Prestur „Þegar við hugsum til hinnar heilögu fjölskyldu í Betlehem upplifa margir sínar eigin minningar sem geta verið bæði hlýjar og sárar,“ segir sr. Þorgeir Arason Egilsstaðaprestur – hér kominn í fallega jólapeysu.
Prestur „Þegar við hugsum til hinnar heilögu fjölskyldu í Betlehem upplifa margir sínar eigin minningar sem geta verið bæði hlýjar og sárar,“ segir sr. Þorgeir Arason Egilsstaðaprestur – hér kominn í fallega jólapeysu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Mér finnst litlu skipta hvort við fáum hvít jól eða ekki. Frekar er að ég hafi áhyggjur af því að snjór og vetrarríki spilli færð svo messufall verði

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Mér finnst litlu skipta hvort við fáum hvít jól eða ekki. Frekar er að ég hafi áhyggjur af því að snjór og vetrarríki spilli færð svo messufall verði. Á Héraði getur verið snjóþungt, hvað þá ef yfir fjallvegi er að fara. Í fyrra voru sumar messurnar sem vera áttu úti í dreifbýlinu á jóladag þess í stað haldnar milli hátíða,“ segir Þorgeir Arason sóknarprestur á Egilsstöðum.

Frá ystu nesjum til innstu dala. Svona er stundum sagt í ofurlítið upphöfnum stíl en þetta gæti líka verið landfræðileg lýsing á Egilsstaðaprestakalli, en innan marka þess eru alls 14 kirkjur. Þær eru langt inni í landi, úti í sveitum, á Egilsstöðum og í sjávarplássunum Bakkagerði og Seyðisfirði.

Nú um aðventu, jól og áramót eru alls 34 athafnir í þessum kirkjum – litlar sem stórar. Þar við bætist að starf þeirra þriggja presta sem kirkjunum og fólkinu á svæðinu sinna er oft annasamt á þessum tíma árs. Margir sækja til kirkjunnar eftir hjálp fyrir jólin, svo sem sálrænum stuðningi í erfiðum aðstæðum. Og þegar litið er á björtu hliðarnar ættu jólin að veita gleði, svo dýrmætur er boðskapur þeirra.

Barn í smæð varð frelsari

Bubbi Morthens söng eða sagði einhverju sinni að ástin væri aldrei gömul frétt. Og sama má segja um barnsburð á Betlehemsvöllum fyrir 2023 árum. Alltaf er ástæða til að fagna þeim atburði, sem frásagnir hafa gefið máttugt líf svo fæðing barnsins er stærsta frétt allra tíma.

„Bubbi hitti naglann algjörlega á höfuðið þegar hann sagði ástina alltaf vera frétt. Um þetta má líka segja að þegar María ól sveinbarnið á Betlehemsvöllum forðum fól slíkt í sér ástarboðskap Guðs til mannfólksins. Guð sjálfur, sem lítið barn, kom í heiminn í varnarleysi sínu og smæð; en varð svo frelsari okkar mannanna,“ segir Þorgeir og heldur áfram:

„Þegar við hugsum til hinnar heilögu fjölskyldu í Betlehem upplifa margir sínar eigin minningar sem geta verið bæði hlýjar og sárar. Munum líka að Jesús vildi sem fulltíða leyfa börnunum að koma til sín og lyfta þeim að ljósinu. Raunar er allt jólaguðspjallið fullt af stórkostlegum sögum og miklum boðskap. Þau Jósep og María þurftu mikið trúartraust og hugrekki til að mæta óvæntum aðstæðum og leggja upp í sína löngu óvissuför á leiðinni til manntalsþings.“

Óbreytt saga

Þekkt er að sögur af atburðum geti skolast til í meðförum manna. Hinu ber þá að halda til haga að sagan af fæðingu Jesú hefur í meira en tvö þúsund ár haldist óbreytt svo engu skeikar. Séra Þorgeir segist aðspurður reyndar ekki efa að atburðarásin í Betlehem hafi verið eins og skráð er. Inntak sögunnar og boðskapur skipti alltaf máli. Annars haldi fólk sín jól undir ýmsum formerkjum, svo sem að nú er sólargangur aftur farinn að lengjast.

„En hvort sem fólk er trúað eða trúlaust ættu allir að ná saman á forsendum barns og friðar. Og myndmál sem kristindómurinn byggir á sækir mikið í hvörf ljóss og myrkurs. „Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því,“ segir Jóhannes guðspjallamaður til að lýsa komu Krists í heiminn. En svo finnst mér að myrkrið á þessum árstíma geti líka verið fallegt; fært okkur hvíld og ró. Í kaflanum úr spádómsbók Jesaja sem gjarnan er lesinn á jólum segir frá þeirri þjóð sem í myrkri gengur og sér ljós. Þar er líka talað um að öll harkmikil hermannastígvél og allar blóðstokknar skikkjur skuli brenna. Með komu Krists eigi friður að færast yfir, en slíkt gerist ekki nema þeir sem hafa frjálsan vilja nýti hann til góðs. Og þetta má hafa í huga nú þegar hart er barist í Úkraínu og Landinu helga,“ segir Þorgeir og bætir við:

„Og nú þegar palestínsk börn eru felld í þúsundatali má rifja upp að María og Jósef flúðu með Jesú nýfæddan til Egyptalands. Hafði Heródes þá gefið út að deyða skyldi öll sveinbörn tvívetra eða yngri ef ske kynni að í þeirra hópi leyndist nýr konungur. Barnamorðin í Betlehem eiga sér tilsvörun í hryllingnum sem nú á sér stað á Gasa.“

Athafnir víða

Í Egilsstaðakirkju eru þrjár athafnir í dag; jólastund barna kl. 14, aftansöngur jóla þar sem sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir þjónar er kl. 18 og sr. Þorgeir hefur með höndum jólanæturguðsþjónustu kl. 23. Í Seyðisfjarðarkirkju sem tilheyrir prestakallinu er aftansöngur kl. 18 og þar messar sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir. Þá er jólanæturmessa í Eiðakirkju kl. 22.30. Úti í sveitum, á sjúkrastofnunum og víðar í prestakallinu eru messur á jóladag og 2. degi jóla.

Búast má við góðri messusókn um hátíðir

Tengslin á milli fólksins og
kirkjunnar eru sterk úti á landi

„Messusókn í prestakallinu er misjöfn eins og gengur en oft ljómandi fín og víða hafa athafnirnar nú á aðventunni verið mjög vel sóttar. Mín tilfinning er sú að tengslin milli kirkjunnar og fólksins séu almennt sterk hér á landsbyggðinni,“ segir Þorgeir sem hefur verið sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli frá 2014. Hann var áður fræðslufulltrúi og héraðsprestur í prófastsdæminu. Eiginkona Þorgeirs er Hlín Stefánsdóttir og börnin eru þrjú. „Þetta verða 16. jólin síðan við hjónin fluttum til Egilsstaða og við höfum kunnað ákaflega vel við okkur hérna þrátt fyrir að vera bæði alin upp fyrir sunnan.“

Spurður hvort einhver kirkjustaður á Héraði sé í uppáhaldi sakir stemningar og helgi svarar Þorgeir Arason að slíkt sé nánast eins og að gera upp á milli barnanna sinna.

„En ég get þó nefnt að á Kirkjubæ í Hróarstungu er elsta kirkjan í prestakallinu og sú næstelsta á Austurlandi, vígð á jóladag árið 1851. Aðeins kirkjan á Skeggjastöðum á Langanesströnd er eldri, vígð fimm árum fyrr Það er alltaf mjög sérstakt að koma þangað, bæði er kirkjan ákaflega falleg og vel búin ýmsum sögulegum gripum. Einnig útsýnið af staðnum, sérstaklega Dyrfjallasýnin. Og yfirleitt er vel mætt þegar haldnar eru athafnir þar úti í sveitinni,“ segir Þorgeir.

Annars má segja að kirkjur á Héraði og þar í kring séu flestar mjög dæmigerðar; það er hefðbundin rishús með kór og turni. Kirkjan á Egilsstöðum sem mynd er af hér að ofan er hins vegar byggð eftir þeim arkitektúr og stíl sem áberandi er fyrir margar þær kirkjur sem reistar voru á síðari hluta 20. aldarinnar. Er miðlæg í byggðarlaginu og sést langt frá og áberandi í þeirri mynd er ljósum prýddur svipsterkur turninn.