Samgöngustofa hefur hafið herferð á samfélagsmiðlum til að vekja athygli á umferðaröryggi. „Vinnur þú allt fyrir áramóta Karaoke partyið? Kíktu á síðasta póstinn okkar til að sjá hvernig þú getur átt möguleika á að vinna þennan pakka í boði…

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Samgöngustofa hefur hafið herferð á samfélagsmiðlum til að vekja athygli á umferðaröryggi.

„Vinnur þú allt fyrir áramóta Karaoke partyið? Kíktu á síðasta póstinn okkar til að sjá hvernig þú getur átt möguleika á að vinna þennan pakka í boði KFC,“ segir í kostaðri færslu Samgöngustofu á Instagram, sem einnig birtist á Facebook.

Um er að ræða gjafaleik þar sem hægt er að vinna vinninga eins og hátalara og út að borða í boði skyndibitakeðjunnar KFC. Deilir stofnunin myndböndum með fróðleik um umferðina og til þess að komast í gjafapottinn þarf viðkomandi að fylgja Samgöngustofu á Instagram, merkja vin í athugasemd og að læka myndbandið sem stofnunin birti. Samgöngustofa gefur sem sagt vinninga gegn því að fleiri fylgi henni á samfélagsmiðlum.

„Með því að fjölga fylgjendum okkar, Samgöngustofu, á samfélagsmiðlum þá náum við náttúrulega til fleiri. Við erum ekki að selja neitt,“ segir Þórhildur Elín Elínardóttir upplýsingafulltrúi Samgöngustofu í samtali við Morgunblaðið. „Við erum í rauninni bara að sinna því hlutverki sem við höfum sem er meðal annars að sinna fræðslu um samgönguöryggi. Þetta er eitt af okkar lögbundnu hlutverkum.“

Hún segir að þetta sé fyrst og fremst gert til að fræða ungt fólk um umferðaröryggi. Gjafirnar séu aukinn hvati til að fá fólk til að taka þátt.

„Við viljum auðvitað beita öllum þeim meðölum sem duga til þess að vekja þetta unga fólk til meðvitundar um mikilvægi þess að fara varlega. Bæði þegar þú ert að aka bíl og svo þegar þú ert á rafhlaupahjóli og annað slíkt, sem við höfum tekið eftir og sjáum á slysatölum að er mikil áskorun,“ segir Elín.

Varðandi það hvernig KFC komst í samstarf við Samgöngustofu kveðst hún ekki vita nákvæmlega hvernig af því varð. Hún segir stofnunina hafa haft samband við ýmsa aðila sem höfða til ungs fólks.