Gunnar Björnsson
Gunnar Björnsson
Þessi barnsfæðing skyldi vera til marks um það ótrúlega, að Messías, hinn smurði Kristur, væri fæddur.

Gunnar Björnsson

Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. (Spádómsbók Jesaja, 9,6)

Þessi barnsfæðing skyldi vera til marks um það ótrúlega, að Messías, hinn smurði Kristur, væri fæddur. Guð hefði komið til skjalanna. Og þetta vekti fögnuð, sem veitast skyldi öllum, alveg öllum. Gleði, sem fengi englakór til þess að syngja.

Skrýtið tákn! Nýfæddur barnungi í jötu. Hvítvoðungur, alinn í gripahúsi. Guð hefur velþóknun á mönnunum. Svona er gjöf hans til þeirra.

Sonur er okkur gefinn. Guð gefur okkur einkason sinn. Og hann fæðist fátækt barn á kaldri vetrarnótt, í einu útihúsanna, sem bændur í Betlehem höfðu í búfénað sinn.

Á hans herðum skyldi höfðingjadómurinn hvíla. Hvernig í ósköpunum mátti það nú vera?

Einn hinna gömlu kirkjufeðra, Híerónýmus (d. 420), svaraði þessu með dálítilli frásögn. Einlægt, þegar mér verður hugsað til Betlehem, sagði hann, tala ég í huganum við Jesúbarnið. Ég segi: Drottinn Jesú, þú skelfur af kulda. Það er ekki eins og þú hvílir í dúnmjúku rúmi – og það fyrir sáluhjálp mína! Hvernig get ég launað þér þetta? Þá finnst mér sem unaðslegt bros leiki um varir barnsins og það svari: Mig vantar ekki neitt, Híerónýmus litli. Vertu bara rólegur. Ég á nú eftir að reyna margt verra en þetta, t.d. í grasgarðinum, að ekki sé nú talað um krossinn helga. Þá held ég áfram: Kæra Jesúbarn! Ég verð að fá að færa þér eitthvað. Ég skal afhenda þér aleigu mína í peningum. Barnið svarar: Heyrðu, bíddu, ég á nú þegar bæði himin og jörð. Ég hef ekkert að gera við aurana þína. Gefðu þá heldur fátækum og þá skal ég þiggja þá. Ég segi: Elsku litla Jesúbarn, þetta vil ég gjarnan, en samt verð ég að fá að skenkja þér eitthvað. Annars verð ég sárhryggur. Barnið: Ágæti Híerónýmus! Fyrst þú ert svona útausandi, þá skal ég segja þér hverju þú skalt buga að mér. Gefðu mér ótta þinn og angist, hugarvíl, áhyggjur og sálarböggling, sorg þína, beiskju, syndir og samviskubit. Þá spyr ég alveg standandi hissa: Hvað ætlar þú svo sem að gera með þetta? Barnið svarar: Ég ætla að taka það á mig. Í því skal dýrð mín og konungdómur fólginn. Hefur ekki Jesaja spáð fyrir um það, að ég eigi að bera syndir þínar burt. Þá vatnaði ég músum og sagði: Barn, þú kemur út á mér tárunum. Ég hélt þú vildir fá eitthvað gott frá mér, og nú vilt þú bara eignast böl mitt, harmkvæli, ólán og afglöp. Æ, taktu þá burt það, sem er mitt! Og gef mér það, sem er þitt! Þá losna ég úr fjötrum syndarinnar og má vera viss um eilífa lífið.

Slíkur er höfðingjadómurinn, sem hvílir á herðum barnsins. Ríki fyrirgefningarinnar. Konungur, sem deyr fyrir fólk sitt. Guð, sem friðþægir fyrir það, sem börn hans hafa brotið af sér.

Ó, Jesúbarn! Má ég ekki líka krjúpa við jötu þína? Ég veit, að ég mun aldrei geta þakkað þér sem vert væri. Og ég veit, að ég verð aldrei fær um að gefa þér neitt það, sem talist geti laun fyrir það, sem þú afrekar. En af því að þú vilt létta af mér því illa, þá er best ég fái þér það allt, líf mitt og sál, fortíð mína og sekt, hið ókomna og eilífðina fram undan. Ég hefði aldrei þorað að koma, nema af því að þú komst til mín. En nú ert þú kominn, Jesú, og það mín vegna. Því fell ég á kné og þakka þér, þú barn, sem ert Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir og Friðarhöfðingi.

Gleðileg jól!

Höfundur er pastor emeritus.