Lesember George Clooney á afmæli í júní en hann er örugglega að lesa í desember eins og á að gera.
Lesember George Clooney á afmæli í júní en hann er örugglega að lesa í desember eins og á að gera.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú erum við stödd í hinum ágæta mánuði lesember, sem kunnugt er. Hugtak þetta komst á flot fyrir fáum misserum, slegið er saman lesa og desember, allir skilja, mjög gott. Það er „mikið tekið“ um þessar mundir að nota mánaðaheiti til að…

Tungutak

Sigurbjörg Þrastardóttir

sitronur@hotmail.com

Nú erum við stödd í hinum ágæta mánuði lesember, sem kunnugt er. Hugtak þetta komst á flot fyrir fáum misserum, slegið er saman lesa og desember, allir skilja, mjög gott.

Það er „mikið tekið“ um þessar mundir að nota mánaðaheiti til að styrkja tiltekna hegðun, skapa tísku, undirstrika vitundarvakningu. Eða hver kannast ekki við Nægjusaman nóvember? Plastlausan september? Bláan apríl? Sá síðasttaldi er mánuður Styrktarfélags barna með einhverfu, nýlega raunar breytt í Einstakur apríl. Einna þekktastur þess konar átaksmánaða er svo Mottumars, þá minnir Krabbameinsfélagið karlmenn á að hafa auga með heilsu sinni og aflar fjár til félagsins um leið. Ostóber er líka til, þegar bændur og bragðlaukar um allt land fagna íslenskri ostagerð. Svo er Veganúar (viðmiðið hér er janúar) á alþjóðavísu mánuður þess lífsstíls sem sneiðir hjá notkun dýraafurða í fæði og klæði.

Þetta er sumsé vel plægður akur og eflaust fleiri sóknarfæri til. Júdólí er t.d. tilvalinn mánuður til að auglýsa hið fágaða sport júdó. Og klúní væri án efa alþjóðlegur aðdáendamánuður George Clooney ef hann væri ekki fæddur í … maí.

Eitt sinn, þegar ég starfaði á þessu blaði, skrifaði ég grein um sérnöfn og mánuðina, s.s. um fólk sem heitir eftir mánuðunum eins og við þekkjum þá. Þar bar helst til tíðinda að Júlí var bæði til sem karlmannsnafn og kvenmannsnafn, sem í þá tíð var ekki hægt að segja um mörg nöfn. Í greininni var einnig viðtal við konu sem skylmdist við kerfið til að fá nafn dóttur sinnar, Aprílar Sólar, skráð á opinber plögg. Apríl var þá ekki tekið gilt sem íslenskt kvenmannsnafn, en ef flett er í þjóðskrá dagsins í dag eru Aprílar þar í tugatali – þær hafa bæst við á þeim rúmu tuttugu árum sem liðin eru síðan greinin var rituð (2001).

Ég rannsakaði það ekki þá, heldur heyrði á skotspónum síðar, að skipstjórinn Ottó N. Þorláksson (sem þekktur togari er t.a.m. nefndur eftir) hafi upphaflega heitið Október Nóvember Þorláksson en kosið að stytta nafn sitt. Réttara er víst að hann var skírður Októ Nóvember Þorláksson, en það er jafn stórkostlegt fyrir því. Ég gleymi heldur ekki nafni Alexanders Desembers Jónssonar, sem uppi var á nýliðinni öld, og mér finnst enn forkunnarfagurt.

Þannig má áfram telja og mánuðirnir vissulega misvinsælir. Ég ákvað til dæmis að taka viðtal við einhvern að nafni Mars, fyrir fyrrnefnda grein, og í þjóðskrá báru nokkrir það sem millinafn. Ég valdi einn af handahófi og fattaði ekki fyrr en hann svaraði í símann: „Ágúst hér“, að hann hét tveimur mánaðanöfnum! Ágúst er svo algengt nafn að ég hugsaði ekki út í það þegar ég valdi Ágúst Mars sem viðmælanda minn. Á nafni hans er sú skýring að afi hans hét Ágúst og amman hét Marsibil. – Og í rauninni voru mánaðanöfnin ágúst og mars upphaflega nöfn keisara og stríðsguðs; sumsé mannanöfn.