Jónína Guðmundsdóttir forstjóri Coripharma segir að á næstunni megi vænta fleiri risastórra lyfjasendinga frá félaginu inn á Evrópumarkað.
Jónína Guðmundsdóttir forstjóri Coripharma segir að á næstunni megi vænta fleiri risastórra lyfjasendinga frá félaginu inn á Evrópumarkað. — Morgunblaðið/Hákon
Íslenski lyfjaframleiðandinn Coripharma sendi í lok síðustu viku átta 40 feta gáma af sýklalyfjum til kaupanda í Bretlandi. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að um hafi verið að ræða stærsta einstaka farminn í sögu Coripharma en verðmæti sendingarinnar var um 164 m.kr

Íslenski lyfjaframleiðandinn Coripharma sendi í lok síðustu viku átta 40 feta gáma af sýklalyfjum til kaupanda í Bretlandi. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að um hafi verið að ræða stærsta einstaka farminn í sögu Coripharma en verðmæti sendingarinnar var um 164 m.kr. Sendingin samanstóð af tíu milljónum hylkja af sýklalyfinu Lymecycline sem framleitt er í verksmiðju Coripharma í Hafnarfirði. Lymecycline hefur verið í verktökuframleiðslu hjá Coripharma frá árinu 2021 og er markaðssett í Bretlandi af stóru bresku lyfjafyrirtæki.

Með sendingunni varð desember söluhæsti mánuður Coripharma frá upphafi og um leið náði fyrirtækið því markmiði að tvöfalda tekjur sínar á milli ára. Á næsta ári stefnir Coripharma að því að vera komið með sex af sínum eigin lyfjum á markað. Lyfin sem um ræðir voru þróuð á Íslandi og eru alfarið framleidd innanlands. ai@mbl.is