— Ljósmynd/Þjóðminjasafn Íslands
Hvað er að frétta? Hvað er að frétta? Hvað er að frétta? Hvurslags spurning er þetta eiginlega. Maður er auðvitað á haus núna að finna til gjafir í skó allra landsbarna. Alveg hreint brjáluð vinna enda fjölgar sífellt börnum! Fólk verður að hætta að …

Hvað er að frétta?

Hvað er að frétta? Hvað er að frétta? Hvurslags spurning er þetta eiginlega. Maður er auðvitað á haus núna að finna til gjafir í skó allra landsbarna. Alveg hreint brjáluð vinna enda fjölgar sífellt börnum! Fólk verður að hætta að eignast öll þessi börn; hvar endar þetta?

Ertu í vondu skapi?

Nei, ég þurfti bara að vakna óvenjusnemma; þetta lagast eftir fyrsta kaffibollann.

Finnur þú fyrir samkeppni við jólaálfinn sem nú tröllríður öllu?

Iss, þessi hilluálfur er bara eitthvert tískufyrirbrigði og hefur ekki roð við okkur alvöru jólasveinunum.

Nú ert þú vinsælasti jólasveinn þjóðarinnar. Veistu af hverju?

Tja, líklega bara af því að ég er skemmtilegastur og auðvitað langfríðastur. Bræður mínir eru svo forljótir greyin og hræða bara börnin. Svo kem ég auðvitað á besta degi ársins, aðfangadegi.

Hvernig líst þér á þessi nýju rafmagnskerti sem margir eru að nota í dag?

Mér líst bara ekkert á þau! Það er ekkert hægt að smakka; ég beit einu sinni í eitt slíkt og braut í mér tönn. Það var ekki á það bætandi þar sem þær eru flestar brotnar fyrir, enda er ég orðinn svo gamall og hef aldrei farið til tannlæknis. Það hlýtur að vera skelfileg reynsla.

Hvað á svo að gera á aðfangadagskvöld?

Við fjölskyldan hittumst öll í fjöllunum og mamma gamla sýður fyrir okkur hangilæri, býr til uppstúf og rauðkál. Annars hlakka ég mest til að sofa út á jóladag. Kannski sef ég bara fram á vor. Já, ég held það bara.

Viltu segja eitthvað að lokum?

Já, fyrst ég fæ að koma í viðtal vil ég segja: Verið góð hvert við annað og gleðileg jól!

Kertasníkir kemur síðastur til byggða. Eftir erilsama nótt við að fylla litla skó mun hann mæta á Þjóðminjasafnið kl 11 á aðfangadag þar sem börn geta séð hann með eigin augum.