Jóhann Ólafsson fæddist á Siglufirði 20. júlí 1943. Hann lést á heimili sínu í Kópavogi 17. desember 2023.

Foreldrar hans voru Ólafur Vilhjálmsson, f. 25. mars 1898, d. 29. janúar 1947, og Svava Jóhannsdóttir, f. 6. desember 1915, d. 18. janúar 1990. Systur Jóhanns eru Þóra, f. 1935, og Guðrún, f. 1937. Hálfsystkin samfeðra voru Margrét, f. 1921, d. 2005, Baldur, f. 1925, d. 1967, og Vilhjálmur, f. 1926, d. 2018.

Jóhann giftist Sigurbjörgu Sigurpálsdóttir, f. 29. nóvember 1945. Þau skildu en saman eignuðust þau fjögur börn: 1) Ólafur, f. 21. desember 1968. Synir hans eru Jóhann Davíð og Alexander. 2) Drengur, f. 9. júlí 1972, d. 13. júlí 1972. 3) Sigurpáll, f. 19. ágúst 1974, maki Halla María Svansdóttir. Börn þeirra eru Svanur, Sigurbjörg og Steinunn Marta. 4) Reynir Örn, f. 5. júní 1981, maki Rakel Ösp Hafsteinsdóttir. Börn þeirra eru Ernir Rúnar, Unnur Embla og Elvar Dagur.

Jóhann ólst upp á Siglufirði, lauk þar grunnskólaprófi og nam síðar í Verslunarskólanum. Jóhann starfaði við bókhald, fyrst í Sparisjóðnum á Siglufirði en eftir að hafa flutt til Reykjavíkur vann hann lengst af hjá Loftleiðum og Flugleiðum áður en hann hóf eigin rekstur á seinni árum.

Útför Jóhanns fer fram í Seljakirkju í dag, 27. desember 2023, klukkan 13.

Það er erfitt að kveðja pabba, þó að heilsu hans hafi farið hrakandi síðustu misseri. Kannski var tíminn hans kominn, en erfitt að fá ekki að kveðja almennilega. Ég minnist allra góðu stundanna í æsku þegar hann vildi allt fyrir mann gera. Ég hef ekki tölu á öllum fótboltaleikjum á yngri árum þar sem pabbi var alltaf mættur á hliðarlínuna og skipti ekki máli hvar á landinu það var. Á heimleiðinni þurfti svo auðvitað að kryfja leikinn. Svo voru það allar skíðaferðirnar, hérlendis og erlendis. Pabbi kenndi mér sem krakka á skíði sem ég hef svo haldið áfram með mína krakka.

Pabbi var alinn upp á Siglufirði og mjög stoltur af þeim uppruna. Í minningunni var hann alltaf að segja sögur af lífinu á Siglufirði og ef hann frétti að ég þekkti einhvern sem hafði einhver tengsl þangað var lagst yfir ættartré viðkomandi. Hann ljómaði allur þegar það var hægt að finna tengingu til Siglufjarðar.

Í seinni tíð gátu samskiptin stundum verið erfið, en alltaf skynjaði maður einhverja væntumþykju. Hann vildi bara að fólkinu sínu liði vel. Ég veit ekki hversu oft ég fékk símtal um að laga sjónvarpið eða fjarstýringuna. En innst inn held ég að pabbi hafi bara viljað fá mig í heimsókn og fá fréttir af mér og krökkunum. Ég á eftir að sakna stundanna þar sem við sátum, fórum yfir stöðuna og leystum heimsmálin. Yfirleitt voru þá einhverjar íþróttir í gangi í sjónvarpinu og sá áhugi á íþróttum hefur klárlega smitast yfir til mín líka. Ég á einnig eftir að sakna þess að heyra allar sögurnar frá Siglufirði þó ég hafi heyrt þær allar oft áður.

Blessuð sé minning pabba.

Reynir Örn Jóhannsson.

Nú er elsku pabbi minn búinn að kveðja okkur og horfinn inn í Sumarlandið.

Það er skrítin tilfinning að halda jól og pabbi er ekki nálægur.

Pabbi fæddist á Siglufirði fyrir 80 árum síðan og ólst þar upp á síldarárunum þegar bærinn iðaði af lífi og mannlífið var fjölskrúðugt. Hann missti föður sinn ungur og móðir hans þurfti í framhaldinu að sjá ein fyrir þremur börnum. Lífsbaráttan gat verið erfið fyrir unga ekkju á þessum árum en pabbi minntist alltaf uppvaxtaráranna með mikilli hlýju og þrátt fyrir allt var gott fyrir ungan dreng að alast upp í þessu umhverfi síldaráranna.

Alltaf þegar minnst var á hans heimaslóðir var eins og kæmi glampi í augu hans og í huganum var hann kominn í eitthvert ævintýraland sem þessi ólgandi mannlífspottur var á síldarárunum.

Pabbi var alla tíð mjög stoltur af firðinum sínum og ef hann frétti af einhverjum sem var með tengsl við fjörðinn hans þá fór hann strax í að komast að því hverra manna viðkomandi var. Oft var það með hjálp systra sinna. Á endanum þekkti hann oftast afa eða ömmu viðkomandi væri hann ungur að árum.

Á sumrin fór hann oft í sveitina til afa síns á Krossi í Skagafirði og undi hann sér vel í sveitasælunni.

En öll ævintýri taka enda, síldin kvaddi og pabbi kvaddi fjörðinn sinn og við tók annað ævintýri eftir að pabbi kynntist mömmu. Þau komu sér upp heimili í höfuðborginni og við bræðurnir komum til sögunnar.

Hann lærði bókhald í Verslunarskólanum og starfaði hjá Loftleiðum og síðar Flugleiðum. Það starf átti vel við hann því hann var talnaglöggur og vildi hafa skipulag á hlutunum.

Þar sem foreldrar mínir störfuðu bæði í fluggeiranum þá hafði hann talsverðan áhuga á flugmálum og voru flugmál almennt vinsælt umræðuefni á heimilinu.

Hann var góður bridsspilari og spilaði reglulega í góðum félagsskap.

Hann hafði gaman af að fylgjast með íþróttum þó hann stundaði þær lítið sjálfur. Við bræðurnir deildum þessu áhugamáli með honum og í minningunni eru margar dýrmætar stundir tengdar því. Við fylgdumst með ófáum kappleikjum og skipst var hreinskilningslega á skoðunum um lið og leikmenn, en kannski sérstaklega dómara. Sérstaklega eru minnisstæðar utanlandsferðirnar tengdar þessu áhugamáli og voru það jafnvel okkar bestu stundir saman. Hann fylgdist líka vel með þegar Alexander var í fótbolta og mætti reglulega á leiki hjá honum.

Þegar Jóhann Davíð var að læra á klarínett hafði hann sérstakan áhuga á því þar sem hann hafði sjálfur lært á klarínett á sínum yngri árum á Siglufirði og áttu þeir nafnarnir gott spjall um klarínettleik. Fyrir allar þessar minningar er ég afskaplega þakklátur.

Við sem þekktum hann vissum að honum þótti mjög vænt um fjölskylduna sína og var stoltur af henni og var alltaf til staðar ef á þurfti að halda.

Elsku pabbi minn, nú ertu farinn á fallegan og friðsælan stað og eftir situr minning um góðan föður sem ég elskaði og virti.

Takk fyrir allt, pabbi minn, og hvíl í friði.

Ólafur Jóhannsson

Með örfáum orðum langar okkur að minnast afa okkar, sem kveður okkur í dag.

Jóhann var góður afi og mikil fyrirmynd. Við bræðurnir heimsóttum hann af og til þegar við ólumst upp í Kópavoginum og hann tók alltaf á móti okkur með bros á vör og sýndi lífi okkar mikinn áhuga. Ég man að hann var flinkur klarínettspilari sem kom sér mjög vel því ég æfði á klarínett í nokkur ár, og hann var duglegur að kenna mér ýmis trikk og handagrip. Það var alltaf stutt í hláturinn hjá honum, ekki síst þegar liðið mitt í enska boltanum var að tapa, en við deildum sameiginlegum áhuga á íþróttum og við komum oft við ásamt pabba að horfa á leiki þar sem hann bauð yfirleitt upp á góðan mat. Ég man að mér fannst steikti fiskurinn hans algjört lostæti og ég bað pabba stundum að gera svona fisk í matinn, jafnvel enn í dag. Afi var mjög klár og kom alltaf með góð ráð við þær áskoranir sem við urðum fyrir í lífinu, og erum við mjög þakklátir fyrir það sem hann hefur kennt okkur. Með þessu kveðjum við okkar ástkæra afa. Hvíldu í friði, elsku afi.

Þín barnabörn,

Jóhann Davíð og Alexander.