[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Engin eru jól án bóka og þá ekki myndasagna. Þegar ég var strákur þótti mér fátt betra en brakandi ný myndasögubók á jólum.

Af myndasögum

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Engin eru jól án bóka og þá ekki myndasagna. Þegar ég var strákur þótti mér fátt betra en brakandi ný myndasögubók á jólum og ég á ennþá ágætt en þó heldur lítið safn slíkra bóka. Sem ungur drengur fletti ég þeim aftur og aftur og lét heillast af frásagnarlist teiknara og höfunda. Í menntaskóla og á fullorðinsárum tóku við önnur áhugamál við en nú er ég, miðaldra maðurinn, farinn að fletta þessum bókum á ný og að reyna að vekja áhuga sona minna á þessari merku listgrein. Árangurinn af þeim tilraunum hefur verið misjafn enda fjölmargt annað sem heillar ungt fólk í dag meira en gamlar og rykfallnar teiknimyndabækur.

Hinn eini sanni Viggó

Eina persónu hef ég elskað meira en aðrar og það er Viggó viðutan. Skapari hans, hinn belgíski Franquin, var snillingur. Þegar ég fór að rembast við að teikna skopmyndir áttaði ég mig fyrst almennilega á hæfileikum hans. Froskur hefur nú gefið út áttundu bók sína um hin ýmsu axarsköft og uppátæki Viggós og nefnist sú Meiningar og misskilningur. Á kápu bókarinnar sést Viggó með hið alræmda hljóðfæri sitt Viggófóninn. Áferð bókarkápunnar er mött, líkt og fyrri bókanna um Viggó sem Froskur hefur gefið út, sem gerir það að verkum að maður verður hreinlega að strjúka hana. Kannast ekki lesendur við þá þörf eða er ofanritaður einn um hana?

Flestar sagnanna í bókinni hafa sést áður í eldri bókum en því ber samt að fagna að Froskur haldi áfram að kynna þennan heillandi heim Franquins fyrir íslenskum lesendum. Nokkrar sagnanna hef ég ekki áður séð og fékk léttan fiðring við þá uppgötvun.

Þó sögurnar sjálfar séu ekki sprenghlægilegar, meira spaugilegar, þá kitla teikningar Franquins alltaf hláturtaugar og þá ekki síst þær sem sýna herra Seðlan rjúka á dyr í bræðiskasti eftir enn eitt axarskaft Viggós. Ég sá fyrir nokkrum árum kvikmynd um Viggó, eða Gaston eins og hann heitir á frönsku, og þó hún væri skondin komst hún ekki nálægt bráðfyndnum teikni- og frásagnarstíl Franquins.

Berja Rómverja í plokkfisk

Önnur bók sem Froskur gefur út í ár er Ástríkur skylmingakappi sem ég man ekki eftir að hafa séð áður á íslensku. Allir hljóta að kannast við Ástrík og þeir sem gera það ekki verða að drífa sig út í bókabúð eða á bókasafn og bæta úr því. Textann skrifar René Goscinny og teikningar gerði Albert Uderzo, tvíeykið fræga Goscinny og Uderzo. Ástríkur og Steinríkur eru ósigrandi Gaulverjar í Rómaveldi og Júlíus Sesar reynir sem fyrr að koma þeim fyrir kattarnef og mistekst að venju. Eins og titillinn ber með sér gerist sagan að hluta í Colosseum, hinu sögufræga hringleikahúsi í Róm, þar sem þeir Ástríkur og Steinríkur berja Rómverja í plokkfisk. Aulahúmor þess sem skrifar sögurnar, þ.e. Goscinny, skilar sér ágætlega og ætti að höfða til yngri lesenda sem og barnalegra blaðamanna. Óðríkur algaula stendur líka alltaf fyrir sínu og endar bundinn og keflaður í sögulok, sem endranær. Teikningarnar eru líka frábærar. Þessi er sígild í safnið.

Skapti og Skafti og Vaíla Veinólínó

Og talandi um sígildar teiknimyndasögur þá eru sögurnar um Tinna eftir Hergé það sannarlega, um það er varla deilt. En því miður virðist Hergé hafa verið haldinn kynþáttafordómum því teikningar hans af þeldökkum eru ljóður á annars prýðilegum sögum. Tinni hefur ekki aðeins birst á prenti því einnig voru gerðar teiknimyndir sem sýndar voru í sjónvarpi og leiknir þættir og – síðast en ekki síst – kvikmynd eftir sjálfan Steven Spielberg sem ku mikill aðdáandi Tinna allt frá æsku. Myndasögurnar eru fyrir margt merkilegar, m.a. fyrir óvenjumikinn texta. Stundum er hann svo mikill að hann kemst varla fyrir í einum ramma. Það þýðir því ekkert fyrir foreldra að skammast í börnum sem lesa slíkar sögur og segja að þau lesi ekki nóg. Þetta er heilmikill texti og sögurnar mögulega of flóknar fyrir yngstu lesendur. Sú sem Froskur gaf nú síðast út er Veldissproti Ottókars, saga sem gerist í hinu skáldaða smáríki Syldavíu. Tinni heldur þangað til að hjálpa konungi landsins, Ottókar XII, eftir að veldissprota hans er rænt. Að vanda koma við sögu þrjótar miklir og einnig tvíburarnir Skapti og Skafti og óperudívan Vaíla Veinólínó, svo nokkrar persónur séu nefndar. Því miður er Kolbeinn kafteinn fjarri góðu gamni en hann er skemmtilegasta persóna bókanna um Tinna, að mati ofanritaðs. Bókin er prentuð á mattan pappír þannig að litir njóta sín sérstaklega vel og hægt að fá hana bæði harð- og mjúkspjalda. Virkilega eigulegur gripur.

Gömul ímynd brotin upp

Öllu yngri eru svo tvær bækur um Sval og Val, annars vegar Svalur í Sovétríkjunum eftir þá Tarrin og Neidhardt og hins vegar Á valdi kakkalakkanna eftir Yann og Schwartz. Sú fyrrnefnda er frá árinu 2020 og sú síðarnefnda frá 2009. Þessar bækur eru frekar ólíkar þeim gömlu hvað teikningar varðar en vísa, samt sem áður, greinilega til þeirra. Má segja að útgáfunni á Svali og Val hafi verið haldið áfram til heiðurs gömlu bókunum, eða þannig skilur ofanritaður það.

Hið fróðlega og skemmtilega myndasagna-blogg Hrakfarir og heimskupör er greinilega skrifað af mikilli þekkingu höfundar (hvers nafn kemur þó hvergi fram) á teiknimyndasögum og segir þar að hliðarspyrpan Série le Spirou de …, eða Sérstök ævintýri um Sval …, sé bókaflokkur sem settur hafi verið á laggirnar til að brjóta aðeins upp hina gömlu ímynd af Svali og Val og um leið höfða til eldri lesenda sagnanna. Vonandi hefur það tekist því ekki veitir af stuðningi við myndasagnaformið hér á landi. Einnig er fróðlegt að sjá hversu hátt því er gert undir höfði sunnar í álfunni þar sem myndasagnamenning nýtur verðskuldaðrar virðingar og á sér langa sögu.

Einn íslenskur

Að lokum skal minnst á íslenskan höfund, Fannar Gilbertsson, sem gaf út myndasögu fyrr á þessu ári sem nefnist Gen-01. Hún er af allt öðru tagi en þær sem hér hafa verið nefndar, meira í ætt við bandarísku ofurhetjuhefðina og bæði blóðug og ofbeldisfull. Hún er því ekki fyrir yngstu lesendur. Greinilegt er að Fannar hefur lagt mikið í verkið og átta ára strit er að baki, að því er fram kemur í lokaorðum hans í bókinni. Það er langur tími og sýnir hversu mikil vinna getur legið að baki einni teiknimyndasögu. Teiknistíll Fannars er ögn stirður en hann á eflaust eftir að bæta sig með frekari æfingu og verða liprari teiknari. Að útgáfa á borð við Frosk sinni ungum höfundum er lofsvert og vonandi heldur Froskur áfram sínu góða og mikilvæga útgáfustarfi.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson