Leiðtogi Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, leiddi Viðreisnarstjórnina fyrstu árin. Stjórnin ríkti í 12 ár.
Leiðtogi Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, leiddi Viðreisnarstjórnina fyrstu árin. Stjórnin ríkti í 12 ár. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Forsíða Morgunblaðsins var nær alfarið helguð einu máli laugardaginn 21. nóvember 1959; ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks hafði deginum áður tekið við völdum í landinu. Í dag þekkjum við hana sem Viðreisnarstjórnina en það nafn var ekki notað þennan dag enda kom það ekki til sögunnar fyrr en árið 1960, þegar stjórnin gaf út rit sem hún kallaði Viðreisn.

Baksvið

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Forsíða Morgunblaðsins var nær alfarið helguð einu máli laugardaginn 21. nóvember 1959; ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks hafði deginum áður tekið við völdum í landinu. Í dag þekkjum við hana sem Viðreisnarstjórnina en það nafn var ekki notað þennan dag enda kom það ekki til sögunnar fyrr en árið 1960, þegar stjórnin gaf út rit sem hún kallaði Viðreisn.

Hugur var í nýjum forsætisráðherra, Ólafi Thors formanni Sjálfstæðisflokksins, en vitnað var til máls hans á Alþingi í forsíðufréttinni. Hann velktist þó ekki í vafa um að ærið verkefni væri fyrir höndum.

„Að undanförnu hafa sérfræðingar unnið að ýtarlegri rannsókn á efnahagsmálum þjóðarinnar. Skjótlega eftir að þeirri rannsókn er lokið, mun ríkisstjórnin leggja fyrir Alþingi tillögur um lögfestingu þeirra úrræða, er hún telur þörf á. Athuganir hafa þó þegar leitt í ljós, að þjóðin hefur um langt skeið lifað um efni fram, að hættulega mikill halli hefur verið á viðskiptum þjóðarinnar við útlönd, tekin hafa verið lán erlendis til að greiða þennan halla og að erlend lán til stutts tíma eru orðin hærri en heilbrigt verður talið,“ sagði Ólafur.

Tillögur ríkisstjórnarinnar áttu að miðast við að ráðast að þessum kjarna vandamálanna, þar eð það væri meginstefna ríkisstjórnarinnar að vinna að því að efnahagslíf þjóðarinnar kæmist á traustan og heilbrigðan grundvöll, þannig að skilyrði sköpuðust fyrir sem örastri framleiðsluaukningu, allir hefðu áfram stöðuga atvinnu og lífskjör þjóðarinnar gætu í framtíðinni enn farið batnandi. „Í því sambandi leggur ríkisstjórnin áherzlu á, að kapphlaup hefjist ekki á nýjan leik milli verðlags og kaupgjalds og að þannig sé haldið á efnahagsmálum þjóðarinnar, að ekki leiði til verðbólgu.“

Raunveruleg lækning

Nýja stjórnin tók við af minnihlutastjórn Alþýðuflokksins sem hafði verið við völd í tæpt ár, eða frá því að vinstristjórn undir forystu Hermanns Jónassonar formanns Framsóknarflokksins hafði hrökklast frá í desember 1958. Viðreisnarstjórnin hafði átt sér nokkurn aðdraganda og í leiðara Morgunblaðsins daginn áður kom fram að ekkert væri óvænt við hana. Um leið og stjórninni var árnað heilla var hún brýnd til að taka til óspilltra málanna.

„Síðan vinstri stjórnin rofnaði hafa þessir flokkar tekið höndum saman um bráðabirgðaráðstafanir til þess að stöðva verðbólguna. Það hefur að verulegu leyti tekizt, og voða hinnar nýju verðbólguöldu, sem vinstri stjórnin skapaði verið bægt frá dyrum þjóðarinnar í bili. En það hefur aðeins verið gert með bráðabirgðaráðstöfunum. Raunveruleg lækning verðbólgumeinsins hefur ekki átt sér stað,“ sagði leiðarahöfundur.

Síðan talaði hann til fólksins í landinu: „Til þess að jákvæður og varanlegur árangur náist af viðreisnarviðleitni þeirrar ríkisstjórnar, sem nú er verið að mynda, þarf hún og ráðstafanir hennar að njóta skilnings og velvildar almennings. Íslendingum er það nú lífs nauðsynlegt að láta ábyrgðartilfinningu móta afstöðu sína gagnvart óhjákvæmilegum aðgerðum til þess að tryggja heilbrigðan grundvöll að þjóðarbúskap sínum.“

Séra Garðar Þorsteinsson prófastur prédikaði við þingsetninguna. Í ræðu sinni lagði hann út af orðum spámannsins í 59. og 51. kapítula Jesaja-ritsins. Kvað hann spámenn Ísraels hafa brýnt fyrir þjóð sinni hve trú og siðgæðishugsjónir feðranna væru dýrmætur arfur. Er spámaðurinn hefði séð að þjóðin var hirðulaus, hefði hann upphafið rödd sína, hrifið þjóðina með sér, styrkt hana til dáða, veitt henni aukna trú á sjálfa sig, land sitt og guð.

Sama dag og Viðreisnarstjórnin tók við völdum lét einn af fjórum ritstjórum Morgunblaðsins, Bjarni Benediktsson, af störfum enda var hann skipaður dómsmála- og iðnaðarmálaráðherra. Bjarna, sem ritstýrt hafði blaðinu frá haustinu 1956, voru þökkuð vel unnin störf og óskað velfarnaðar í nýju og ábyrgðarfullu starfi. Síst átti eftir að draga úr ábyrgð Bjarna en hann leysti fyrst Ólaf af sem forsætisráðherra í veikindaleyfi hans 1961, áður en hann tók alfarið við haustið 1963. Bjarni gegndi embætti forsætisráðherra þar til hann lést af slysförum sumarið 1970.

Eftir sátu þrír ritstjórar; Valtýr Stefánsson ábyrgðarmaður, sem tekið hafði við blaðinu 1924, Sigurður Bjarnason frá Vigur og ungur maður sem þá var nýsestur í ritstjórastól, Matthías Johannessen.

Staksteinar flettu hinum dagblöðunum til að kanna afstöðu þeirra til hinnar nýju ríkisstjórnar og kom þá í ljós að Tíminn, málgagn Framsóknarflokksins, óskaði henni fararheilla. Staksteinar tóku þeirri kveðju með fyrirvara: „Það er góðra gjalda vert, að Tíminn óskar hinni nýju ríkisstjórn fararheilla. Hitt mun öllum almenningi ljósara en Tímanum, að sá vandi, sem nú er við að etja, hefur ekki skapazt á því tæpa ári, sem liðið er síðan vinstri stjórnin hrökklaðist frá völdum. „Vandræðabagginn“ er einmitt arfurinn frá síðustu ríkisstjórn Hermanns Jónassonar.“

Ætla má að margir, sem það muna, sakni þessa hnútukasts milli flokksblaðanna – enda hleypti það oftar en ekki lífi í umræðuna.

Viðreisnarstjórnin reyndist slitgóð. Hún hélt velli í tvennum kosningum eftir þetta, 1963 og 1967, og fór ekki frá fyrr en að 12 árum liðnum, 1971, eftir að hafa misst meirihluta sinn á þingi í kosningum. Það gerir hana að langlífustu ríkisstjórn Íslandssögunnar.

Söngur og dans

Afar mjúkir í hreyfingum

Um sama leyti og Viðreisnarstjórnin tók við stjórnvelinum var stödd hér á landi erlend söng- og danskona, Vera Mackey, sem vakið hafði mikla eftirtekt, raunar svo mikla að Morgunblaðið gerði út mann til að heilsa upp á hana. Mun hún hafa verið jafnvíg á efnislitil, pínþröng en glitrandi léttklæði skreytt miklum fjaðraskúfum og íburðarmikla kvöldkjóla – „en hvort heldur sem er, þá vekur hún athygli og vekur hylli gestanna í Lido“.

Og svo kom stundin, þegar hún gekk fram til þess að velja sér einhvern karlmanninn meðal gestanna til að taka sporið með undir Ijúfum eða dillandi tónum Neo-kvartettsins. „Á suma gestina kemur angistarsvipur og kvíði ef þeir skyldu verða valdir (því kannski er konan með og er mótfallin því að maðurinn dansi við svo léttklædda söngkonu), en aðrir laga sig vel til og láta dálítið á sér bera, brosa út í bæði — og vona.“

Mackey bar íslenskum karlmönnum vel söguna. „Þeir eru ákaflega mjúkir í hreyfingum og kunna alls kyns dansa. Svo eru þeir svo stórir og myndarlegir að það er unaðslegt að svífa í örmum þeirra og láta alla í salnum sjá að maður hafi valið bezta herrann.“