— Ljósmynd/Colourbox
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lokaorð versanna þriggja, himnesk ró, frelsari fæddur og Kristur, kominn í heim, eru jólagjöf himinsins til þín.

Agnes M. Sigurðardóttir

Á kaffistofunni á Biskupsstofu er skjár þar sem jólastemningsmyndir frá youtube.com eru á skjánum í desember. Oftar en ekki hljómar ljúf og róleg tónlist undir myndunum. Við lesum líka úr Biblíunni á hverjum vinnumorgni aðventunnar, texta sem tengjast aðventu og jólum. Allt þetta færir okkur frið í hjarta og gefur okkur kraft til verka dagsins.

Ytra umhverfi hefur áhrif á okkur og ljósin sem kvikna hvert af öðru í svartasta skammdeginu minna okkur á þann sem sagðist vera ljós heimsins, barnið í jötunni, Jesú Krist.

Aðventu- og jólatíminn reynist mörgum erfiður á meðan aðrir njóta þess tíma vel. Jólin eftir ástvinamissi eru erfið, söknuðurinn sár og tómleikinn mikill þegar einn vantar við borðið sem alltaf hefur verið.

Boðskapur jólanna er alltaf sá sami. „Yður er í dag frelsari fæddur,“ sagði engillinn við hirðana og enn í dag eiga þessi orð við. Þau eru ætluð öllum manneskjum á öllum tímum. Hverjum og einum er færð þessi gjöf, fæðing barns sem er í senn Guð og maður. Staðfesting þess að Guð er á meðal okkar.

Fæðing barns er mikið undur og það að líta nýfætt barn fyllir okkur lotningu og gleði. Við megum nú í huganum líta á barnið í jötunni. Finna kærleikann sem streymir frá því og fyllir hjarta okkar. Hugsa um tilganginn með fæðingu þess og um leið tilgang lífsins og merkingu okkar eigin lífs.

Í hinni nýju sálmabók þjóðkirkjunnar er þýðing Helga Hálfdánarsonar á texta Josefs Mohrs, Stille Nacht, heilige Nacht, sem við syngjum með textanum Heims um ból, helg eru jól eftir Sveinbjörn Egilsson. Þýðing Helga er svona:

Blíða nótt, blessaða nótt!

Blundar jörð, allt er hljótt.

Fátæk móðir heilög og hrein

hljóðlát vakir, á lokkprúðan svein

horfir í himneskri ró.

Blíða nótt, blessaða nótt!

Blikar skær stjarna rótt.

Hljómar englanna hátíðarlag.

Heimur fagnaðu! Þér er í dag

frelsari fæddur á jörð.

Blíða nótt, blessaða nótt!

Heilagt barn brosir rótt;

ást og mildi af ásjónu skín.

Enn er friðar að leita til þín,

Kristur, kominn í heim.

Lokaorð versanna þriggja, himnesk ró, frelsari fæddur og Kristur, kominn í heim, eru jólagjöf himinsins til þín. Megir þú meðtaka þá gjöf í hug og hjarta og finna þann frið sem Guð einn gefur.

Gleðilega hátíð ljóss og friðar.

Höfundur er biskup.