Katrín Fjeldsted opnar myndaalbúm afa síns sem geymir stórmerkilegar og sögulegar ljósmyndir.
Katrín Fjeldsted opnar myndaalbúm afa síns sem geymir stórmerkilegar og sögulegar ljósmyndir. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ef ég hefði fengið mínar háu óskir uppfylltar hefði ég kannski aldrei fengið að sjá Katrínu Norðmann, þann indælasta engil sem nokkurn tímann hefur villst niður á jarðríki.

Hundrað ár eru frá andláti Einars Viðar, bankaritara, söngvara, ferðagarps og afa læknisins Katrínar Fjeldsted, en Einar lést úr lungnabólgu aðeins tæplega 36 ára gamall. Í fjölskyldu Katrínar hefur varðveist aldargamalt myndaalbúm sem ber vott um næmt auga Einars fyrir myndefni, en í albúminu eru einstakar ljósmyndir úr ferðalögum, af vinum og fjölskyldu og merkilegum viðburðum, en Einar söng í kvartett og það fyrir kónginn oftar en einu sinni. Einnig á Katrín í fórum sínum dagbók afa síns sem rituð er snemma á tuttugustu öldinni en hún geymir hugrenningar ungs manns um lífið og tilveruna og ekki síst ástina.

Dagbókin ansi kómísk

Banamein Einars var lungnabólga en á þessum árum var pensillín ekki til; það kom ekki til landsins fyrr en um 1944. Katrín segir móður sína, Jórunni Viðar tónskáld, hafa átt fáar en góðar minningar um söng föður síns en Einar var tenór.

„Hann var að syngja við jarðarför í Hafnarfirði og gekk heim á Laufásveg og forkelaðist á leiðinni. Hann vann í Íslandsbanka sem bankaritari og var söngvari en þeir voru fjórir sem stofnuðu kvartett sem var forveri Fóstbræðra,“ segir Katrín og dregur fram dagbók afa síns en hann skrifaði um líf sitt í nokkur ár þegar hann var rétt um og yfir tvítugt, en Einar er fæddur árið 1887.

„Bókin hefst árið 1906 og hann lýsir ævi sinni sem bankaritara og söngnum, konungskomunni þar sem þeir sungu á öllum vígstöðvum; meðal annars á Þingvöllum. Bókin er ansi kómísk því hann hefur verið með góðan húmor. Við fundum þessa dagbók uppi á háalofti á Laufásvegi 35,“ segir Katrín og segir að í bókinni sé Einar að lýsa lífi ungra manna í Reykjavík og samkvæmislífinu, meðal annars.

Ég er gæfunnar kjölturakki

Í dagbókinni er einnig sagt frá ást hans til ömmu hennar, Katrínar Norðmann, þó fyrst sé skrifað um óendurgoldna ást hans til konu sem hann kallar Daisy en hét víst Þórdís. Í miðri dagbók má svo finna litla þurrkaða rós sem nú er orðin meira en hundrað ára.

Katrín leyfir blaðamanni að heyra smá kafla:

Katrín Norðmann gaf mér rós þessa á dansleik skólapilta hinn 1. apríl 1910. Ég er gæfunnar kjölturakki. Upp á þannig lagaðar konditiones er ekkert leiðinlegt að vera hundur og ég er ekkert annað en bölvaður hundur; það sé ég þegar ég lít yfir minn skrásetta æviferil. Þarna hef ég ímyndað mér að ég hafi verið ástfanginn í Daisy í fimm ár en alltaf hef ég lagt rófuna á milli fótanna þegar hendur þurftu að standa fram úr ermum. Jæja, ég er þá jolly dog. Ég hefi ásakað forsjónina en nú get ég ekki annað en hælt henni á hvert reipi, því ef ég hefði fengið mínar háu óskir uppfylltar hefði ég kannski aldrei fengið að sjá Katrínu Norðmann, þann indælasta engil sem nokkurn tímann hefur villst niður á jarðríki.

Öld frá dánardegi

Í dagbókinni er ekkert minnst á Nafnlausafélagið, enda hefur það verið stofnað þó nokkru síðar. Albúmið góða geymir minningar úr því félagi, en á það er áletrað á kápu: Þórisdalsför Nafnlausafélagsins 1918 – og fl.

Katrín flettir gulnuðum blaðsíðum og sýnir blaðamanni ljósmyndir sem tengjast félagsskap fjögurra ungra manna; Einars, Tryggva Magnússonar, Helga Jónassonar frá Brennu og Haraldar Johannessen, afa og nafna ritstjóra þessa blaðs. Allir voru þeir miklir ferðagarpar en Nafnlausafélagið er undanfari Ferðafélags Íslands sem stofnað var árið 1927.

„Einar er með svo marga vinkla inn í gömlu Reykjavík,“ segir Katrín og finnst því gaman að segja frá honum nú þegar heil öld er frá dánardegi hans.

Jórunn móðir Katrínar fékk því miður ekki að kynnast föður sínum vel því hún var barn að aldri þegar hann lést árið 1923, langt fyrir aldur fram.

„Það eru hundrað ár í ár síðan hann dó, en þá hafði hann eignast tvær dætur, Jórunni Viðar og Drífu Viðar, sem voru fjögurra og þriggja ára gamlar þegar hann lést,“ segir Katrín og nefnir að amma sín og nafna hafi þá staðið uppi sem ung ekkja með telpurnar tvær.

„Amma mín kenndi á píanó hvern einasta dag og eftir að hann dó stofnaði hún hljóðfæraverslun Katrínar Viðar í Lækjargötunni,“ segir Katrín.

Kátir piltar syngja fyrir kónginn

„Í dagbókinni er líka sagt frá söngæfingum og frá því þegar þeir sungu fyrir kónginn,“ segir Katrín, en Friðrik 8. kom hingað sumarið 1907 og fór meðal annars til Þingvalla á þjóðfund þar sem Einar söng fyrir hann ásamt kvartettinum Kátum piltum.

Katrín segir þann kvartett að öllum líkindum undanfara karlakórsins Fóstbræðra en á einum stað í dagbókinni kallar Einar þá félaga „fóstbræður“.

Í sögu Fóstbræðra er þess getið að karlakórinn, sem stofnaður var árið 1916, hafi upphaflega heitið Karlakór KFUM en var nafninu breytt í Fóstbræður eftir kvartett sem fyrsti söngstjóri kórsins, Jón Halldórsson, hafi sungið í í byrjun aldarinnar. Þessi orð styðja þá þessa kenningu Katrínar.

„Þeir eru náttúrulega fóstbræður. Þeir eru þrír frændur; bræðurnir Jón og Pétur Halldórssynir og Einar og svo Viggó Björnsson. Þeir voru alltaf saman,“ segir Katrín og nefnir að Pétur hafi síðar orðið borgarstjóri í Reykjavík.

Einar lýsir ferðalaginu til Þingvalla en riðið var þangað á hestum og les Katrín upp fyrir blaðamann brot úr frásögn.

Við komumst varla úr sporunum enda höfðum við bikkjur … hysterískar merar. Veður var lygnt með sólskini og hita … Þegar á heiðina var komið var moldrykið svo óþolandi að tenórarnir voru reknir út af veginum til þess að þeir gætu komið upp bofsi um kvöldið.

Síðar lýsir Einar á kómískan hátt söngnum fyrir kónginn sem gekk kannski ekki sem skyldi enda voru þeir greinilega að borða þegar kallað var á þá að skemmta kónginum.

… ég var með munninn fullan af riklingi sem ég ætlaði aldrei að geta gleypt og Valdi Steph. með gúllasbita í hálsinum sem var búinn að standa í honum í fimm mínútur og hélst þar aðrar fimm. Við máttum hver vera með sitt sólónúmerið; hann Báran blá en ég með Ólafur reið með björgum fram.

Ferðuðust um fjöll og firnindi

Nafnlausafélagið var starfandi í nokkur ár og ferðuðust þeir félagar víða. Margar ljósmyndir albúmsins sýna frá ferð í Þórisdal, eins og titill þess ber vott um.

„Þeir félagar í Nafnlausafélaginu ferðuðust um fjöll og firnindi,“ segir Katrín og segir aðaltilgang félagsins hafi verið að ferðast um landið.

„Þeir voru að skoða náttúruna,“ segir Katrín og segist telja nokkuð víst að afi hennar hafi verið ljósmyndarinn.

„Þeir voru með allan útilegubúnað og ferðuðust um á hestum. Þessar myndir gætu líka verið merkilegar því þær sýna mögulega breytingar á landslagi, auk þess að hafa sögulegt gildi,“ segir Katrín og flettir í albúminu. Á nokkrum myndanna má sjá þá með riffla eða jafnvel skammbyssur og á einni myndinni sem hér er á síðunni má sjá tvo reffilega vini að kveikja í vindli með smiti.

Eftir margar blaðsíður af ferðamyndum koma myndir úr bæjarlífinu, frá víðavangshlaupum, skotveiði og af vinum og fjölskyldu, en síðustu myndirnar eru teknar um 1920.

„Þeir voru í öllu, strákarnir í Nafnlausafélaginu. Þetta eru ótrúlega skemmtilegar myndir og þær þurfa að fara á safn,“ segir Katrín og blaðamaður getur tekið undir það.

„Afi minn hefur verið mikill ljósmyndari, ferðamaður, söngvari og mikill karakter, og alltaf svona kátur og skemmtilegur.“

Hefur þú erft þessi fjallabakteríu frá afa þínum?

„Nei, ég er 101-lattelepjandi borgarbarn,“ segir Katrín og hlær.