[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað kemur þér í jólaskap? Jólalög, jólaljós, jólailmur og rölt í miðbænum. Hver eru þín eftirminnilegustu jól? Ég hef einu sinni prófað að vera erlendis og það var eftirminnilegt því við ákváðum að sleppa öllum gjöfum

Hvað kemur þér í jólaskap?

Jólalög, jólaljós, jólailmur og rölt í miðbænum.

Hver eru þín eftirminnilegustu jól?

Ég hef einu sinni prófað að vera erlendis og það var eftirminnilegt því við ákváðum að sleppa öllum gjöfum. Það var ekkert stress og aðfangadagur var mjög rólegur en stórfjölskyldan var öll pökkuð saman í eitt hús á Flórída. Við mamma keyptum lítið jólatré í Target sem stóð á borði til þess að hafa eitthvað sem minnti á jól. Það var svolítið skrítið að vera í hita á jólunum en mér þótti vænt um að eyða meiri tíma með fólkinu mínu og minni tíma í að hlaupa í búðir. Samvera og gæðastundir trompa gjafirnar.

Hvað er sniðugasta eða besta jólagjöf sem þú hefur fengið?

Þegar ég var lítil var til dót sem hét Furby sem var mjúkur talandi fugl. Það var algjört Furby-æði og ein jólin fékk ég Furby og hafði aldrei verið jafn spennt. Ég fór í jólaboð rétt eftir að ég opnaði pakkann og á innan við klukkutíma var frændi minn búinn að skemma Furby. Ég man eftir miklum gráti. Mig minnir samt að ég hafi fengið nýjan, en það voru vissulega miklar tilfinningar í þessari jólagjöf. Svo er jólagjöfin í ár dásamleg en ég og kærastinn ákváðum að gefa hvort öðru hvolp í jólagjöf; lítinn níu vikna labrador. Hún heitir Ugla af því ég og Oddur lékum saman í Atómstöðinni.

Hvernig verða jólin þín í ár?

Við verðum heima hjá mömmu og pabba, öll fjölskyldan, en við höfum ekki náð að slíta þann naflastreng þó að við systkinin séum flest fullorðin. Við höngum á foreldrum okkar að fá að vera þar á jólunum.

Ebba Katrín Finnsdóttir leikkona