Óskar Þórðarson framkvæmdastjóri Omnom er ánægður með þann árangur að geta selt erlendis því að það sé alls ekki sjálfgefið.
Óskar Þórðarson framkvæmdastjóri Omnom er ánægður með þann árangur að geta selt erlendis því að það sé alls ekki sjálfgefið. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Það er liðin tíu ár síðan við seldum fyrstu vörurnar okkar. Fyrirtækið hefur stækkað jafnt og þétt og farið í gegnum fullt af erfiðum sköflum eins flestöll nýsköpunarfyrirtæki,“ segir Óskar Þórðarson, einn stofnenda og framkvæmdastjóri Omnom, í samtali við ViðskiptaMoggann

„Það er liðin tíu ár síðan við seldum fyrstu vörurnar okkar. Fyrirtækið hefur stækkað jafnt og þétt og farið í gegnum fullt af erfiðum sköflum eins flestöll nýsköpunarfyrirtæki,“ segir Óskar Þórðarson, einn stofnenda og framkvæmdastjóri Omnom, í samtali við ViðskiptaMoggann. Fyrirtækið fagnar tíu ára afmæli um þessar mundir.

Fjöldi verslana tvöfaldast

Á síðasta ári var Omnom með mestan tekjuvöxt í samanburði við aðrar sælgætisgerðir hér á landi og jukust tekjur um 21% á milli ára, en vöxturinn var meðal annars drifinn áfram af sölu í verslunum Whole Foods í Bandaríkjunum. Spurður um framtíðarhorfur fyrirtækisins segir Óskar að undanfarin ár hafi vörur Omnom verið seldar í 250 verslunum Whole Foods, en á næsta ári muni fjöldinn tvöfaldast.

„Við vorum að fá þær fréttir að Whole Foods ætlar að bæta vörum okkar við í 250 verslanir í viðbót og á næsta ári verða vörur okkar því seldar í 500 verslunum Whole Foods. Það er það stærsta sem er að gerast hjá okkur núna í útflutningi en auk þess náum við að dreifa vörum okkar hérna innanlands á alla staði og fást vörur Omnom í helstu verslunum hér á landi,“ segir Óskar.

Fjárfesta til að stækka

Fyrirtækið kom út í hagnaði í fyrra, en smá tap er á rekstrinum í ár, þar sem fyrirtækið þurfti að fara í ýmsar fjárfestingar og standa straum af einskiptiskostnaði. „Allir kostnaðarliðir hafa hækkað, svo stækkuðum við húsnæðið nýlega. Við höfum einnig þurft að ráðast í mikinn kostnað við gæðaeftirlit og gæðaferla út af Whole Foods-keðjunni,“ segir Óskar.

Hann segir að ef Omnom hefði ekki ráðist í þessar fjárfestingar hefði fyrirtækinu ekki verið lengur kleift að selja vörur sínar í verslunum Whole Foods, sem var um leið ástæðan fyrir því að ekki varð eins mikill vöxtur á þessu ári og í fyrra. „Innkaupin frá Whole Foods stoppuðu í 2-3 mánuði á meðan við vorum að ná okkur í þessa gæðavottun,“ útskýrir hann.

Mjög ánægður með að geta selt erlendis

Það er áhugi víða erlendis á vörum Omnom og að Óskars sögn er það alls ekki sjálfgefið að sælgætisframleiðendur geti selt nammi og sælgæti í öðrum löndum, þar sem slík vara er alla jafna mjög staðbundin við hvert land fyrir sig og þykir almennt ekki mikil útflutningsvara. „Það má nefna sem dæmi lönd eins og Svíþjóð og Þýskaland, en þar er sælgætismarkaðurinn bundinn við innlent sælgæti, og við erum því mjög ánægð með þennan árangur að geta selt erlendis. Aðalmarkaðurinn okkar er Ameríka, fyrir utan Ísland, en við seljum einnig í Kína og Evrópu,“ segir Óskar.