Úkraínskur hermaður lítur upp úr skriðdreka nærri Bakhmut fyrr í þessum mánuði.
Úkraínskur hermaður lítur upp úr skriðdreka nærri Bakhmut fyrr í þessum mánuði. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég tel að hættan sé að svæðisbundin átök magnist upp í eitthvað stærra.

Max Hastings er íslenskum áhugamönnum um sagnfræði að góðu kunnur. Undanfarin ár hafa tvær bækur hans, Vítislogar og Kóreustríðið, komið út á íslensku í þýðingu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og nú um jólin bættist sú þriðja við, Kúbudeilan.

Nýjasta bókin kallast ef til vill best á við samtímann. Vesturveldin styðja Úkraínu í stríði við Rússa og á Gaza berst Ísraelsher við sveitir Hamas, sem aftur njóta stuðnings Írana. Íranar hafa lagt Rússum lið í Úkraínu og vegna þessara stríða, og hættunnar á átökum við Taívansund, hefur spennan í samskiptum helstu kjarnorkuvelda heims ekki verið jafn mikil lengi.

Hastings býr við Hungerford um 100 km vestur af London og svarar símanum á slaginu níu á laugardagsmorgni eins og umsamið var.

Áður en viðtalið hefst segir Hastings frá veiðiferðum sínum til Íslands. Þær hafi veitt honum mikla ánægju en sá tími sé nú að baki.

Alltaf öfundað píanóleikara

Samtalið hefst á að ræða mikil afköst Hastings. Hann varð ungur fréttaritari í Washington, gaf út fyrstu bókina aðeins 22 ára og hefur á löngum ferli sent frá sér um þrjátíu bækur samhliða ábyrgðarstöðum á fjölmiðlum. En hver skyldi vera lykillinn að slíkum afköstum?

„Ég er rithöfundur, þriðji ættliðurinn í röð í fjölskyldunni sem fæst við skriftir,“ segir Hastings en foreldrar hans fengust við ritstörf. „Þegar ég var unglingur ræddi faðir minn um áskorunina við að standa frammi fyrir auðri blaðsíðu. Þá skildi ég ekki hvað hann átti við en nú geri ég það. Jafnvel nú þegar ég er að verða 78 ára [á fimmtudaginn] og sest niður og kveiki á tölvunni finn ég enn fyrir áskoruninni sem fylgir tilhugsuninni um hvað ég ætla að setja niður á blað. Ég hef alltaf öfundað fólk sem getur spilað á píanó. Það er svo undursamleg gjöf. Ef maður getur ekki spilað á píanó er það næstbesta að geta skrifað. Og ég hef enn mikla ánægju af því og þegar samtali okkar lýkur mun ég setjast niður og skrifa þúsund orð og mun njóta þess,“ segir Hastings sem skrifar enn reglulega pistla meðfram bókarskrifum.

Vill ekki endurútgefa

– Þú tekur fyrir margbrotin viðfangsefni. Hvaða aðferðum beitirðu til að ná fram slíkum afköstum?

„Ætli ég hafi ekki verið að hugleiða þessa hluti allt mitt líf. Við vitum öll að til eru ungir snillingar en við flest, sem erum ekki snillingar, höfum þurft að læra okkar fag með tímanum. Útgefendur mínir hafa stundum viljað endurútgefa bækur sem ég skrifaði á þrítugsaldri og þótt ég sjái ekki eftir að hafa skrifað þær, vegna þess að þannig lærði ég að skrifa bækur, myndi ég ekki heimila endurútgáfu þeirra. Það sem ég skrifaði 22 eða 23 ára var enda, eins og ætla má, ekki ýkja gott. En hver og einn þarf að læra sína iðn.

Og ég tel að það sé nauðsynlegur eiginleiki sérhvers höfundar fræðilegs efnis að hafa til að bera forvitni. Að geta stöðugt spurt sig hvers vegna hlutirnir voru gerðir á tiltekinn máta og hvernig. Og ég held að ein mistökin sem margir höfundar gera oft nú á dögum sé að varpa gildum sínum og hugmyndum um 21. öldina á atburði sem gerðust fyrir löngu í mjög ólíkum heimi. Og hvort sem ég er að skrifa um fyrri heimsstyrjöldina, síðari heimsstyrjöldina eða Kúbudeiluna hef ég alltaf reynt að hugleiða og spyrja mig: hvernig horfðu hlutirnir við þessu fólki þá?

Sýndu mikinn hroka

Og þetta er eitt af því sem ég alltaf haft lúmskt gaman af varðandi Bandaríkjamenn, sem ég ann og hef skrifað mikið um í gegnum árin. Þegar ég skrifaði bók mína Kúbudeilan [sá ég hvernig] Bandaríkjamenn auðsýndu mikinn hroka með því að telja að einungis vegna þess að Kúba var 90 mílur frá Flórída ættu Bandaríkin rétt á að ákveða stjórnarfarið og hvað gerðist þar. Og ég var nýlega að tala um Kúbu í viðtali við bandarískan sjónvarpsmann. Og hann sagði: „En við vorum vissulega í rétti til íhlutunar, hafandi Kúbu við dyragættina hjá okkur, þegar það þjónaði hagsmunum okkar.“ Og ég svaraði að það væri sama röksemdin og Pútín forseti hefur haldið á loft fyrir innrás sína í Úkraínu og þá röksemd samþykkja fæst okkar. Þá sagði spyrjandinn: „En við erum öðruvísi.“ Og ég hló og sagði að það væri heila málið. En það gengur ekki, sérstaklega í stjórnmálum nútímans, að hugsa svona. Sú hugmynd að stórveldin hafi slíkan íhlutunarrétt er eitt af því sem við berjumst nú gegn í Úkraínu.

Forsætisráðherrann hissa

Og eitt af því sem Bandaríkjamenn gátu ekki skilið í Kúbudeilunni er að evrópskir leiðtogar voru mjög hikandi við að veita Bandaríkjunum skilyrðislausan stuðning. Forsætisráðherra Bretlands, Harold Macmillan, studdi, svo að dæmi sé tekið, Bandaríkin opinberlega. Hans persónulega skoðun var að það væri með ólíkindum að Bandaríkin væru á barmi stríðs út af atburðum á Kúbu, þegar það voru engin lagarök gegn því að Kúbverjar gætu haft eldflaugar á sínu landi, rétt eins og Bretar, Ítalir og Tyrkir höfðu tekið þá pólitísku ákvörðun að hafa bandarískar eldflaugar á sinni grundu. En að sjálfsögðu gátu Bandaríkjamenn ekki séð það. Ég bjóst ekki við að ljóstra upp um mikil leyndarmál í bók minni um Kúbudeiluna enda tel ég, ef frá er talin hlið Rússa, en þar er enn leynd yfir mörgum skjölum, að orðið sé lítið um leyndarmál hjá vesturveldunum til að afhjúpa, ekki fremur en um síðari heimsstyrjöldina eða fyrri heimsstyrjöldina.

Vill víðara sjónarhorn

Við getum hins vegar horft á hlutina frá öðru sjónarhorni. Fyrri kynslóðir höfðu tilhneigingu til að horfa á söguna frá mjög þjóðernislegu sjónarhorni. Og ég held að mín kynslóð sagnfræðinga hafi reynt að horfa á hlutina frá mun alþjóðlegra sjónarhorni,“ segir Hastings og tekur dæmi af því hvernig faðir sinn hafi litið svo á að Bretar og Bandaríkjamenn hafi unnið fyrri og síðari heimsstyrjöldina þegar raunin var að framlag Bandaríkjamanna og Rússa réð úrslitum í þeirri síðari.

„Ég tel að margir bandarískir sagnfræðingar, þar með taldir mjög hæfileikaríkir sagnfræðingar, hafi skrifað um Kúbudeiluna frá bandarísku sjónarhorni. Að mjög fáir þeirra hafi virkilega staldrað við og spurt sjálfa sig: Jæja, hvaða rétt höfðu Kúbverjar í þessu öllu saman? Og Bandaríkjamenn álitu það hneykslunarvert að maður eins og Kastró gæti orðið leiðtogi Kúbu. Þá myndi ég auðvitað segja, og aðrir evrópskir sagnfræðingar gætu gert það sama, að ekki ætti að koma á óvart, með hliðsjón af meðferð Bandaríkjamanna á Kúbu öldina á undan, þegar komið var í reynd fram við Kúbu eins og bandaríska nýlendu, að Kúbverjar hafi brugðist svona við.

Væri löngu fallin

Ég hef verið þeirrar skoðunar að hefðu Bandaríkin síðustu 50 eða 60 ár eftir Kúbudeiluna boðið Kúbu útbreiddan faðminn, kyngt móðgunum Kastró og svo framvegis, fjárfest og ýtt undir ferðamennsku, þá væri stjórn kommúnista löngu fallin. En ég tel að Bandaríkjamenn hafi til þessa dags hagað sér heldur barnalega í garð Kúbu með því að reyna að viðhalda umsátursástandi, sem einfaldlega framlengir hina hræðilegu stjórn landsins.

Ég var sem ungur maður fréttaritari í Víetnam og á slíkum stöðum. Bretar voru oft og tíðum hrokafullir heimsvaldasinnar og það voru Bandaríkjamenn líka. Og ég man alltaf hversu mikið það kom mér á óvart þegar ég fór fyrst til Víetnam sem ungur maður, 24 ára, fyrir BBC, og komst að því að Bandaríkjamenn töluðu með óvirðingu um Víetnama. Þeir voru ekki að tala um óvininn. Þeir voru að tala um alla Víetnama. Og það vanvirðir menninguna líkt og við, Bretar, gerðum gagnvart Indverjum og Afríkumönnum fyrir einni til tveimur öldum. Nú er hins vegar að renna upp fyrir okkur að við höfum orðið mun minna vægi í heiminum. Bandaríkjamenn hafa hins vegar þennan löst að óvirða menningu, sem getur orðið utanríkisstefnu þeirra til mikils ógagns.“

Vilja heldur sína sagnfræði

– Hvernig hafa Bandaríkjamenn tekið skrifum þínum um Kúbudeiluna?

„Ég tel að Bandaríkjamenn hafi aldrei verið ýkja spenntir fyrir breskum höfundum sem hafa til að bera hrokann til að skrifa um mál úr fortíðinni sem þeir hafa alltaf litið svo á að væru bandarísk saga. Bókin hefur fengið góða dóma í Bandaríkjunum en almennt kunna Bandaríkjamenn ekki við að breskur höfundur sé að fjalla um málin. Það sama má segja um bók mína um Víetnam. Hún seldist mjög vel um heim allan, og gríðarlega vel í Bretlandi, en ekki vel í Bandaríkjunum. Það kemur mér þó ekki á óvart. Það er alveg eðlilegt að Bandaríkjamenn vilji heldur lesa bækur eftir sína eigin sagnfræðinga,“ segir Hastings.

Hann er næst spurður hvort það hafi verið raunveruleg hætta á kjarnorkustríði í Kúbudeilunni og er svar hans afdráttarlaust að svo hafi verið. Meðal annars hafi ögranir bandaríska sjóhersins við sovéska kafbáta búna kjarnavopnum verið mikill glannaskapur og bandarískir sagnfræðingar auðsýnt þröngsýni í umfjöllun um þá atburði.

Lán að hafa Kennedy

– Nú getum við gert upp Kúbudeiluna úr mikilli fjarlægð. Hvaða skoðun hefurðu á Kennedy forseta?

„Ég hef mikið álit á honum. Ég fékk mörg skilaboð frá bandarískum lesendum sem spurðu: „Hvernig geturðu skrifað svona vel um John F. Kennedy þegar hann kom svona illa fram við konur? Og ég svaraði að ég myndi aldrei verja skelfilega framkomu Kennedys gagnvart konum en bendi á að hún var alltof algeng í þá tíð. En ég er hræddur um að það hafi ekkert með að gera hvernig hann verður dæmdur sem forseti. Og ég dáist mikið að Kennedy. Ég held að hann hafi verið miklum gáfum gæddur og að heimurinn hafi verið lánsamur að hann var í Hvíta húsinu árið 1962,“ segir Hastings sem telur að hlutirnir hefðu getað farið á annan veg ef Lyndon B. Johnson, Richard Nixon eða Ronald Reagan hefðu verið í Hvíta húsinu og fengið sömu ráð frá hernum.

Sömuleiðis telur Hastings að ef annar forseti hefði verið í Hvíta húsinu árið 1950 en Harry S. Truman, þá hefði sá forseti hugsanlega beitt kjarnavopnum gegn Kínverjum undir forystu Maós.

„Bandaríkjaher ráðlagði forsetanum eindregið að fara í stríð, að hann ætti að gera innrás í Kúbu. Bandaríkjaher vissi ekki að Rússar hefðu komið fyrir taktískum og strategískum kjarnavopnum á Kúbu, vissu ekki að Rússar væru með 43.000 manna herlið á Kúbu. En ef Kennedy hefði farið að ráðum hersins, einróma ráðum bandaríska varnarmálaráðuneytisins, hefði hann farið í stríð. Og bandarísku hershöfðingjarnir álitu þetta einstakt tækifæri til að vinna sigur í eigin bakgarði yfir kommúnistum.“

Völd Bandaríkjanna minni

– Eru líkindi með Kúbudeilunni og núverandi spennu í alþjóðamálum? Stríð geisar í Úkraínu og Katar og Íran styðja Hamas. Og Kína fylgist með á hliðarlínunni.

„Ég tel að margt sé líkt. Hinn stórsnjalli sagnfræðingur Michael Howard, sem lést fyrir nokkrum árum, sagði iðulega að við notuðum orðið friður of oft og tíðum. „Það sem skiptir máli í heiminum er regla og stöðugleiki. Hvoru tveggja höfum við glatað,“ sagði hann. Og nú er vandamálið að óreiðan hefur aukist mikið í heiminum. Í kalda stríðinu mættust sovétblokkin og vesturveldin en nú eru völdin dreifð og það hefur dregið mikið úr getu stórvelda til að hafa stjórn á atburðum. Og áhrif Bandaríkjanna eru miklum mun minni en á dögum Kúbudeilunnar. Og ég tel að það sem við þurfum að óttast sé óreiðan og að svo mörg stórveldi takist nú á um yfirráðin á tilteknum svæðum. Og geta stjórnvalda í Moskvu og Washington til að hafa stjórn á þessum öflum, eða til þess að gera geta stjórnvalda í Teheran, er mjög takmörkuð. Því tel ég að fara þurfi einstaklega varlega enda eru hætturnar miklar. Og ég er uggandi. Tel að við stöndum frammi fyrir hættunni á fasisma í heiminum af því tagi sem flest okkar héldu að við myndum aldrei sjá,“ segir Hastings.

Úrkynjun á Vesturlöndum

Pútín er að hans mati hættulegri en Krústjoff. Pútín sé enda reiðubúinn að taka ótrúlega áhættu, hvort heldur í Georgíu eða Úkraínu. „Pútín er sannfærður um að hann og Rússland séu sterk og að við og Vesturlönd séum veik, að við séum úrkynjuð og að okkur megi toga til. Og þetta er mjög hættulegt ástand. Sumir herforingjar Bandaríkjanna virtust næstum sturlaðir í vilja sínum til að heyja stríð en árið 1962 voru afburðamenn í Hvíta húsinu. Og líka í Moskvu og það setti Krústjoff mörk að þurfa að standa frammi fyrir framkvæmdastjórn sovéska kommúnistaflokksins. Nú virðist Pútín ekki þurfa að standa neinum reikningsskil. Og hvort sem litið er til Washington, Bretlands, Frakklands, Þýskalands, eða hvert sem er, er ekki að sjá forystufólk af öflugasta tagi. Og á tímum þegar við þurfum gáfum gædda og næma forystumenn er ég hræddur um að við höfum þá ekki.“

– Er hætta á að þriðja heimsstyrjöldin brjótist út?

„Ég tel svo vera. Ég tel að hættan sé að svæðisbundin átök magnist upp í eitthvað stærra. Þess vegna endurtek ég það sem ég sagði að leiðtogar heims ættu að vera hræddir. Þeir ættu alltaf að vera það. Þeir ættu ekki eitt augnablik að gleyma hættunni sem getur fylgt því að bregðast á yfirdrifinn hátt við tiltekinni stöðu. Og ég er hræddur um að mér blöskri framferði Ísraelsstjórnar þessa dagana. Ekkert fær afsakað Hamas. Á hinn bóginn er framganga Ísraelshers á Gaza hræðileg. Og ég tel að Netanyahu sé mjög hættulegur maður. Að Pútín, Netanyahu og Modi, leiðtogi Indlands, séu allir hættulegir menn; þjóðernissinnar sem eru reiðubúnir að fara á ystu nöf. Og þetta er ótrúlega hættulegt. Og það merkilega við John F. Kennedy er að hann gleymdi aldrei eitt augnablik þvílík hætta var á heimsstríði. Hins vegar tel ég að leiðtogarnir sem ég gat um, menn eins og Modi, Xi Jinping í Kína, Pútín forseti eða Trump, ef út í það er farið, óttist ekki nærri nógu mikið hugsanlegar afleiðingar gjörða sinna,“ segir Hastings.

Innflytjendamál efst á baugi

Við ræðum svo að lokum stöðuna hjá breska Íhaldsflokknum en Hastings er afar ósáttur við stefnuna sem flokkurinn hefur tekið. Harðlínumenn til hægri hafi tekið völdin. Það sé ólíklegt en hugsanlegt „að sá hræðilegi maður“ Nigel Farage verði leiðtogi Íhaldsmanna.

Innflytjendamálin verði ráðandi næstu ár. Hann taki undir með sagnfræðingnum Michael Howard að miklir fólksflutningar frá suðri til norðurs, sem nú séu að hefjast, séu þýðingarmestu fólksflutningar sögunnar frá frumkristni. Það verði aftur vatn á myllu hægriafla. Þótt áhyggjuefnin séu mörg unir Hastings sáttur við sitt. „Og þótt ég hafi gaman af veiðum vil ég ekki alltaf vera að veiða. Og ég er alsæll hér með konunni minni og hundunum okkar. Ég einfaldlega skrifa,“ segir Hastings. Klukkan er hálftíu og önnur verkefni dagsins bíða.