Eimskip Félagið breytti siglingakerfinu til að draga úr losun.
Eimskip Félagið breytti siglingakerfinu til að draga úr losun. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Þegar breytingar á gjaldskrá Eimskips eru ákveðnar er litið til breytinga á launavísitölu og vísitölu neysluverðs og þróunar gengis evru síðustu sex mánuði á undan og skýrir þróun framangreindra viðmiða boðaða hækkun á gjaldskrá sjóflutninga…

Þegar breytingar á gjaldskrá Eimskips eru ákveðnar er litið til breytinga á launavísitölu og vísitölu neysluverðs og þróunar gengis evru síðustu sex mánuði á undan og skýrir þróun framangreindra viðmiða boðaða hækkun á gjaldskrá sjóflutninga félagsins um næstu áramót, að sögn Eddu Rutar Björnsdóttur framkvæmdastjóra mannauðs- og samskiptasviðs Eimskips.

Morgunblaðið leitaði skýringa hjá henni á boðaðri gjaldskrárhækkun félagsins um næstu áramót, en hún hækkar þá um 3,4% á Íslandi og erlendis um 3,2-3,4%. Sömu ástæðu segir hún vera að baki hækkuninni í ár, 15,1%. Gjaldskrá skipafélagsins er endurskoðuð á sex mánaða fresti.

Varðandi ETS-gjöld Evrópusambandsins sem leggjast ofan á gjaldskrá sjóflutninga segir Edda Rut að félagið hafi ekkert val um það. Félagið hafi hins vegar lagt á það áherslu að íslensk stjórnvöld skoði að gefa undanþágu frá þeim, líkt og gert var með flugsamgöngur, þar sem Ísland sé eyja og enginn raunhæfur valkostur fyrir hendi til að koma varningi til landsins nema sjóleiðina. Gjöldin komi niður á samkeppnishæfni þjóðarinnar.

Hún segir að Eimskip hafi ráðist í umfangsmiklar breytingar á siglingakerfi félagsins með það að markmiði að draga úr losun, en með hinu nýja kerfi minnki hún um 14%. Einnig sé félagið að skoða möguleikann á að kaupa skip sem ganga fyrir vistvænu eldsneyti að hluta.