Ólöf Jóna Haraldsdóttir (Lóa) fæddist 15. febrúar 1946. Hún lést 7. desember 2023. Útför hennar fór fram 22. desember 2023.

Enn er höggvið í hópinn okkar skólasystkina sem lukum námi frá Bifröst 1965. Með fráfalli Lóu hafa 14 af 38 nemenda hópi kvatt okkur.

Ekki kom okkur á óvart er við fréttum af andláti Ólafar eða Lóu sem var hennar gælunafn. Lóa hafði glímt við óvæginn sjúkdóm um nokkra hríð. Svör við tilkynningu á hópinn voru nær samróma í minningunni:

Hún var góð kona, hlédræg, hæggerð, feimin, brosmild og hlýleg. Ein sendi:

„„Nú andar suðrið,“ sagði Lóa alltaf þegar hún rak inn höfuðið á leið sinni í háttinn og bauð okkur Sollu góða nótt, og við báðum að heilsa Þóru sem deildi með henni herbergi.“

Það voru aldrei nein læti, asi eða fyrirgangur heldur unnið á hljóðlátan hátt og vandað til allra verka. Stundum klingjandi hlátur. Lóa var flink í höndunum og inni í jólakortum frá henni leyndust stundum gullfallegar heklaðar stjörnur eða eitthvað sem prýðir glugga okkar hjóna um jólin. Lóa var músíkölsk, spilaði á gítar og söng. Sennilega var það á kvöldvöku að Lóa tróð upp og söng einsöng. Ég reyni að sjá hana fyrir mér þegar við bekkjarsysturnar héldum fund í Grábrókarfélaginu og fylltum eitt herbergið, Lóa með gítarinn, sem hét Lalli Gauja, og sungum skátalög eða kannski „Lóa litla létt á fæti, eins og gengur …“.

Ég minnist þess er við hjónin áttum heima á Laugarvatni að við heimsóttum Lóu og Ingó í sumarbústað við Álftavatn og ég tók mynd af Lóu með frumburð okkar í fanginu sem var þá á fyrsta ári. Sonur þeirra fæddist svo tveimur árum seinna.

Samband Lóu og Ingólfs sem þau stofnuðu til í skólanum varði áfram og þau gengu í hjónaband og stofnuðu heimili á Akranesi. En eins og gengur skildi leiðir þeirra. Seinna stofnuðu hún og Benedikt Jónsson til traustrar vináttu og hefur Benni verið hennar förunautur um árabil og stutt Lóu dyggilega í veikindunum undanfarin ár. Þau áttu vel saman og nutu þess að ferðast og skoða ókunn lönd. Eina slíka ferð fóru þau með okkur bekkjarfélögunum til Berlínar fyrir nokkrum árum og árið 2019 vorum við hjónin í sömu ferð og þau til Normandí í Frakklandi.

Lóa var heilsteyptur persónuleiki og óx við kynningu. Fyrir hönd bekkjarsystkina í Bifröst sendum við aðstandendum samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.

Kveðja frá bekkjarsystkinum,

Guðrún Helga Gestsdóttir og Viðar Þorsteinsson.

Okkar kæra vinkona Ólöf Jóna Haraldsdóttir, Lóa, er fallin frá. Hún var borin og barnfæddur Akurnesingur. Margs er að minnast eftir margra ára vináttu. En ég man hana fyrst sem foreldri á dagheimili bæjarins, árið 1975, við nýflutt í bæinn. Einkasonur hennar var á deildinni, sem ég vann á. Hann var henni greinilega allt og hún einstök móðir sem bar hag hans fyrst og fremst fyrir brjósti.

Síðan liðu u.þ.b. 15 ár. Við vorum stödd á árshátíð IJ. Mér er ógleymanlegt hversu glæsileg hún var. Svo framúrskarandi vel tilhöfð og falleg, þannig var hún alltaf. Henni þótti svo gaman að dansa. Benni hafði boðið henni og upp frá því voru þau alltaf nefnd saman meðal okkar vinanna: Lóa og Benni eða Benni og Lóa.

Við urðum „systur“ í Soroptimistaklúbbi Akraness og nágrennis þar sem hún var stofnafélagi. Á þeim vettvangi áttum við saman margar góðar stundir.

Nokkrir vinnufélagar IJ stofnuðu ferðahóp, jeppahópinn. Á hverju sumri um nokkurra ára skeið fórum við í ferðir vítt og breitt um landið eða í sumarbústað. Og mikið var gaman. Alltaf voru Lóa og Benni með. Það var ekki látunum eða fyrirganginum fyrir að fara hjá Lóu. Í rólegheitum og með yfirvegun tók hún þátt í glensinu og gamninu. Við vorum nokkur sem áttum hjólhýsi sem voru staðsett á sumarhúsasvæði starfsmanna IJ. Þar áttum við hjónin frábærar samverustundir með Lóu og Benna.

Hjólahýsatímabilinu lauk og við keyptum okkur ferðabíla. Þeirra bíll var ógleymanlegur, appelsínugulur Volkswagen-rúgbrauð. Vinskapurinn þróaðist þannig að við fjögur fórum að ferðast saman innanlands og utan. Ótaldar sumarbústaðaferðir fórum við saman vetur, sumar, vor og haust. Aldrei bar skugga á í okkar ferðum. Allar þessar samverustundir eru geymdar í minningasjóðnum okkar og eru okkur óendanlega dýrmætar.

Handverk lá vel fyrir Lóu. Við getum skreytt heilt jólatré með öllum handunnu jólakveðjunum frá henni og Benna. Fyrir nokkrum árum hafði Lóa orð á að hún hefði ekki lengur ánægju af jólunum. Það fannst mér mjög ólíkt henni. Eitthvað var brostið.

Ein utanlandsferðin enn var skipulögð. Allt var klárt. En þá kom covid og allt var blásið af. En annar vágestur hafði bankað upp á hjá okkar kæru vinkonu. Eftir það lá leið heilsu hennar bara niður á við, uns hún týndist okkur. Þvílík sorg. Hjartans þakkir kæra vinkona fyrir allt og allt.

Elsku Benni, Haraldur og fjölskyldur, okkar dýpstu samúðarkveðjur við fráfall okkar kæru vinkonu.

Lilja og Hjörtur.