Náttúruvá Komi til enn annars goss getur það staðið lengur yfir en síðast.
Náttúruvá Komi til enn annars goss getur það staðið lengur yfir en síðast. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þróun landriss við Svartsengi síðustu daga svipar til þróunarinnar dagana fyrir eldgosið 18. desember. Á jóladag hafði landris náð sömu hæð og það hafði gert dagana 11.-12. desember, eða sex til sjö dögum áður en gos braust út þann 18

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

sviðsljós

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

Þróun landriss við Svartsengi síðustu daga svipar til þróunarinnar dagana fyrir eldgosið 18. desember. Á jóladag hafði landris náð sömu hæð og það hafði gert dagana 11.-12. desember, eða sex til sjö dögum áður en gos braust út þann 18. desember.

„Hraðinn á þessu virðist vera svipaður og fyrir 18. desember,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.

„Það má alveg búast við því að þegar það er búið að ná svipaðri hæð, og þegar það hægir aðeins á því og fer að fletjast út, verðum við komin inn á tímapunktinn þar sem við megum búast við því að eitthvað fari að gerast.“

Landris þarf ekki að ná hærra

Spurður hvort búast megi því við eldgosi um áramótin segir Þorvaldur það ekki þurfa að vera.

„Við vitum ekki hvort það verður gos, það gæti vel verið að það verði landsig og kvikan fari út úr hólfinu. Hvort hún nær upp á yfirborð vitum við ekki.“ Hann segir að gangainnskot gæti orðið, eða að þessu gæti lokið með svipuðu gosi og síðast á svipuðum slóðum. „Mér finnst það líklegast,“ segir Þorvaldur. „Þetta gæti orðið í fyrstu vikunni í janúar.“

Aðspurður segir Þorvaldur landrisið ekki endilega þurfa að ná hærra en fyrir síðasta gos. „Það gæti hugsanlega verið minna, vegna þess að það er búið að brjóta þetta þannig að það er ekki eins mikil spenna sem heldur.“

Þorvald grunar að landrisið verði svipað og síðast og nefnir Kröfluelda sem dæmi. „Reynslan með Kröflu var þannig að þegar þú varst kominn með svipaða hæð og í síðasta atburði, þá gerðist eitthvað.“ Þá hafi verið kominn sami þrýstingur og hægt að nota landrisið þar til að spá nokkurn veginn fyrir um næsta atburð.

„Ég fullyrði það að það sé,“ segir Þorvaldur spurður aftur hvort hann telji tengingu á miklu dýpi á milli Svartsengis og Fagradalsfjalls, eins og Morgunblaðið greindi frá í síðustu viku.

Býst við svipuðu gosi

„Vegna þess að kvikan sem kom upp í Fagradalsfjallseldum er sérstök. Hún er öðruvísi en sú kvika sem hefur gosið áður á Reykjanesskaganum, af því sem við höfum gögn um.“ Hann segir kvikuna sem kom upp í Svartsengi þróaðri, lægri í magnesíum og hærri í kalí en sú sem kom upp við Fagradalsfjall. „En hún hefur sömu hlutföll af þeim efnum sem vilja leita í kvikuna. Hún hefur sömu gen og kvikan sem kom upp við Fagradalsfjall.“

„Hún sat aðeins í einhvern tíma á minna dýpi í þessu hólfi, sem dældist svo 18. desember, og þar náði hún að kristalla sig og létta sig og kom þess vegna upp á endanum. Þetta er kvika sem kemur úr þessu dýpra geymsluhólfi sem kvikan í Fagradalsfjallseldum kom úr, sem situr þarna á 10 til 15 kílómetra dýpi.“ Hann segir helsta muninn á þessu tvennu vera að kvikan í Svartsengi stöðvaðist til viðbótar á 4 til 5 kílómetra dýpi.

Spurður hvort líkur séu á stærra eða minna gosi segist Þorvaldur búast við svipuðu gosi. „Ef allt gengur eftir þá verður það svipað. Kannski ekki eins öflugt í byrjun og gæti þá staðið aðeins lengur.“ Í stað þess að það vari í þrjá til fjóra daga geti það varað í viku eða tíu daga.

Rís á svipuðum hraða

Nýársgos ekki útilokað

„Þetta lítur mjög svipað út. Ég held að þetta sé alveg hárrétt. Þetta er bara endurtekning á merkinu síðan fyrir 18. desember.“ Þetta segir Benedikt G. Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, spurður hvort þróun landriss síðustu daga líkist þróuninni í aðdraganda gossins 18. desember.

„Það er ekkert útilokað, það getur alveg orðið,“ segir Benedikt spurður hvort búast megi við nýársgosi. Það sé erfitt að segja til um tímasetninguna enda ekki víst að þróunin verði nákvæmlega eins og í aðdraganda síðasta goss. Benedikt segir hraðann vera mjög svipaðan og fyrir 18. desember. „Það er hættulegt að álykta að við getum verið róleg þangað til þetta er komið í sömu hæð og síðast, þetta gæti komið fyrr.“

Höf.: Kári Freyr Kristinsson