Borgarstjórn Vigdís Hauksdóttir á fundi um braggamálið í Ráðhúsinu.
Borgarstjórn Vigdís Hauksdóttir á fundi um braggamálið í Ráðhúsinu. — Morgunblaðið/Hari
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Vigdísi Hauksdóttur borgarfulltrúa Miðflokksins hefur borist svar við tæplega þriggja ára gamalli fyrirspurn sem hún lagði fram í borgarráði. Síðast var kosið til borgarstjórnar laugardaginn 14. maí 2022. Vigdís var ekki í kjöri og því er eitt og hálft ár síðan hún yfirgaf þennan vettvang.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Vigdísi Hauksdóttur borgarfulltrúa Miðflokksins hefur borist svar við tæplega þriggja ára gamalli fyrirspurn sem hún lagði fram í borgarráði. Síðast var kosið til borgarstjórnar laugardaginn 14. maí 2022. Vigdís var ekki í kjöri og því er eitt og hálft ár síðan hún yfirgaf þennan vettvang.

Það var hinn 14. janúar 2021 sem Vigdís, sem var áheyrnarfulltrúi Miðflokksins, lagði fram í borgarráði fyrirspurn um ársreikning Reykjavíkurborgar árið 2019 og sölu byggingarréttar. Svar fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar, dagsett 17. desember 2023, var lagt fram á fundi borgarráðs 21. desember sl. „Beðist er velvirðingar á því hversu langan tíma hefur tekið að svara fyrirspurn þessari,“ segir í lokaorðum svarsins.

Kolbrún kvaðst vera orðlaus

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, lagði fram bókun og kvaðst orðlaus yfir því að þetta svar við fyrirspurn Miðflokksins um ársreikning Reykjavíkurborgar 2019 væri að koma fram svona löngu eftir að fyrirspurnin var lögð fram.

„Hvernig má þetta vera? Halda mætti að stjórnsýslan sé í molum. Reyndar eru því miður allmörg dæmi um þetta og er það með öllu óásættanlegt þegar meðaltími svara við fyrirspurnum er um 2-3 vikur. Miðflokkurinn getur ekki brugðist við svarinu þar sem hann er ekki í borgarstjórn lengur. Finnst meirihlutanum þetta boðlegt?“ bókaði Kolbrún.

Í fyrirspurn Vigdísar kom fram að samkvæmt ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 var sala byggingarréttar einungis krónur 25.754.000 en áætlanir gerðu ráð fyrir að salan yrði krónur 3.778.694.000 á árinu. Vildi hún fá skýringar á því hvers vegna áætlanir um sölu byggingarréttar á árinu voru ofmetnar eins og raun bar vitni.

„Hafa endurskoðendur ársreikninga Reykjavíkur gert athugasemdir við þessa „byggingarréttarsölufroðu“ sem notuð er til að láta fjárhagsáætlanir borgarinnar líta betur út en raunin er?“ spurði Vigdís.

Í svari við fyrirspurninni kemur fram að bókhaldsaðferð hafi verið breytt í samráði við endurskoðendur. Það þýði að tekjur geti dreifst á lengri tíma ef um áfangaskipt verkefni er að ræða.

Sömuleiðis er bent á að ytri aðstæður geti ráðið því hvernig áætlanir raungerist. Fall Wow air snemma á árinu 2019 hafi haft slík áhrif, sem dró úr áætluðum hagvexti og um leið umsvifum í hagkerfinu. Ytri áföll í efnahagslífinu geti haft drjúg áhrif.