Sigríður Margrét Oddsdóttir Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins Það einkennir oft umræðu um efnahagsmál á Íslandi að leitað er logandi ljósi að sökudólgi í stað þess að líta í eigin barm. Í því samhengi er oft bent á íslensku krónuna

Sigríður Margrét Oddsdóttir Framkvæmdastjóri Samtaka
atvinnulífsins

Það einkennir oft umræðu um efnahagsmál á Íslandi að leitað er logandi ljósi að sökudólgi í stað þess að líta í eigin barm. Í því samhengi er oft bent á íslensku krónuna. Það er þægilegt að telja sér trú um að til séu sársaukalausar töfralausnir á efnahagsáskorunum Íslendinga, eins og til dæmis að skipta bara um gjaldmiðil. Því miður eru slíkar patentlausnir sjaldnast lykillinn og takmarkaður glamúr og glans yfir raunverulegu lausnunum.

Því verður ekki neitað að ef við tækjum upp annan gjaldmiðil, tökum evru sem dæmi, og næðum að fylgja þeim aga sem henni fylgir yrði vaxtastigið hér á landi lægra. Aftur á móti ætti það líka við ef við héldum krónunni en myndum tileinka okkur sama aga. Í báðum tilfellum eru grunnstefin stöðugleiki og öguð hagstjórn. Það er nefnilega tómt mál að taka upp nýjan gjaldmiðil í leit að stöðugleika. Gjaldmiðlar eru ekki rót óstöðugleikans, þeir eru einfaldlega spegilmynd hans.

Það sama má í raun segja um vaxtastigið í landinu. Það er ekki rót vandans heldur afleiðing af óhóflegri verðbólgu og óstöðugleika. Til þess að hægt sé að lækka vexti þurfa efnahagslegar aðstæður að leyfa það, með öðrum orðum þá þarf að skapa skilyrði fyrir stöðugleika. Sterkt og fjölbreytt atvinnulíf, ábyrg ríkisfjármál og skynsamlegir kjarasamningar eru líklegri en skyndilausnir til þess að færa okkur stöðugleika og þar af leiðandi lægra vaxtastig.

Hátt vaxtastig sligar fyrirtæki jafnt sem heimili. Dýrt lánsfjármagn dregur úr fjárfestingu, sem er grundvöllurinn fyrir framtíðarverðmætasköpun og bætt lífskjör. Þegar dregur úr verðmætasköpun minnkar svigrúm til launahækkana. Hlutur launafólks í þeim verðmætum sem sköpuð eru hér á landi er með því mesta sem gerist í heiminum og lífskjör hér á landi eru með því besta sem þekkist.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá liggja hagsmunir atvinnulífs og almennings saman. Við þurfum hugrekki á nýju ári til þess að takast á við erfiðu verkefnin, en það þarf líka kjark og þor til þess að segja hlutina eins og þeir eru.