Inga Tinna Sigurðardóttir segir að smæð íslenska markaðarins feli í sér ýmsa kosti þegar kemur að þróun hugbúnaðar.
Inga Tinna Sigurðardóttir segir að smæð íslenska markaðarins feli í sér ýmsa kosti þegar kemur að þróun hugbúnaðar.
Mikill uppgangur hefur verið hjá fyrirtækjum Ingu Tinnu að undanförnu. Árið 2022 skilaði Dineout 58 m.kr. hagnaði af 180 m.kr. veltu og stefnir í að veltan rjúfi 300 milljóna króna múrinn á þessu ári, en í mánuði hverjum setjast um 700.000 manns til borðs í gegnum hugbúnaðarlausnir Dineout

Mikill uppgangur hefur verið hjá fyrirtækjum Ingu Tinnu að undanförnu. Árið 2022 skilaði Dineout 58 m.kr. hagnaði af 180 m.kr. veltu og stefnir í að veltan rjúfi 300 milljóna króna múrinn á þessu ári, en í mánuði hverjum setjast um 700.000 manns til borðs í gegnum hugbúnaðarlausnir Dineout. Allar bókanir koma í gegnum lausnina og helmingur fólks bókar í dag í gegnum dineout.is en á sama tíma í fyrra var það hlutfall um 15%. Það er því orðið mikilvægt fyrir veitingastaði að vera sýnilegir á markaðstorginu. Afsláttarappið Icelandic Coupons hefur einnig slegið í gegn, einkum meðal ferðamanna, og státar í dag af yfir 100.000 virkum notendum en félögin tvö hafa verið sameinuð.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Þegar vöxturinn er mikill og tækifærin mörg þarf að passa að huga að fókus og það höfum við gert vel. Við höfum þróað allar okkar lausnir með það að leiðarljósi að þjónusta veitingageirann og tengja hann við almenning. Þar sem við störfum sem hugbúnaðarhús höfum við oft verið beðin um að þróa alls konar spennandi lausnir fyrir stór fyrirtæki en eins freistandi og það stundum er, erum við óhrædd við að neita því ef það þjónar ekki framtíðarsýn okkar og markmiðum.

Við höfum nú þegar þróað níu lausnir frá grunni og erum því nánast að vinna eins og um mörg fyrirtæki væri að ræða. Allar lausnir tala þó saman í einu bakendakerfi sem gerir lausnir Dineout einstakar. Við höfum þróað allar okkar lausnir eftir þörfum þeirra sem þær nota og því má segja að velgengnin byggist meðal annars á því ásamt landsliðinu í forritun, sölu og þjónustu.

Við erum að sækja á erlenda markaði núna og í því felast ótal áskoranir. Það þarf að passa að stækka hratt en ekki of hratt á of skömmum tíma. Það þarf allt að spila saman. Það er mikill áhugi hjá fjárfestum á að fá að fjárfesta í ört vaxandi félaginu og við erum að opna á þann möguleika núna. Það er ýmislegt sem spilar inn í valið þar.

Hver var síðasti fyrirlesturinn sem þú sóttir?

Ég tók þéttan ráðstefnupakka hjá Tony Robbins sem var frábær! Ég geri mikið af því að hlusta á ýmsa gárunga og hlusta alltaf u.þ.b. klukkustund á dag á uppbyggjandi andlega fyrirlestra. Þar má t.d. nefna Joe Dispenza, Wayne Dyer, Sadhguru, Brené Brown og Matthew Walker ásamt fleirum. Mér finnst líka gaman að hlusta á Lewis Howes en hann fær marga góða í viðtöl til sín.

Hugsarðu vel um líkamann?

Fyrir mér er líkamleg og andleg heilsa algjör grundvöllur gæða hugsana minna og framkvæmda. Ég fæ mínar bestu hugmyndir í ræktinni og ég hef reynt að útskýra hvað gerist en í stuttu máli finnst mér eins og rofi til í höfðinu þegar ég er að æfa. Hugsanir og verkefni sem ég er að fást við fá oftar en ekki úrlausnir í World Class Laugum.

Mataræðið skiptir líka gríðarlega miklu máli og ég vel mér almennt mjög holla og næringarríka fæðu. Góðan morgunmat, salat í hádeginu með avókadó, eggjum, kúskús og fleiru ásamt góðum ávexti í millimál og svo næringarríkan kvöldmat. Ég elska ís og leyfi mér það ef ég ætla að gera vel við mig.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Það er gríðarlegur kostur að þróa hugbúnað á Íslandi en kostirnir hafa margar birtingarmyndir. Markaðurinn, í krafti smæðar sinnar, er fljótur að bregðast við. Veitingageirinn, sem er sú grein sem ég er mest að fókusa á, er frábær hérlendis þegar kemur að því að hjálpast að. Við höfum fengið nokkra reynslubolta úr geiranum sem hafa haft sitt að segja í þróun okkar lausna, því mikilvægt er að lausnirnar séu notaðar. Til þess að svo sé þarf að hlúa að þeim þörfum sem nauðsynlegar eru fyrir notendur.

Styrkjaumhverfið verður sífellt betra og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, er að beita sér vel og farsællega í stuðningi við fyrirtæki í nýsköpun. Ég finn mikinn mun á því sl. þrjú ár.

Ég gæti alveg sagt það galla við rekstrarumhverfið hversu lítið fólk gerir sér grein fyrir því hversu dýrt það er að þróa hugbúnað og gera það vel. Aðilar sem nota hugbúnaðarlausnir vilja oftar en ekki fá bestu lausnina fyrir lágt verð sem er í engum takti við þróunarkostnað hennar. Við hjá Dineout erum stolt af því sem við höfum gert og til að mynda í covid skrúfuðum við fyrir öll gjöld og stóðum með veitingageiranum í einu og öllu.

Ævi og störf:

Nám: Stúdentspróf af hagfræðibraut VÍ 2006; lauk námi í rekstrarverkfræði frá HR 2010; löggildur verðbréfamiðlari frá sama skóla 2013.

Störf: Flugfreyja hjá Icelandair með hléum 2007 til 2018; hjá eignastýringu Arion banka frá 2009 og vöruþróun frá 2013 til 2015; stofnandi og eigandi Icelandic Coupons frá 2015; forstjóri, stofnandi og eigandi Dineout frá 2017.

Áhugamál: Innanhússhönnun og arkitektúr, líkamsrækt og heilsa, góður matur og matarupplifanir.

Fjölskylduhagir: Í sambúð með Loga Geirssyni handknattleiksmanni.