Árni Oddur Þórðarson lét af störfum sem forstjóri Marels eftir að hafa gegnt starfinu í tíu ár.
Árni Oddur Þórðarson lét af störfum sem forstjóri Marels eftir að hafa gegnt starfinu í tíu ár. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Árni Oddur Þórðarson lét óvænt af störfum sem forstjóri Marels í byrjun nóvember sl. Sama dag var greint frá því að Arion banki hefði leyst til sín 5% hlut Árna Odds í fjárfestingarfélaginu Eyri Invest, sem er stærsti hluthafi Marels, eftir að hafa framkvæmt veðkall

Árni Oddur Þórðarson lét óvænt af störfum sem forstjóri Marels í byrjun nóvember sl. Sama dag var greint frá því að Arion banki hefði leyst til sín 5% hlut Árna Odds í fjárfestingarfélaginu Eyri Invest, sem er stærsti hluthafi Marels, eftir að hafa framkvæmt veðkall. Þá leysti Arion jafnframt til sín 4,4% hlut Þórðar Magnússonar (föður Árna Odds) í Eyri í tengslum við veðkallið. Landsbankinn gerði einnig veðkall í rúmlega eins prósents hlut Árna Odds í Eyri í gegnum eignarhaldsfélag hans eftir að það uppfyllti ekki lengur skilmála í lánasamningi við bankann. Árni Oddur óskaði í kjölfar þessa eftir greiðslustöðvun sem er enn í gildi nú í lok árs.

Vandræði Marels eiga sér þó lengri aðdraganda. Gengi bréfa í félaginu hefur lækkað umtalsvert en óhætt er að segja að uppgjör félagsins á þessu ári og því síðasta hafi valdið fjárfestum miklum vonbrigðum. Í byrjun nóvember, þegar Árni Oddur sagði upp störfum, hafði gengi félagsins lækkað um tæp 28% frá áramótum en tæp 60% frá því í byrjun árs 2022. Markaðsvirði félagsins hafði þá lækkað um tæpan hálfan milljarð króna.

Morgunblaðið greindi frá því undir lok október að erlendir aðilar hefðu þreifað fyrir sér um fjárfestingu í Marel með það fyrir augum að eignast meirihluta í félaginu – eða félagið í heild sinni. Bandaríska félagið John Bean Technologies Corporation (JBT) lagði fram yfirtökutilboð í lok nóvember sl., sem stjórn Marels hafnaði. JBT lagði fram uppfært yfirtökutilboð um miðjan desember, sem stjórn Marels hefur ekki tekið afstöðu til þegar þetta er skrifað.

Frá því að Árni Oddur lét af störfum hefur gengi bréfa í Marel hækkað um rúm 27% samhliða því sem yfirtökutilboðin hafa komið fram.