Vettvangur Ástand í Eldey er umhugsunarvert, þar sem súlan verpir í tugþúsundavís og gerir sér hreiður úr veiðarfæradrasli, segir Dagur Jónsson.
Vettvangur Ástand í Eldey er umhugsunarvert, þar sem súlan verpir í tugþúsundavís og gerir sér hreiður úr veiðarfæradrasli, segir Dagur Jónsson. — LjósmyndDagur Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leiðangur út í Eldey nýverið er eitt af mörgum og fjölbreyttum verkefnum sem Dagur Jónsson landvörður, sem starfar hjá Umhverfisstofnun, hefur sinnt að undanförnu. Ekki er ofsagt að Eldey sé sveipuð ákveðinni dulúð hvar hún gnæfir þverhníp og foldgná út af Reykjanestá

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Leiðangur út í Eldey nýverið er eitt af mörgum og fjölbreyttum verkefnum sem Dagur Jónsson landvörður, sem starfar hjá Umhverfisstofnun, hefur sinnt að undanförnu. Ekki er ofsagt að Eldey sé sveipuð ákveðinni dulúð hvar hún gnæfir þverhníp og foldgná út af Reykjanestá. Eyjan var friðuð 1940 og friðlýst árið 1973 og ferðir þangað eru háðar leyfum og skilyrðum Umhverfisstofnunar. Sérhver ferð á svæðið verður því fréttaefni.

„Ferðin nú í desember verður minnisstæð öllum sem þátt tóku. Upphaflega stóð til að fara út í eyju laugardaginn 9. desember. Allt var þetta þó háð því að þyrluflugmenn Landhelgisgæslunnar teldu flugfært frá Reykjanesvita. Þaðan og út í hið tilkomumikla útsker eru um það bil 15 kílómetrar,“ segir Dagur.

„Tilraunin þennan umrædda laugardag gekk ekki upp og því var sætt lags næsta dag. Þá gekk allt upp, en þyrlumenn sögðu okkur reyndar þá að þeir gætu ekkert sagt til um hvenær við yrðum sóttir. Þau skilaboð réðu því að nokkrir af þeim náttúruvísindamönnum sem ætluðu í þennan leiðangur hættu við. Aðrir létu sér þó hvergi bregða og með það fórum við í flug.“

Eyjan er á kafi í skít

Eldeyjarfarar auk Dags voru starfsmenn Veðurstofunnar Benedikt Gunnar Ófeigsson jarðfræðingur og Pálmi Erlendsson og Baldur Bergsson sem eru sérfræðingar í mælarekstri. Sérstök þörf var á aðkomu þeirra því þeir settu upp í eyjunni GPS-tæki, jarðskjálftamæli og ýmsan annan búnað sem vaktar stöðuna í rauntíma og sendir upplýsingar.

„Nú er ég búinn að fara tvö ár í röð út í Eldey og báðar ferðirnar hafa verið mjög áhugaverðar. Ástandið á svæðinu er þó mjög umhugsunarvert. Súlan sem þarna verpir í tugþúsundavís hefur gert sér hreiður úr veiðarfæra- og netadræsum, kaðalspottum og plastdrasli sem hún hirðir úr sjónum. Svo bætist við dritið svo eyjan er á kafi í skít. Nei, það er ekki hægt að hreinsa eyjuna, enda væri nánast útilokað að koma draslinu burt. Eina sem raunverulega dugar er að sjómenn taki sig myndarlega á og sjái til þess að rusl frá þeim lendi ekki í hafinu.“

Umbrotin eru aðdráttarafl

Í eldgosum á Reykjanesskaganum hefur Dagur Jónsson staðið vaktina sem landvörður á vegum Umhverfisstofnunar. Hefur einnig mikið verið á vaktinni við Gullfoss, Geysi og Kerlingarfjöll, en einmitt nú aðstæðna vegna þarf að fylgjast vel með suður með sjó. Umbrot síðustu ára hafa verið mikið aðdráttarafl og þúsundir hafa lagt á sig miklar göngur til að sjá höfuðskepnur í ham. Svo fólk fari sér ekki að voða hefur björgunarsveitafólk verið á svæðinu en einnig landverðir.

„Eldgosum hafa fylgt fjölbreytt verkefni og þannig eru störf landvarða raunar alla daga. Mörgu er að sinna, en kjarni starfa landvarða á gossvæði er fyrirbyggjandi fræðsla, að fylgjast með því að farið sé að náttúruverndarlögum, eftirlit og minni háttar viðhaldsverkefni. Einnig höfum við sinnt slysum. Oftast eru þau smávægileg svo plástur dugar en þegar fólk beinbrotnar þá þarf að kalla til aðrar bjargir,“ segir Dagur sem er einn liðsmanna Björgunarsveitar Hafnarfjarðar. Hann hefur því jafnhliða landvörslunni oft verið á Reykjanesskaganum sem björgunarsveitarmaður. Í því sambandi minnist hann meðal annars 10. nóvember sl. þegar almannavarnir tóku ákvörðun um að rýma Grindavíkurbæ.

„Dagana á undan fann maður vel að eitthvað gæti verið í aðsigi. Hins vegar var maður, eftir þrjú eldgos, að nokkru orðinn ónæmur fyrir jarðskjálftum og öllum umbrotum. Þó var óvenjulegt þarna 10. nóvember að bæði voru skjálftarnir margir og einnig var eins og þeir kæmu beint upp úr jörðinni og stundum var þetta eins og sparkað væri undir iljar manns.“

Öryggi ferðamanna tryggt

Í stóra samhenginu segir Dagur að vel hafi tekist til við að tryggja öryggi þeirra sem lagt hafa leið sína á þær slóðir þar sem jörðin kraumar. Lögregla, björgunarsveitir og landverðir hafi þar verið í góðu samstarfi. Sérstaklega verði að halda til haga því starfi sem Hjálmar Hallgrímsson og Sigurður Bergmann, lögregluþjónar í Grindavík, hafa sinnt. Sama hvað gerist; útköll byrji og endi alltaf hjá þeim þótt margir komi vissulega að málum.

„Eldgosin á Suðurnesjum síðustu ár, sem jafnvel gætu orðið fleiri að því er jarðvísindamenn hafa greint frá, reyna á alla. Þessir atburðir hafa líka verið heilmikill skóli fyrir okkur sem sinnt höfum gæslu og eftirliti á svæðinu,“ segir Dagur Jónsson um verkefnin og margvíslegan lærdóm sem af þeim hefur mátt draga.

„Í fyrsta gosinu sem hófst í mars 2021 voru veðurviðvaranir margar og fjöldi fyrirtækja var að selja ferðir inn á svæðið. Þarna var fólk sem fæst var útbúið til fjallgöngu, hvað þá að vetri til að leggja í mjög krefjandi aðstæður. Sumir fararstjórar voru jafnframt mjög reynslulitlir og ekki með neinn búnað til að bregðast við óhöppum. Við landverðir reyndum þó að sjá til þess að allir hefðu skilað sér af fjalli áður en við fórum af svæðinu á kvöldin. Létum fólk jafnframt vita hvert veðurútlit væri og hvenær myrkur færðist yfir. Þetta bjargaði efalaust einhverju. Ég hef verið í björgunarsveit lengi og reynt ýmislegt sem ég gat þarna byggt á. Margt sem viðbragðsliðar takast á við mótar það fólk til framtíðar, reynslan getur styrkt, beygt og brotið.“

Hver er hann?

  • Dagur Jónsson er fæddur árið 1968, er prentsmiður að mennt og starfaði sem slíkur í meira en 30 ár. Hóf störf hjá Umhverfisstofnun árið 2020 og hefur sinnt landvörslu, meðal annars á Reykjanesskaganum, í uppsveitum Árnessýslu og á sunnanverðum Vestfjörðum.