Börkur Gunnarsson er kvikmyndaleikstjóri.
Börkur Gunnarsson er kvikmyndaleikstjóri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dúnstúlkan í þokunni eftir Bjarna Bjarnason er ein besta bók hans og jólabókaflóðsins í ár. Bjarni hefur skrifað margar mjög góðar bækur en ég hef alltaf kunnað verr við þau verk þar sem hann er að vinna með áhuga sinn á draumum

Dúnstúlkan í þokunni eftir Bjarna Bjarnason er ein besta bók hans og jólabókaflóðsins í ár. Bjarni hefur skrifað margar mjög góðar bækur en ég hef alltaf kunnað verr við þau verk þar sem hann er að vinna með áhuga sinn á draumum. En í þessu verki hefur hann heldur betur náð að þróa stíl sinn með þeim hætti að maður er agndofa og fullur aðdáunar við lestur bókarinnar þótt svefn, órar og Drauma-Jói séu í öndvegi. Bókin er fallega skrifuð og samskipti Jóa og Guðbjargar Salínu eru töfrandi. Þau eru útsett fyrir árásum níðinga en lifa nánast með fegurðina eina sem næringu. Sagan gerist á Langanesi á 19. öld en sú öld var ekki mild nokkrum Íslendingi.

Heimsmeistari eftir Einar Kárason kom verulega á óvart. Efnistök Einars eru svo djörf og koma úr óvæntri átt. Skemmtileg bók þótt það sé langt síðan ég hef lesið bók sem er sett upp eins og hlemmur, eins og af einhverri andúð á greinaskilum og inndrætti efnisgreina.

Í stríði og friði fréttamennskunnar eftir Sigmund Erni Rúnarsson. Sem gamall blaðamaður er óskaplega gaman að lesa þessa bók sem byrjar í þéttri sígarettuþoku sem lá yfir öllum ritstjórnum íslenskra blaða. Alveg kostulegt að Sigmundur Ernir tilheyrir þeirri elítudeild blaðamanna sem slær allt inn með tveimur fingrum! Það að kunna ekki fingrasetningu var nánast skilyrði til að njóta virðingar í blaðamennsku fram á níunda áratug síðustu aldar, aðeins að hafa tvo vaska vísifingur. Gaman að vera í ferðalagi með honum frá DV upp úr 1980 til gjaldþrots Fréttablaðsins 2023.

Stríðsbjarmar eftir Val Gunnarsson. Bók Vals um Úkraínu, Bjarmalönd, var vel heppnuð og þessi er ekki síðri. Valur er sá Íslendingar sem er hvað kunnastur aðstæðum í hinu stríðshrjáða landi Úkraínu og þeim hörmungum sem hafa dunið yfir þjóðina í framhaldi af innrás Rússa. Ég er hlutdrægur í umfjöllun um bók hans því ég var með honum í för um Úkraínu þegar hann skrifaði þessa bók en hana má lesa oft.

DJ Bambi eftir Auði Övu. Ekki besta bók þessa uppáhaldshöfundar míns en hún er slíkur meistari að hennar sístu verk er unun að lesa. Vald hennar á íslenskunni og seiðurinn sem hún nær að magna með orðum fanga mann. En ég mun frekar lesa aftur hinar bækurnar hennar, einn lestur dugir þessari.