Jón Pétur Zimsen
Jón Pétur Zimsen
„Það virðist vera að hluti þeirra sem stjórna hafi ekki áhuga á að skólarnir fái niðurstöðurnar,“ segir Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla spurður hvers vegna niðurstöðurnar úr PISA-könnuninni hafi ekki verið birtar

„Það virðist vera að hluti þeirra sem stjórna hafi ekki áhuga á að skólarnir fái niðurstöðurnar,“ segir Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla spurður hvers vegna niðurstöðurnar úr PISA-könnuninni hafi ekki verið birtar.

„Menntamálastofnun veit ekki hvað hún ætlar að gera við upplýsingarnar,“ segir hann um niðurstöðurnar. „Hún hefur sent þetta til sveitarfélaga og líka til landshluta.“

Hann segir jafnræði ekki ríkja, fái bara landshlutarnir og sveitarfélög niðurstöðurnar. Nefnir hann sem dæmi að þegar sveitarfélag eins og til dæmis Grindavíkurbær, þar sem einn skóli er, fái niðurstöður úr könnuninni liggi í augum uppi hvernig frammistaðan er hjá nemendum skólans.

Jón Pétur bendir á að árið 2012 hafi Menntamálastofnun að eigin frumkvæði sent skólunum niðurstöðurnar. „Árið 2015 fékk ég það í gegn að þau tóku saman upplýsingarnar og skólar þurftu að sækja upplýsingarnar og fengu þær svo ekki 2018.“

Spurður hvað hafi breyst á þessum stutta tíma kveðst Jón Pétur ekki geta svarað því hvað hafi leitt til þessarar kúvendingar.

Jón Pétur segist ekki hafa áhuga á að raða skólum upp eftir frammistöðu nemenda. „Ég myndi vilja sjá þetta fyrir krakkana okkar og starfsmennina okkar.“ Hann segir prófið verða merkingarbærara fyrir nemendur ef þeir vita að skólarnir fái niðurstöðurnar.

„Ef krakkarnir sjá núna ekki tilgang með að taka prófið, þá er þarna komin dúndurgóð ástæða til að taka prófið.“ karifreyr@mbl.is