Umferðarskilti Þessum skiltum fækkar umtalsvert í borginni á næsta ári.
Umferðarskilti Þessum skiltum fækkar umtalsvert í borginni á næsta ári. — Morgunblaðið/Unnur Karen
Fljótlega á nýju ári verður hafist handa við að lækka hámarkshraða á fjölda gatna í Reykjavík. Borgaryfirvöld samþykktu árið 2022 að gera þessar breytingar en framkvæmdin hefur tafist. Hinn 28. nóvember síðastliðinn voru opnuð tilboð í útboði…

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Fljótlega á nýju ári verður hafist handa við að lækka hámarkshraða á fjölda gatna í Reykjavík. Borgaryfirvöld samþykktu árið 2022 að gera þessar breytingar en framkvæmdin hefur tafist.

Hinn 28. nóvember síðastliðinn voru opnuð tilboð í útboði umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, „Hámarkshraðabreytingar 2023“. Níu tilboð bárust og var það lægsta frá Malbikstöðinni ehf., 32,2 milljónir króna. Var það 46% af kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á 70 milljónir króna. Innkaupa- og framkvæmdaráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum þann 7. desember 2023 að ganga að tilboði Malbikstöðvarinnar ehf.

Morgunblaðið fékk þær upplýsingar hjá Reykjavíkurborg að verið væri að leggja lokahönd á samningagerð, upphafsfundur framkvæmda verður í kjölfarið og þar á eftir verður hægt að hefja framkvæmdir. Að öllum líkindum munu framkvæmdir því hefjast upp úr áramótum. Verklok eru áætluð 1. apríl 2024. Ekki var skilgreind forgangsröðun í útboðinu en verkáætlun verður rædd á upphafsfundi og verkfundum, upplýsir borgin.

Reykjavíkurborg tilkynnti í desember 2022 að hámarkshraði yrði lækkaður um alla borg á árinu 2023 í annaðhvort 30 eða 40 kílómetra á klukkustund á götum þar sem hámarkshraði var áður 50 kílómetrar á klukkustund. Umhverfis- og skipulagssvið hafði áður samþykkt breytingarnar. Þær eru liður í innleiðingu á hámarkshraðaáætlun Reykjavíkurborgar sem samþykkt var í apríl 2021. Með þessum áföngum verði lokið flestum breytingum innan íbúðahverfa og tengibrauta sem skera sundur íbúðabyggðir.

Alls 160 götur og vegir

Í tilkynningu sem borgin sendi frá sér á sínum tíma voru taldar upp 160 götur og vegir um alla borg, sem hraðalækkunin nær til.

Þá sagði í tilkynningunni að búast mætti við að það tæki stóran hluta ársins 2023 að koma þessu í framkvæmd því breytingin væri svo umfangsmikil. Lækkun hámarkshraða tæki ekki gildi fyrr en ný skilti væru komin upp. Til viðbótar yrðu hámarkshraðamerkingar málaðar í götur um leið og veður leyfði.

Morgunblaðið leitaði til Reykjavíkurborgar og spurði hvað hefði valdið því að þetta verkefni hefði dregist jafn mikið og raun bar vitni. „Kominn var á samningur við hönnuð í lok mars og átti hönnun að ljúka um mitt sumar. Hönnun og gerð útboðsgagna tafðist hins vegar og ekki var unnt að bjóða út fyrr en seint í haust,“ sagði í svarinu.