Hjúkrun „Mikilvægt að gera breytingar og við á Heilsugæslunni Mjódd vorum áhugasöm um þetta fyrirkomulag,“ segir Kristín Þorbjörnsdóttir.
Hjúkrun „Mikilvægt að gera breytingar og við á Heilsugæslunni Mjódd vorum áhugasöm um þetta fyrirkomulag,“ segir Kristín Þorbjörnsdóttir. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Stundum hendir að við náum ekki að sinna öllum sem til okkar leita. Með breyttu fyrirkomulagi ætti slíkt að vera úr sögunni, þannig að hægt sé að sinna öllum sem hingað koma,“ segir Kristín Þorbjörnsdóttir, svæðisstjóri og fagstjóri hjúkrunar á heilgæslustöðinni í Mjódd í Reykjavík

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Stundum hendir að við náum ekki að sinna öllum sem til okkar leita. Með breyttu fyrirkomulagi ætti slíkt að vera úr sögunni, þannig að hægt sé að sinna öllum sem hingað koma,“ segir Kristín Þorbjörnsdóttir, svæðisstjóri og fagstjóri hjúkrunar á heilgæslustöðinni í Mjódd í Reykjavík. Þar hefst nú um áramótin tilraunaverkefni þar sem erindi verða forflokkuð í gegnum síma eða netspjall á Heilsuveru áður en sjúklingar koma á stöðina. Ætla má að fljótt muni reyna á þetta nýja fyrirkomulag því venjan er sú að á fyrstu mánuðum hvers nýs árs fari flensupestir og annar umgangur að krauma. Einmitt þá er mikilvægt að geta leitað ráða hjá góðu fólki í heilbrigðisþjónustunni.

Gerir vinnuna markvissari

Með því að vera í sambandi við fólk á fyrri stigum, hvort sem er í síma 1700 eða á netspjallinu á Heilsuveru, telur starfsfólk heilsugæslunnar sig geta bætt þjónustuna. Eitt er að geta boðið þeim sem þurfa aðstoð fljótt að koma strax, en öðrum – sem ekki eru í bráðum vanda – að koma ögn síðar og sleppa við bið. Með því að vera í sambandi við skjólstæðinga áður en þeir mæta gefst heilsugæslufólki líka kostur á að skrá inn upplýsingar í sjúkraskrá viðkomandi, flýta þannig fyrir og gera alla vinnu markvissari þegar á stöðina er komið.

„Hér er fyrst og fremst horft til þess hóps sem hefur komið í opna móttöku án þess að eiga bókaðan tíma. Á venjulegum degi hafa um 20-30 manns mætt á dag og um 40 á álagsdögum. Svo er alltaf eitthvað um að fólk komi til okkar sem við getum ekki hjálpað öðruvísi en að gefa almenn ráð og biðja það að fara vel með sig þar til því batnar. Nú fær þetta fólk ráðgjöf frá hjúkrunarfræðingi í síma eða netspjalli sem léttir álag hér á stöðinni,“ segir Kristín. Bætir við að þetta nýja fyrirkomulag sé í rauninni frekari þróun á vinnubrögðum sem viðtekin séu orðin inni á heilsugæslustöðvum. Erindi séu flokkuð eftir bráðleika, því sumt megi bíða.

Fólkið er fljótt að meðtaka nýjungar

Kristín hjúkrunarfræðingur segist hafa fulla trú á því að fólk verði fljótt að tileinka sér þessa forgangsröðun. Vel hafi sést í heimsfaraldrinum að til dæmis eldra fólk er almennt fljótt að meðtaka nýungar svo sem Heilsuveru; með þeim mjög svo fjölbreyttu möguleikum sem þar eru í boði.

„Almennt er mikið álag á öllu heilbrigðiskerfinu og við hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins erum alltaf að leita leiða til að tryggja að við náum að sinna þeim sem þurfa á þjónustu að halda. Það hefur alltaf verið eitthvað um að fólk komi á vaktina hjá okkur sem hefði frekar átt að fá tíma seinna, eða þurfti jafnvel ekki að koma. Eins hafa vissulega komið dagar þar sem fólk hefur þurft að bíða lengur en við myndum vilja,“ segir Kristín Þorbjörnsdóttir og bætir við:

„Því er mikilvægt að gera breytingar og við á Heilsugæslunni Mjódd vorum áhugasöm um þetta fyrirkomulag. Við einfaldlega buðum fram krafta okkar þegar leitað var að stöð til að prófa þetta fyrirkomulag til hagsbóta fyrir sjúklinga. Þeirra fyrsta snerting við okkur verður ekki í afgreiðslunni heldur með samtali úr sófanum heima við sérhæft starfsfólk eða hjúkrunarfræðing, sem vísar veginn áfram.“