[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað kemur þér í jólaskap? Það sem kemur mér í jólaskap nú seinni árin eru heimsóknir í nokkrum góðra vina hópum á Jómfrúna. Það finnst mér alltaf svo skemmtilegt. Síðan eru nokkrir fastir punktar sem geta virst virkilega nördalegir en það er að…

Hvað kemur þér í jólaskap?

Það sem kemur mér í jólaskap nú seinni árin eru heimsóknir í nokkrum góðra vina hópum á Jómfrúna. Það finnst mér alltaf svo skemmtilegt. Síðan eru nokkrir fastir punktar sem geta virst virkilega nördalegir en það er að fara og kaupa jólatréð, hangikjötið og malt og appelsín. Þetta þarf að gerast tímanlega; ég veit ekki af hverju en þannig þarf það bara að vera. Svo má kaupa allt annað síðar en það skrítna er að þetta þarf að vera klárt og komið í hús í góðan tíma öryggisins vegna.

Hver eru þín eftirminnilegustu jól?

Jólin eru alltaf svo eftirminnileg. Æskujólin með stórfjölskyldunni hjá ömmu á Snorrabraut og svo æskuheimilinu á Nesinu – eplakassi og mandarínur. Jólin breyttust þegar við konan vorum orðin foreldrar og jólin með fyrsta barn eru mjög eftirminnileg. Það eru einnig mjög eftirminnileg fyrstu jólin á æskuheimili konu minnar með tengdaforeldrunum. Þar var bæði boðið upp á rjúpu og hamborgarhrygg með öllu meðlæti. Ég hafði aldrei smakkað rjúpu á þessum tíma og María konan mín og Bryndís tengdamamma borðuðu hrygginn en þeir feðgar Óskar og Haukur borðuðu rjúpur. Tengdapabbi bauð mér að smakka rjúpuna og skenkti mér smá bita og sagði að ég yrði að fá mér allt meðlætið á diskinn, þar með talið allt sem tilheyrði hamborgarhryggnum líka. Varð fljótt pakksaddur af þessu öllu. Sá svo að þeir feðgar fengu sér bara rjúpu, kartöflur og sósuna. Það var mikið hlegið að þessu síðar en þeir feðgar voru ansi séðir og einbeittur tilgangur þeirra var að eiga nóg í hádegisveisluna á jóladag og að nýi tengdasonurinn væri ekki að taka allt of mikið af þessum takmörkuðu gæðum sem rjúpan var og er enn.

Hvað er sniðugasta eða besta jólagjöf sem þú hefur fengið?

Ég hef oft fengið mjög skrítnar jólagjafir enda vinahópurinn ansi litríkur. Sjálfum þykir mér alls ekki leiðinlegt að gefa fáum útvöldum stórskrítnar jólagjafir. Fyrir nokkrum árum fékk ég Herbert Guðmundsson í jólagjöf inn í stofu. Hann stoppaði vel og lengi og leit það út um tíma að sú gjöf yrði mögulega hjá okkur öll jólin. Ég á svo orðið nokkrar dónalegar svuntur, bæði leður og venjulegar, og bækur um eitt og annað mjög undarlegt. Á til að mynda bókina Íslensk nautaskrá fyrir Austfjarðafjórðung frá árinu 1978 sem er fallega bundin inn í leður. Þannig að ef einhver er að spá í gjöf fyrir mig þá á ég þetta. Mér finnst þetta alltaf jafn skemmtilegt.

En talandi um jólagjafir þá hef ég lent í því að gefa konunni minni nákvæmlega sömu jólagjöfina tvenn jól í röð og trúið mér, kæru eiginmenn – í því viljið þið alls ekki lenda!

Hvernig verða jólin þín í ár?

Jólin í ár verða alveg sultuslök. Ég fékk snemmbúna en löngu tímabæra jólagjöf þann 18. desember sem var ný vinstri mjöðm. Verð því á hækjunum og fjölskyldan hefur lofað að stjana við mig. Býst samt við að vera aðeins í eldhúsinu á aðfangadag eins og alltaf, ef ég get. Mér finnst það svo mikil stemming. Sem sagt náttfatajól á Nesinu fram undan.

Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi