Leyfisveiting Hvammsvirkjun verður efsta virkjunin í neðri hluta Þjórsár. Á tölvuteikningu sjást stífla og lón og stöðvarhúsið á austurbakkanum.
Leyfisveiting Hvammsvirkjun verður efsta virkjunin í neðri hluta Þjórsár. Á tölvuteikningu sjást stífla og lón og stöðvarhúsið á austurbakkanum. — Tölvuteikning/Landsvirkjun
Það mun ekki standa á Skeiða- og Gnúpverjahreppi að veita framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun þegar að því kemur. Þetta segir sveitarstjórinn Haraldur Þór Jónsson í samtali við Morgunblaðið. Hefur sveitarfélagið þegar farið yfir flest gögn frá afgreiðslu síðustu umsóknar, sem var svo felld úr gildi

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Það mun ekki standa á Skeiða- og Gnúpverjahreppi að veita framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun þegar að því kemur. Þetta segir sveitarstjórinn Haraldur Þór Jónsson í samtali við Morgunblaðið. Hefur sveitarfélagið þegar farið yfir flest gögn frá afgreiðslu síðustu umsóknar, sem var svo felld úr gildi.

„Afstaða okkar hefur ekkert breyst í því máli. Við eigum í raun von á því, þegar Orkustofnun gefur út virkjunarleyfi aftur, að þá í beinu framhaldi fáum við umsókn um framkvæmdaleyfi,“ segir Haraldur.

Umhverfisstofnun hefur kynnt áform um að veita heimild á vatnshloti í Þjórsá 1 vegna 95 MW Hvammsvirkjunar. Endanleg niðurstaða verður tilkynnt að loknum fresti til athugasemda sem er til 17. janúar 2024. Verði heimildin veitt hefur Orkustofnun (OS) umfjöllun um umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun að nýju. Ef virkjunarleyfi verður veitt taka svo sveitarstjórnir afstöðu til veitingar framkvæmdaleyfis og ef það verður veitt gætu framkvæmdir hafist næsta vor, að sögn Landsvirkjunar.

„Virkjunarleyfið féll á einu atriði, ekkert annað hefur breyst. Þannig að ég á nú ekki von á því að þetta kalli á stórkostlega yfirferð, að öll sú vinna sem er búin að eiga sér stað verði lögð til grundvallar og svo horfi menn á þessa breytingu og vinni málið í samræmi við það. Þannig að ég geri ráð fyrir að það taki mun styttri tíma að afgreiða þetta,“ segir Haraldur.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi ákvörðun OS um veitingu virkjunarleyfis úr gildi sl. sumar, en rétt áður en það gerðist hafði sveitarstjórn Rangárþings ytra frestað því að veita framkvæmdaleyfi í ljósi þess að umhverfisnefnd sveitarfélagsins hafði ekki gefið álit sitt á Hvammsvirkjun. Eggert Valur Guðmundsson, oddviti Rangarþings ytra, segir í samtali við Morgunblaðið að engin ákvörðun verði tekin fyrr en umhverfisnefnd hefur skilað sínu áliti.

„Við gefum ekki út neitt framkvæmdaleyfi fyrr en umhverfisnefndin okkar er búin að gefa sitt álit, alveg eins og við afgreiddum þetta síðast, og ég á bara von á því að hún taki þetta fyrir fljótlega eftir áramót,“ segir Eggert.

Hann veit ekki hversu langan tíma það muni taka, þegar að því kemur, fyrir umhverfisnefnd að vinna málið og veita sitt álit en segir þó að það séu engin áform uppi um að tefja málið.

Eggert kveðst skynja jákvæðan anda gagnvart Hvammsvirkjun en segir samt sem áður að það séu skiptar skoðanir á henni í sveitarfélaginu.

„Ég veit svo sem ekki hvernig umhverfisnefndin bregst við. Það er fullt af gögnum sem hún þarf að fara yfir varðandi laxastofninn í ánni og fleira og fleira,“ segir hann en bætir við að sveitarstjórnin sé ekki bundin af áliti umhverfisnefndar.