Fjölskylda <strong>Ingibjörg, Laufey, Katrín, Ingibjörg, Jón, Páll Valdimar, Ásgeir og Bjarni stödd á Hólum árið 2005.</strong>
Fjölskylda Ingibjörg, Laufey, Katrín, Ingibjörg, Jón, Páll Valdimar, Ásgeir og Bjarni stödd á Hólum árið 2005.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Bjarnason fæddist 26. desember 1943 í Asparvík á Ströndum og varð því áttræður í gær. „Það var í norðanstórhríð á jólum 1943. Heimilisfólkið sem hefur verið nánast 20 til 25 manns lá allt í inflúensu sem hafði borist með fólki sem kom að sunnan í jólafrí

Jón Bjarnason fæddist 26. desember 1943 í Asparvík á Ströndum og varð því áttræður í gær. „Það var í norðanstórhríð á jólum 1943. Heimilisfólkið sem hefur verið nánast 20 til 25 manns lá allt í inflúensu sem hafði borist með fólki sem kom að sunnan í jólafrí. Fæðingardagurinn hafði verið settur á upp úr miðjum janúar 1944. En í bullandi flensu fór allt í gang. Afi minn Jón Kjartansson var frískur og tók á móti mér. Hann var jú reyndur yfirsetumaður og hafði tekið á móti öllum sínum 14 börnum. Ljósmóðir kom svo nokkrum dögum seinna þegar veðri slotaði.

Ég fæddist í nýju íbúðarhúsi sem fjölskyldan hafði flust í um haustið, stærsta íbúðarhúsinu í sveitinni. Bæði var farskólinn þar og jólaskemmtanir fyrir fólk á næstu bæjum og mikið fjör og líf. Ég á þar mínar rætur, er kominn af hinni stóru Pálsætt með Jón glóa, galdramann í Goðdal, sem var langalangalangaafi minn.“

Jón ólst upp í Asparvík til sjö ára aldurs, en í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi eftir það. „Þar var gríðarlega stórt tún og flatlendi sem var ekki á Ströndum enda vorum við að flytja úr sjósókn yfir í landbúnað.“

Hann gekk í farskóla í Bjarnarhöfn en síðan í Miðskólann í Stykkishólmi. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1965, búfræðiprófi frá Hvanneyri 1967, búfræðikandídatsprófi frá Ási í Noregi 1970 og var við nám við Landbúnaðarháskólann í Edinborg 1991-92.

Jón vann við almenn landbúnaðarstörf framan af, var kennari við Lækjarskóla í Hafnarfirði 1965-66, við Bændaskólann á Hvanneyri og búvísindadeildina þar 1970-74, stundakennari við Gagnfræðaskóla Stykkishólms 1976-81, bóndi í Bjarnarhöfn 1971-82, kaupfélagsstjóri í Stykkishólmi 1978, skólameistari Bændaskólans á Hólum í Hjaltadal 1981-99, alþm. Norðurlands vestra fyrir Vinstrihreyfinguna - grænt framboð 1999-2003 og Norðvesturkjördæmis frá 2003-2013. Hann var formaður þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 2009 og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2012.

Jón var formaður Búnaðarfélags og Sauðfjárræktarfélags Helgafellssveitar um árabil, oddviti Helgafellssveitar 1978-82, stjórnarformaður Kaupfélags Stykkishólms 1977-81, fulltrúi á aðalfundum Stéttarsambands bænda 1979-82 og fulltrúi í búfræðslunefnd. Jón var formaður Heimssýnar 2014-17.

„Núna er ég að njóta lífsins með fjölskyldunni og vaxandi barnabarnahóp. En að sjálfsögðu fylgist ég með umræðunni og tek þátt í henni á mínum forsendum, er með virka bloggsíðu og skrifa á Facebook og kem mínum sjónarmiðum að þar.“

Jón er með djúpar rætur á Ströndunum, enda Strandamaður í húð og hár, en einnig í Bjarnarhöfn þar sem hann var bóndi og á Hólum þar sem hann var skólastjóri. „Ég fer á Strandirnar oft á ári og reglulega í Bjarnarhöfn. Svo eigum við hjónin lítið hús á Hólum.“

Fjölskylda

Jón kvæntist 28.8. 1966 Ingibjörgu Sólveigu Kolka Bergsteinsdóttur, f. 15.10. 1947, þroskaþjálfa. Þau eru búsett í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Bergsteinn Sigurðarson, 11.5. 1919, d. 11.9. 2003, trésmiður og eftirlitsmaður hjá Reykjavíkurborg, og Ingibjörg Pálsdóttir Kolka, 1.2. 1926, d. 12.3. 2015, húsfreyja í Hafnarfirði. Fóstri Ingibjargar var Zóphanías Ásgeirsson, 1.6. 1924, d. 27.9. 2013, vélstjóri og húsvörður í Hafnarfirði.

Börn Jóns og Ingibjargar: 1) Bjarni, f. 6.6. 1966, fiskifræðingur og alþingismaður, búsettur á Hólum. Kona hans er Izati Zahra. Sonur þeirra er Jón Kolka. Dóttir Bjarna er Kristín Kolka; 2) Ásgeir, f. 21.6. 1970, hagfræðingur og seðlabankastjóri, búsettur í Reykjavík. Maki hans er Helga Viðarsdóttir. Börn Ásgeirs eru Sólveig Kolka, Þórir Kolka og Kjartan Kolka; 3) Ingibjörg Kolka, f. 13.1. 1972, íslenskufræðingur í doktorsnámi, búsett í Reykjavík. Maður hennar er Guðmundur Sæmundsson. Börn þeirra eru Guðbjörg Kolka og Sóley Kolka; 4) Laufey Erla, f. 4.2. 1978, hegðunarráðgjafi hjá Reykjavíkurborg og er að ljúka námi í atferlisfræði, búsett í Kópavogi. Maður hennar er Mikhail Timofeev. Synir þeirra eru Hákon Kolka og Ásbjörn Kolka; 5) Katrín Kolka, f. 29.9. 1982, d. 27.2. 2011, hjúkrunarfræðingur, en maður hennar var Eiríkur Valdimarsson og sonur þeirra er Valdimar Kolka; 6) Páll Valdimar Kolka, f. 1.12. 1983, jarðvegsfræðingur og verkefnastjóri hjá Vegagerðinni, búsettur í Hafnarfirði. Kona hans er Sandra Sif Einarsdóttir. Börn þeirra eru Katrín Kolka og Einar Kolka.

Systkini Jóns: Aðalheiður, f. 26.9. 1932, d. 2.8. 2018, húsfreyja á Kóngsbakka á Snæfellsnesi; Hildibrandur, f. 18.11. 1936, d. 16.11. 2017, bóndi í Bjarnarhöfn; Reynir, f. 11.9. 1938, d. 18.5. 1978, kennari og námsstjóri í líffræði hjá menntamálaráðuneytinu; Ásta, f. 30.11. 1939, húsfreyja á Stakkhamri á Snæfellsnesi; Sesselja, f. 29.8. 1941, húsfreyja í Reykjavík; Karl, f. 28.7. 1945, sútari á Sauðárkróki; Guðrún, f. 4.9. 1946, lífeindafræðingur í Reykjavík; Signý, f. 9.7. 1949, líffræðingur og lífeindafræðingur í Reykjavík; Valgeir, f. 16.6. 1954, fv. yfirkennari á Hólum í Hjaltadal, eftirlitsmaður hjá Matvælastofnun á Selfossi.

Foreldrar Jóns voru hjónin Bjarni Jónsson, f. á Svanshóli á Ströndum 2.9. 1908, d. 10.1. 1990, útvegsbóndi í Asparvík og síðar í Bjarnarhöfn, og Laufey Valgeirsdóttir, f. í Norðurfirði á Ströndum 19.8. 1917, d. 6.2. 2007, húsfreyja.