Ásdís Guðný Ragnarsdóttir fæddist 1. febrúar 1945 í Vestmannaeyjum. Hún lést á dvalarheimilinu Grund 13. desember 2023. Útför fór fram 22. desember 2023.

Dísu kynntist ég sem unglingur en við Ragnar Þorri sonur hennar erum æskuvinir.

Við félagarnir vorum heimagangar hjá fjölskyldunni í Bólstaðarhlíðinni á þessum árum og minnist ég margra góðra stunda þaðan, m.a. við spilamennsku og spjall um þjóðmálin. Við spiluðum m.a. bridge saman. Hún var einstaklega bóngóð og þolinmóð við okkur samhliða því að virkja okkur unglingana með sér í tiltekt á föstudögum sem hún svo verðlaunaði með einhverju góðu að borða og jafnvel smá vasapening. Fyrir utan að vera alltaf til í að lána okkur Grænu hættuna, trabantinn sinn sem margar epískar ferðir voru farnar á. Og seinna meir skódann sem flestir náðu að tjóna eitthvað.

Dísa var frábær fyrirmynd, einstæð fór hún í nám í félagsfræði í HÍ með þrjú börn á heimilinu, tók þátt í félagsstörfum, t.d. í HÍ. Hún var mikill friðarsinni, róttækur vinstri femínisti og rík af réttlætiskennd. Þegar Dísa var í doktorsnámi sínu í félagsfræði í London heimsótti ég hana en heimili hennar stóð alltaf opið fyrir gestum, þar var gaman að kynnast fjölbreyttum vinahóp sem var í kringum hana.

Dísa starfaði við bókhald í fjölmörg ár áður en hún nam félagsfræði. Það var því mjög ánægjulegt þegar hún sótti um starf hjá Félagi bókagerðarmanna við bókhald félagsins því hennar þekking, reynsla í félagsmálum og brennandi áhugi fyrir verkalýðsmálum kom sér vel í starfi sem hún gegndi í tæplega sex ár áður en hún fór á eftirlaun.

Við Linda og strákarnir okkar kveðjum kæra vinkonu sem var ríkur partur af lífi okkar og þökkum fyrir góða samveru í gegnum tíðina hvort sem það var spjall á Laugaveginum eða í skemmtilegu matarboðunum og þökkum fyrir allt sem Dísa hefur gefið af sér í gegnum árin en það var hennar aðalsmerki að hugsa vel um alla sína nánustu og vera vinur vina sinna.

F.h. stjórnar GRAFÍU sendi ég innilegar samúðarkveðjur til Ragnars Þorra, Þórdísar Eyvarar og Jóns Rafns og fjölskyldu Dísu.

Georg Páll Skúlason, formaður GRAFÍU.