Grindavík Halda mátti jólin heima.
Grindavík Halda mátti jólin heima. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Nei, ég hef hana í sjálfu sér ekki. Það var ekki beinlínis vakt á svæðinu önnur en sú að lögreglan fylgdist bara með, en það var ekki þannig séð held ég talið í húsum.“ Þetta segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, spurður hve…

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Nei, ég hef hana í sjálfu sér ekki. Það var ekki beinlínis vakt á svæðinu önnur en sú að lögreglan fylgdist bara með, en það var ekki þannig séð held ég talið í húsum.“

Þetta segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, spurður hve margir Grindvíkingar hafi haldið jólin heima hjá sér, eftir að lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákvað að leyfa íbúum að dvelja í Grindavík allan sólarhringinn frá og með Þorláksmessu. Bætir Fannar við að þó hafi verið áætlað að á aðfangadag hafi fólk verið í um 50-60 húsum í bænum.

„En svo vitum við auðvitað ekki alveg hversu margir gistu þarna um nóttina,“ segir hann. Næsta skref sé að endurmeta stöðuna sem uppi er svo hægt sé að ákveða framhaldið.

„Það er gert ráð fyrir því að staðan verði tekin núna á milli jóla og nýárs og þá verður bara eftir atvikum gefin út ný tilkynning frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum um framhaldið,“ segir hann en tekur fram að þó sé ákveðin óvissa enn uppi, sérstaklega í ljósi landrissins sem nú mælist við Svartsengi.

Áttu notaleg jól þrátt fyrir allt

„Á meðan svo er þá er beðið átekta um það hvað það varir lengi og þess vegna er nú ekki hægt að gera ráðstafanir svona langt fram í tímann.“

Sjálf voru Fannar og eiginkona hans að heiman um jólin, líkt og margir aðrir Grindvíkingar, en inntur eftir því hvort hann hafi náð að kúpla sig út úr amstri dagsins og eiga náðuga hátíð með fjölskyldunni, þrátt fyrir allt álagið síðustu vikur og mánuði, segir hann svo vera.

„Við hjónin vorum hjá dóttur okkar og það væsti ekkert um okkur. Sama verður um áramótin, þá verðum við hjá hinni dóttur okkar en þær búa báðar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hann.

„Það var bara mjög notalegt og jólalegt hjá okkur og vonandi var svo líka hjá sem flestum Grindvíkingum,“ bætir bæjarstjórinn við að lokum.