George Michael féll frá á jóladag 2016.
George Michael féll frá á jóladag 2016. — Reuters
Last Christmas, eitt vinsælasta jólalag allra tíma, fór alltaf svolítið í taugarnar á manninum sem samdi það, George Michael. Þetta fullyrðir fyrrverandi umboðsmaður söngvarans, Simon Napier-Bell, í samtali við breska blaðið The Daily Telegraph

Last Christmas, eitt vinsælasta jólalag allra tíma, fór alltaf svolítið í taugarnar á manninum sem samdi það, George Michael. Þetta fullyrðir fyrrverandi umboðsmaður söngvarans, Simon Napier-Bell, í samtali við breska blaðið The Daily Telegraph.

„Honum leið aldrei nægilega vel með þá staðreynd að þetta væri besta lagið sem hann hafði samið um dagana. George vildi fyrst og fremst að sín yrði minnst sem frábærs lagahöfundar og innst inni pirraði það hann að lagið sem hann geirnegldi hefði verið jólalag,“ segir Napier-Bell.

Last Christmas kom fyrst út fyrir jólin 1984 og hefur notið mikilla vinsælda síðan, ekki síst eftir að Michael féll frá fyrir sjö árum. Hann lést, sem kunnugt er, á jóladag og fyrir vikið minnast margir aðdáendur söngvarans hans með því að hlusta á lagið. Hvort þessar upplýsingar frá umboðsmanninum koma til með að breyta einhverju þar um verður að teljast ólíklegt.