Icelandair semur við Airbus Icelandair undirritaði í byrjun apríl viljayfirlýsingu um kaup á 13 flugvélum af gerðinni Airbus A321XLR og kauprétt að 12 flugvélum til viðbótar frá Airbus. Flugvélarnar verða afhentar frá og með árinu 2029

Icelandair semur við Airbus

Icelandair undirritaði í byrjun apríl viljayfirlýsingu um kaup á 13 flugvélum af gerðinni Airbus A321XLR og kauprétt að 12 flugvélum til viðbótar frá Airbus. Flugvélarnar verða afhentar frá og með árinu 2029. Icelandair gerir þó ráð fyrir að hefja rekstur á Airbus-vélum strax á árinu 2025 með leigusamningi að fjórum A321LR-vélum. Ætla má að Icelandair fái ríflegan afslátt af vélunum, þar sem um er að ræða fyrstu kaup félagsins á Airbus-vélum. Þrátt fyrir það er ljóst að hér er um að ræða einn stærsta fjárfestingarsamning sem íslenskt fyrirtæki hefur gert. Airbus-vélarnar munu leysa af hólmi Boeing 757-vélar félagsins sem verið hafa í flota Icelandair í rúm 30 ár.

Íslandsbanki gerir sátt við FME

Greint var frá því í byrjun árs að Íslandsbanki hefði óskað eftir því að gera sátt við Fjármálaeftirlit Seðlabankans (FME) í kjölfar rannsóknar á starfsemi bankans við sölu á 22,5% hlut ríkisins í bankanum í mars 2022. Tæpu hálfu ári síðar, eða í lok júní, var sáttin birt og bankanum gert að greiða 1,2 milljarða króna í sekt. Að mati eftirlitsins voru veikleikar í innra eftirlitskerfi bankans, símtöl við viðskiptavini voru ekki hljóðrituð og háttsemin til þess fallin að hafa skaðleg áhrif á traust og trúverðugleika fjármálamarkaða. Þá er sérstaklega fjallað um viðskipti starfsmanna bankans í útboðinu og skort á regluverki og eftirliti í kringum þau viðskipti auk þess sem greint er frá því að viðskiptavinum hafi verið veittar villandi upplýsingar. Morgunblaðið greindi frá því að það hefði verið mat stjórnar og stjórnenda bankans að taka ætti sáttartilboði FME og greiða sektina í stað þess að sæta stjórnvaldssekt sem að öllum líkindum yrði mun hærri og fara í gegnum ferli sem tæki í það minnsta 2-3 ár fyrir dómstólum.

Hvað sem því líður þá vakti málið mikla reiði víða í samfélaginu. Stjórnmálamenn létu í sér heyra og Bankasýsla ríkisins, sem fram til þessa hafði sætt mestu gagnrýninni vegna sölunnar í bankanum, lýsti yfir vonbrigðum með starfshætti bankans. Birna Einarsdóttir lét af störfum sem bankastjóri í lok júní en auk þess var samið um starfslok við tvo stjórnendur bankans. Í lok júlí fór fram hluthafafundur í bankanum þar sem skipt var um meirihluta stjórnar. Linda Jónsdóttir tók við sem stjórnarformaður af Finni Árnasyni sem gaf ekki kost á sér.

Síðar um haustið sagði Bjarni Benediktsson af sér sem fjármálaráðherra eftir að umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði skort hæfi til að bera ábyrgð á sölu ríkisins í bankanum.

Stærsta sekt Íslandssögunnar

Eftir 13 ára rannsókn lagði Samkeppniseftirlitið (SKE) 4,2 milljarða króna sekt á Samskip fyrir meint samráð. Þetta er stærsta sekt sem nokkurt fyrirtæki hefur fengið hér á landi. Hæsta sektin fram til þessa, um 1,5 milljarðar króna, var sekt Eimskips vegna meintra brota í sama máli. Sú sekt var lögð á eftir að Eimskip, sem þá var komið undir stjórn nýrra eigenda, játaði á sig brot og féllst á að greiða fyrrnefnda sekt eftir að hafa náð sátt við SKE í júní 2021. Samhliða því sem SKE lagði sektina á Samskip birti eftirlitið ákvörðun sína og annað ítarefni á vefsíðu sinni. Sú ákvörðun var birt í 15 bindum, á mörg þúsund blaðsíðum. Samskip hefur mótmælt sektinni og er málið nú til meðferðar hjá áfrýjunarnefnd samkeppnismála.

Samrunar og ekki samrunar

Loks ber að nefna að Kvika og Íslandsbanki hófu á árinu samrunaviðræður sem runnu út í sandinn um mitt sumar. Þá gerði Reginn yfirtökutilboð í Eik, gegn vilja stærsta hluthafa Eikar, en enn á eftir að koma í ljós hvort af þeirri yfirtöku verður. Aftur á móti gengu Fossar og VÍS í eina sæng á árinu.