Öflugur Elvar Már Friðriksson hefur skorað 12,9 stig að meðaltali í 10 leikjum deildarinnar, tekið 3,4 fráköst og gefið 5,7 stoðsendingar á tímabilinu.
Öflugur Elvar Már Friðriksson hefur skorað 12,9 stig að meðaltali í 10 leikjum deildarinnar, tekið 3,4 fráköst og gefið 5,7 stoðsendingar á tímabilinu. — Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson
Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður Íslands í körfuknattleik, hefur farið á kostum með sínu nýja félagi PAOK í Grikklandi á tímabilinu. Elvar Már, sem er 29 ára, gekk til liðs við gríska félagið frá Rytas í Litáen í sumar en hann…

Grikkland

Bjarni Helgaon

bjarnih@mbl.is

Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður Íslands í körfuknattleik, hefur farið á kostum með sínu nýja félagi PAOK í Grikklandi á tímabilinu.

Elvar Már, sem er 29 ára, gekk til liðs við gríska félagið frá Rytas í Litáen í sumar en hann hefur skorað 12,9 stig að meðaltali í tíu leikjum deildarinnar, tekið 3,4 fráköst og gefið 5,7 stoðsendingar.

Þá hefur hann farið á kostum í Meistaradeild FIBA þar sem PAOK er komið áfram í umspil um sæti í 16-liða úrslitum. Hann varð þriðji leikmaðurinn í sögu Meistaradeildarinnar til þess að ná þrefaldri tvennu þegar PAOK vann útisigur, 88:77, gegn Galatasaray. Elvar skoraði 19 stig í leiknum, tók 11 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.

„Fyrstu mánuðirnir hérna úti hafa verið nokkuð góðir, myndi ég segja,“ segir Elvar við Morgunblaðið.

Vægast sagt krefjandi

„Undirbúningstímabilið hérna var vægast sagt krefjandi. Við æfðum mjög mikið og það var lítið um frídaga. Grikkirnir vilja æfa mikið og það tók mig smá tíma að venjast því en á sama tíma var ég frekar fljótur að aðlagast lífinu hérna. Við spiluðum mikið af leikjum á undirbúningstímabilinu þar sem ég var í smá basli til að byrja með en svo fann ég taktinn. Ég var því kominn í góðan takt þegar tímabilið byrjaði og sjálfstraustið var mikið. Mér hefur liðið vel í þessum fyrstu leikjum og hef spilað heilt yfir vel.

Ég hef líka fengið að spila mikið sem hjálpar alltaf þegar maður er að venjast nýju liði og nýrri deild. Þjálfarinn Fotis Takianos treystir mér fullkomlega og hann hefur lagt mikla áherslu á, alveg frá því að ég kom, að samband okkar sé gott. Mitt hlutverk er að stýra hraðanum í leikjum og ég geri það í miklu samráði við þjálfarann. Samtal okkar er mjög virkt á meðan ég er inni á vellinum og það er nýtt fyrir mér að vera með hausinn mikið á hliðarlínunni á meðan við erum með boltann en þetta hefur virkað vel hingað til. Heilt yfir er ég mjög sáttur við þessa byrjun mína í Grikklandi,“ segir Elvar Már.

PAOK situr sem stendur í fimmta sæti deildarinnar en sex efstu liðin komast áfram í úrslitakeppnina. Þá mætir liðið Tofas Bursa frá Tyrklandi í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar en vinna þarf tvo leiki til þess að tryggja sér sæti í þeim og er PAOK með heimavallarréttinn í einvíginu.

„Ég myndi segja að við séum nokkurn veginn á pari í deildinni en við lögðum upp með það að enda í efri hluta deildarinnar fyrir tímabilið. Við erum svo áfram með í baráttunni um að komast í 16-liða úrslitin í Meistaradeildinni og það yrði mjög stórt fyrir félagið að ná þeim áfanga. Það er virkilega gaman að spila í Meistaradeildinni og það var sérstakt augnablik að ná þrennunni gegn Galatasaray.

Þar ertu að spila á móti stærri liðum og betri leikmönnum og sýnileikinn þar er mun meiri en í grísku deildinni. Það er tekið vel eftir því þegar þú stendur þig vel í Meistaradeildinni. Ég skrifaði undir eins árs samning hérna og ég er ekki farinn að huga neitt að framtíðinni, er einbeittur á að standa mig vel hérna áfram, en að standa sig vel í Meistaradeildinni hjálpar manni klárlega upp á næstu skref á ferlinum.“

Eins og áður sagði lék Elvar með Rytas Vilnius á síðustu leiktíð en liðið hafnaði í öðru sæti deildarkeppninnar þar í landi en tapaði fyrir Zalgaris Kaunas, 3:2, í oddaleik um litáíska meistaratitilinn.

Mikill munur á löndunum

„Það er mikill munur á því að spila í Litáen og í Grikklandi. Það eru tvö mjög stór lið hérna sem hafa haft ákveðna yfirburði. Það eru nokkur lið í deildinni í Evrópukeppnum líka þannig að styrkleikinn er mun meiri hér. Þetta er mest krefjandi deild sem ég hef spilað í, það er klárt mál. Það er ekkert gefins og harkan er mikil. Þjálfarinn stjórnar líka ferðinni, hann setur leikinn upp og taktíkina og við spilum þetta aðeins eftir hans höfði.

Stemningin á leikjunum hérna er líka öðruvísi. Það er mjög vel mætt á þessa stærri leiki í deildinni og eins í Meistaradeildinni. Þetta er mikið sama fólkið sem mætir á fótboltaleiki og körfuboltaleiki og lætin eru oft mikil. Það er reykt í höllunum sem er frekar spes og það er eins og maður fari nokkur ár aftur í tímann á þessum leikjum. Á útivelli eru stuðningsmennirnir oft mjög ákafir og láta dómarana og mótherjana heyra það. Það er erfitt að spila í þannig andrúmslofti en á sama tíma geggjað á heimavelli.“

Elvari Má líður vel í Grikklandi og hann nær vel saman við liðsfélaga sína þó honum gangi ekkert sérstaklega vel með grískuna.

„Þetta er erfiðasta tungumál sem ég hef heyrt og stafrófið hérna og stafirnir hérna eru allt öðruvísi en maður er vanur. Ég myndi því segja að ég væri gjörsamlega týndur þegar kemur að tungumálinu en ég er kominn með eitt og eitt orð sem þeir eru reyndar mjög ánægðir með. Ég hugsa að ég verði aldrei reiprennandi í grísku en hver veit?

Annars er stemningin hjá félaginu mjög góð. Við erum sjö erlendir leikmenn hérna, fimm frá Bandaríkjunum og svo einn frá Litáen. Við náum allir vel saman og Grikkirnir eru góðir í ensku þannig að það eru engir tungumálaörðugleikar. Það er alltaf gaman að mæta á æfingu og það er mikill plús því það hefur ekki alltaf verið þannig,“ bætti Elvar Már við.