnsson fararstjóri hjá Icelandair Vita. Karl hefur staðið vaktina á Kanaríeyjum sl. 11 ár og nú starfar með honum þar systir hans, Signý Rafnsdóttir.

Flestar stóru ferðaskrifstofurnar á Íslandi selja einmitt ferðir til þessa vinsæla áfangastaðar. Þangað er Icelandair með vikulegt flug og stundum aukaferðir. Einnig flýgur Play á svæðið.

„Fólk kemur hingað eftir ýmsum leiðum og margir bóka sér sjálfir hótel. Hingað koma um jólin heilu stórfjölskyldurnar. Þá er hér fjöldi Íslendinga sem mæta hingað á haustin og eru hér í skammdeginu og fram á vor,“ sagði Karl við Morgunblaðið í gær. Þá var fínasta veður í sólarlandinu, tæplega 20 stiga hiti en örlítið Afríkumistur í loftinu.

Þótt í annað umhverfi sé komið halda margir sem komnir eru á Grand Canaria í sínar íslensku jólahefðir. Eru með hangikjöt að heiman og fleira góðgæti. Þá leggja margir leið sína á veitingastaðinn Why not lago, sem Guðbjörg Bjarnadóttir starfrækir. Þar er til dæmis skata á borðum á Þorláksmessu og hátíðarmatur aðra daga. Þá verður á Gran Canaria jólaball fyrir börnin 28. desember.

„Vetur og jól koma sífellt sterkar inn sem tími til ferðalaga,“ segir Þórunn Reynisdóttir framkvæmdastjóri Úrvals Útsýnar. Að undanförnu hefur fjöldi fólks farið utan á vegum ferðaskrifstofunnar, margir til dæmis til Gran Canaria og Tenerife. Raunar hefur félagið að undanförnu verið með leiguvél frá ítölsku flugfélagi. Með því hefur verið hægt að stýra flugi skv. framboði og eftirspurn.

„Svo veit ég að eitthvað er laust í ferðum á okkar vegum til Kanarí og Tene bæði milli hátíða og strax eftir áramótin. Í skammdeginu á Íslandi þarf fólk tilbreytingu. Margir fara því í sól. Ferð í Karíbahafið sem er á áætlun strax eftir nýár mælist einnig vel fyrir,“ segir Þórunn.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson