— Ljósmynd/Ólavur Frederiksen
„Stríðið er unnið,“ sagði Gerhard Lognberg, bæjarstjóri Skopun í Sandey í Færeyjum, glaðbeittur þegar hann skar á borða til marks um það að Sandeyjargöng væru opnuð fyrir almennri umferð. Göngin tengja saman Sandey og Straumey

„Stríðið er unnið,“ sagði Gerhard Lognberg, bæjarstjóri Skopun í Sandey í Færeyjum, glaðbeittur þegar hann skar á borða til marks um það að Sandeyjargöng væru opnuð fyrir almennri umferð.

Göngin tengja saman Sandey og Straumey. Þau eru 10,8 kílómetrar að lengd, ein þau lengstu í eyjunum. Vinna við þau hófst árið 2019 og áætlaður kostnaður er um 890 milljónir danskra króna, jafnvirði um 17 milljarða íslenskra króna.

Þúsundir manna fylgdust með þegar göngin voru opnuð á fimmtudag og var mikill straumur bíla gegnum göngin. Blaðið Dimmalætting sagði að mannfjöldinn hefði verið eins og síld í tunnu. Ferjan Teistan, sem síðustu áratugi hefur siglt milli eyjanna, fór þá jafnframt í sína síðustu ferð.